Allt leikárið

Tímaþjófurinn

 • Eftir Steinunni Sigurðardóttur
 • Leikstjórn Una Þorleifsdóttir

Einstakt verk um ástina – um óslökkvandi þrá, höfnun og missi. Fimm Grímutilnefningar!

 • Verð 5.500
 • Lengd 1 klst. og 30 mín
 • Frumsýning 23.9.2017
 • Svið Kassinn
 • Tímaþjófurinn
 • Tímaþjófurinn
 • Tímaþjófurinn
 • Tímaþjófurinn
 • Tímaþjófurinn

Tímaþjófurinn hlaut frábærar viðtökur á síðasta leikári og fimm tilnefningar til Grímunnar. Nú hefur verið bætt við örfáum aukasýningum. 

Í þessari óvenjulegu og heillandi sviðsetningu öðlast hin ástsæla skáldsaga Steinunnar Sigurðardóttur nýtt líf. Samspil texta, tónlistar og sviðshreyfinga skapar margslunginn heim ástar, höfnunar og þráhyggju.

Tímaþjófurinn er einstakt verk um leynilegt ástarævintýri, höfnun og missi, og þá sársaukafullu þráhyggju sem ást í meinum getur orðið. Verk skrifað af djúpum mannskilningi og meitluðum húmor.

Tímaþjófurinm hlaut fimm tilnefningar til Grímunnar, eða sem leikrit ársins, fyrir leikstjórn, dans- og sviðshreyfingar  búninga og hljóðmynd.

 

Með betri sýningum leikársins

DV, B.L.

 

… hnitmiðuð og eftirminnileg sýning ... Una heldur fast utan um framvinduna, vinnur vel með gríðarsterkum leikhópi...

SJ, Fbl.

 ...skapa glæsilegt listaverk á sviðinu þar sem hvað styður við annað á áhrifamikinn hátt … Aðdáendur skáldsögunnar flykkjast nú í leikhúsið en óskandi er að þangað rati líka nýir njótendur og sökkvi sér í unaðinn og kvölina í ástarsorg Öldu Ívarsen

SA, tmm.is

Steinunn Sigurðardóttir um sýninguna og bókina

Steinunn Sigurðardóttir í viðtali á RÚV-Menning í kjölfar vel heppnaðrar bókmenntagöngu um Tímaþjófinn, smelltu hér .

"Steinunn segir að texti bókarinnar njóti sín einstaklega vel, en þrátt fyrir að efniviðnum sé sýnd virðing og tryggð þá hafi aðstandendur sýningarinnar tekið sér algjört listrænt frelsi. Hún segir að útkoman sé algjörir töfrar, eins konar jafnvægislist á milli ólíkra forma."

Steinunn Sigurðardóttir

Steinunn SigurðardóttirSteinunn Sigurðardóttir er einn virtasti rithöfundur þjóðarinnar og verk hennar hafa komið út á mörgum tungumálum. Steinunn hefur á ferli sínum frá 1969 sent frá sér fjölda skáldverka, tólf skáldsögur, átta ljóðabækur, smásagnasöfn og barnabók. Ástin og tíminn eru meginefni Steinunnar og í flestum skáldsögum hennar eru óvenjulegar kvenhetjur í aðalhlutverki. Hún hefur einnig samið metsölubækur um tvær íslenskar kvenhetjur, Vigdísi Finnbogadóttur og Heiðu – fjalldalabónda. Steinunn hefur jafnframt skrifað sjónvarps- og útvarpsleikrit.

Steinunn hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin árið 1995 fyrir skáldsöguna Hjartastað. Bækur hennar Síðasta orðið, Hugástir, Sólskinshestur, Góði elskhuginn og Jójó voru tilnefndar til sömu verðlauna. Jójó hlaut Bóksalaverðlaunin 2011. Tvær skáldsögur Steinunnar, Hjartastaður og Tímaþjófurinn, voru af Íslands hálfu tilnefndar til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs. Steinunn hefur þrívegis verið tilnefnd til Menningarverðlauna DV í bókmenntum, fyrir Sólskinshest, Ástin fiskanna og nú síðast fyrir Af ljóði ertu komin 2017. Steinunn hlaut verðlaun Jónasar Hallgrímssonar árið 2014. Hún hlaut Fjöruverðlaunin og Bóksalaverðlaunin fyrir Heiðu – fjalldalabónda árið 2016.

Tímaþjófurinn

TímaþjófurinnSkáldsagan Tímaþjófurinn kom út árið 1986, öðlaðist miklar vinsældir og var tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs árið 1988. Bókin vakti mikla athygli erlendis, ekki síst í Svíþjóð og Frakklandi. Gerð var frönsk kvikmynd byggð á bókinni, Voleur de vie (1999), í leikstjórn Yves Angelo með Emmanuelle Béart og Sandrine Bonnaire í aðalhlutverkum. Tímaþjófurinn er endurútgefinn hjá Bjarti 2017 í tilefni af leikgerð Þjóðleikhússins. 

Margt hefur verið ritað um Tímaþjófinn. Fyrst ber að nefna grein Helgu Kress „Dæmd til að hrekjast“ sem birtist í Tímariti Máls og menningar (1988.1) og vakti mjög mikil viðbrögð. Tvær greinar, þar sem brugðist var við skrifum Helgu um Tímaþjófinn birtust í sama tímariti með nokkru millibili, „Eilífur kallar/kvenleikinn oss“ eftir Guðmund Andra Thorsson (1988.2) og „Hinn kvenlegi lesháttur“ eftir Birnu Bjarnadóttur (1992.2). Guðni Elísson og Alda Björk Valdimarsdóttir sendu árið 2011 frá sér greinasafnið „Hef ég verið hér áður?: skáldskapur Steinunnar Sigurðardóttur“,  en þar er ítarlega fjallað um Tímaþjófinn.

Alda Björk birti jafnframt grein sína „Á frátekna staðnum fyrir mig“ Ást og dauði í Tímaþjófnum í ljósi sálgreiningar“ í Ritinu (2/2006). Torfi H. Tulinius hefur skrifað tvær greinar um Tímaþjófinn í frönsk bókmenntatímarit. Meðal þeirra sem skrifuðu um Tímaþjófinn í kjölfar útkomu bókarinnar voru Vigdís Grímsdóttir (Morgunblaðið, 1986), Guðmundur Andri Thorsson (Þjóðviljinn 1986), Magdalena Schram (Vera, 1986), Soffía Auður Birgisdóttir (19. júní, 1987) og Árni Sigurjónsson (Þjóðlíf, 1987). 

Tvöþúsund steinar

 

Landslag æskunnar útmáð
Klöppin okkar sprengd

fyrir djúpan grunn 
undir ekkert hús.

Við gengum þar í maí. Í maí.

Nú er klöppin tvöþúsund steinar 
dreifð um ókunnug holt

hóllinn okkar eyðiey í umrótinu

Ég man að þú kysstir mig varlega, varlega

Gæslumaður líkamans!

Verndari hugans!

Mér endist ekki ævin til að syrgja þig að verðleikum.

Enginn kom í þinn stað 
enginn fór með mig þangað 
í áfangastaðinn sem draumurinn snerist um

Elskhugi minnar ungu sálar

mér endist ekki ævin . . . 

Ó að ég mætti endurfæðast 
til þess eins að gráta þig.

 

Úr Kartöfluprinsessunni (1987) eftir Steinunni Sigurðardóttur, bls. 16-17

Hjartastaður

Hjartastaður

"Ég  held að ég viti svarið. Að langar samvistir við fólk sem maður elskar út af lífinu séu óþolandi. Stöðug hræðsla um að gera því ekki til hæfis, sífelldur ótti um að það fari sína leið. Ég hugsa að það sé langskást að vera með fólki sem manni þykir vænt um, góðu fólki sem vill vel, skemmtilegu fólki. Skyldi ekki ástin vera það leiðinlegasta, langleiðinlegasta? Ef það væri til stór samveruást á langveginn hlyti hún að drepa elskendurna af sér. Er ekki ástin best í líki bráðageggjunar sem grípur sálir og líkama? Geggjunar sem við eigum að kæfa eftir fæðingu svo hún deyi, en við fáum að muna hana það sem eftir er, hvort sem það er langt eða stutt. Ást í meinum, það er eitthvað fyrir mig, fyrir alla kannski. Það kostar ekki neitt að þrá í hljóði og grjóthugsa sitt. Það er eitthvað fínt við að þrá það sem ekki fæst. Hver sagði að hann vildi engum svo illt að óskir hans rættust. Gæti ekki verið að uppfylling óska í ástamálum væri lúmskasta refsing guðanna? Hvernig skyldi það vera að hafa þráð manneskju árum saman, að hafa beðið eftir henni, að hafa barist fyrir henni? Að hafa sitt fram að lokum. Að elska áfram og vera alltaf í mínus, af því hinn elskar minna. Að komast að leyndum göllum, ómerkilegheitum. Að geta ekki hætt að elska, að mega það ekki, af því að þá hverfur tilgangur lífsins."

Úr Hjartastað (1995) eftir Steinunni Sigurðardóttur, bls. 238

Sólskinshestur

Sólskinshestur

"Um Ástarsorg og ástæður einhleypingsskapar ræddu syrgjendur og þeirra innsti hringur aldrei upphátt. Það var eitt af lögmálunum kringum fyrirbærið. Hins vegar var óstöðvandi hvísl í fjölskyldunum um fjallmyndarlega manninn sem sveik hana, um þessa drós sem hryggbraut hann. Tilfinningaspellvirkjarnir voru nafngreindir og sjaldan ein báran stök því sá myndarlegi og drósin höfðu yfirleitt hryggbrotið fleiri en einn og tvo. Það var dæmigert um óþrjótandi Ástarsorg að fólk sem var lítið fyrir sér eða roð í sjón var verndað fyrir henni. Þessi tegund af æviharmi var frátekin fyrir þá eina sem höfðu reisn, sjarma, siðferðisþrek og góðan karakter. Þar að auki voru ástarsyrgjendur undantekningarlítið glaðsinna áður en sorgin dundi yfir. Þeir sem lifðu af og lentu ekki á Kleppi urðu niðurdregnir fram eftir ævi, en dæmi voru um fólk sem tók gleði sína á nýjan leik upp úr sextugu, þótt það breytti að öðru leyti engu um framgang varanlegrar Ástarsorgar."

Úr Sólskinshesti (2005) eftir Steinunni Sigurðardóttur, bls. 56

Ástin fiskanna

 

Ástin fiskanna

"Það gerist aldrei neitt um leið og það gerist. Allt gerist eftir á. Ég var ekki úti að borða með Hans Örlygssyni á Svörtu rósinni fyrr í kvöld, ég var að því núna. Núna fyrst sá ég manninn í skýru ljósi, hvað hann var myndarlegur á velli, hvað hann stikar reffilega áfram veginn."

Úr Ástin fiskanna (1993) eftir Steinunni Sigurðardóttur, bls. 24

 

Aðstandendur

 • Leikarar Björn Hlynur Haraldsson, Edda Arnljótsdóttir, Nína Dögg Filippusdóttir, Oddur Júlíusson, Snæfríður Ingvarsdóttir
 • Leikgerð Melkorka Tekla Ólafsdóttir
 • Leikstjórn Una Þorleifsdóttir
 • Tónlist Kristinn Gauti Einarsson
 • Hljóðmynd Kristinn Gauti Einarsson
 • Leikmynd Eva Signý Berger
 • Búningar Eva Signý Berger
 • Lýsing Ólafur Ágúst Stefánsson
 • Danshöfundar Sveinbjörg Þórhallsdóttir
 • Höfundar Steinunn Sigurðardóttir
 • Sýningastjórn Guðmundur Erlingsson
 • Búningadeild Ásdís Guðný Guðmundsdóttir, Berglind Einarsdóttir, Ellisif Ýr Hinriksdóttir, Helga Lúðvíksdóttir, Hjördís Sigurbjörnsdóttir, Ingveldur E. Breiðfjörð, Leila Arge
 • Leikmunadeild Ásta S. Jónsdóttir
 • Leikgervadeild Silfá Auðunsdóttir og Þóra Guðbjörg Benediktsdóttir

Næstu sýningar

 • Engin sýning framundan