Melkorka Tekla Ólafsdóttir

Leiklistarráðunautur

Melkorka Tekla Ólafsdóttir er leiklistarráðunautur Þjóðleikhússins.

Melkorka lauk B.A.-prófi í bókmenntum og íslensku frá Háskóla Íslands árið 1992 og lærði leikhúsfræði við Université de la Sorbonne nouvelle í París, en þaðan lauk hún licence-prófi árið 1994 og maîtrise-prófi árið 1995.

Melkorka hefur unnið nokkrar leikgerðir fyrir Þjóðleikhúsið. Hún samdi leikgerð byggða á skáldsögu Kristínar Marju Baldursdóttur Svartalogni og er höfundur leikgerðar sem byggð er á skáldsögu Steinunnar Sigurðardóttur Tímaþjófnum. Leikgerð Melkorku af Tímaþjófnum var tilnefnd til Grímunnar. Melkorka var ásamt Atla Rafni Sigurðarsyni leikstjóra, og leikhópi verksins, handritshöfundur söngleiksins Djöflaeyjunnar, sem var byggð á skáldsögum eftir Einar Kárason. 

Melkorka hefur leikstýrt í Þjóðleikhúsinu Vígaguðinum eftir Yasminu Reza (2008), Nítjánhundruð eftir Alessandro Baricco (2004), Já, hamingjan eftir Kristján Þórð Hrafnsson (2001) og Abel Snorko býr einn eftir Eric-Emmanuel Schmitt (1998). Hún sviðsetti hér ljóða- og söngdagskrána Best að borða ljóð (1999), með tónlist Jóhanns G. Jóhannssonar við ljóð Þórarins Eldjárns. Melkorka leikstýrði Fyrir framan annað fólk eftir Kristján Þórð Hrafnsson í Hafnarfjarðarleikhúsinu (2009) og Vinnukonunum eftir Jean Genet í Kaffileikhúsinu (1997). Hún hefur einnig leikstýrt hjá áhugaleikhópum og í útvarpi.

Melkorka starfaði sem leiklistarráðunautur Ríkisútvarpsins á árunum 1995-97.