Leikhúskort

Sala leikhúskorta er hafin!
Tryggðu þér kort núna á aðeins 17.900 kr.

Kaupa leikhúskort

Vertu með í vetur á 70 ára afmæli Þjóðleikhússins

Tryggðu þér 4 sýningar að eigin vali á aðeins 17.900 kr.
Hverju Leikhúskorti fylgir einn aukamiði.


Þjóðleikhúsið fagnar 70 ára afmæli sínu næsta vetur. Af því tilefni fylgir einn aukamiði með hverju Leikhúskorti á einhverja af þeim sýningum sem þú velur í kortið þitt. Þú getur svo boðið hverjum sem þú vilt að njóta með þér leikhúsupplifunar í vetur. Athugið að aukamiði fylgir aðeins kaupum sem gerð eru fyrir 9. september.

Aukamiðann er hægt að nálgast eftir 19. ágúst með því að hafa samband við miðasölu í síma 551-1200 eða á midasala@leikhusid.is

Endurnýjaðu Leikhúskortið fyrir aðeins 17.900 kr. 

Við hlökkum til að sjá þig í Þjóðleikhúsinu á nýju leikári.

 • Frumsýning 19.6.2019

Shakespeare verður ástfanginn

Hrífandi og skemmtileg stórsýning fyrir áhorfendur á öllum aldri

Eldfjörugur, rómantískur gamanleikur þar sem spunnið er frjálslega út frá ævi leikskáldsins Williams Shakespeares. Leikritið, sem er byggt á Óskarsverðlaunamyndinni Shakespeare in Love, var frumsýnt á West End í London árið 2014, fékk afar góðar viðtökur og hefur verið sýnt víða við miklar vinsældir.

Unga skáldið Will Shakespeare óttast að hann hafi glatað skáldgáfunni. Aðalsmeyna Víólu de Lesseps dreymir um að verða leikari, á tímum þar sem samfélagið leyfir einungis karlmönnum að stíga á svið. Shakespeare heillast af þessari skarpgreindu, ákveðnu og listhneigðu ungu konu, og ástin fyllir hann andagift á ný. En elskendurnir lifa á viðsjálum tímum þar sem stéttaskipting er mikil, valdabaráttan harðvítug og stutt er í að sverðin fari á loft.

Leikritið er í senn óður til töframáttar skáldskaparins og leiklistarinnar, og hefur verið kallað "ástarbréf til leikhússins". Fjölmargir leikarar og tónlistarmenn sameina krafta sína við að skapa sannkallaða stórsýningu þar sem horfið er aftur til Elísabetartímans í umgjörð og búningum.

Bráðfyndið og fjörugt verk um eldheitar ástir, baráttuna fyrir því að fylgja köllun sinni í hörðum heimi listarinnar og snilligáfuna sjálfa.

 • Eftir Byggt á kvikmyndahandriti eftir Marc Norman og Tom Stoppard. Aðlagað að leiksviði af Lee Hall
 • Leikstjórn Selma Björnsdóttir
 • Frumsýning 4.10.2019
 • Svið Stóra sviðið

Atómstöðin - endurlit

Nýtt og framsækið leikverk byggt á skáldsögu Nóbelskáldsins Halldórs Laxness

Skáldsaga Nóbelskáldsins Halldórs Laxness Atómstöðin var afar umdeild þegar hún kom út árið 1948, enda fjallaði hún um mikið hitamál í íslensku samfélagi, herstöðvarmálið, sem snerist um „sölu landsins" eða „þátttöku þjóðarinnar í vestrænu varnarsamstarfi", eftir því hvar fólk skipaði sér í fylkingar. Verkið er þó ekki síður ástarsaga Uglu, bóndadóttur að norðan sem kemur til Reykjavíkur til að læra á orgel, og Búa Árlands, þingmanns og heildsala.

Í þessari leiksýningu skoðar ný kynslóð leikhúslistafólks verkið í sögulegu samhengi og skapar krassandi og ögrandi sýningu, fulla af húmor.

Halldór Laxness Halldórsson semur nýtt leikverk, í samvinnu við Unu Þorleifsdóttur leikstjóra, þar sem þau nálgast skáldsögu Halldórs Laxness á ferskan og óvæntan hátt. Brugðið er nýju ljósi á umrót eftirstríðsáranna þar sem þjóð í litlu landi, mitt á milli Washington og Moskvu, stóð frammi fyrir stórum spurningum um framtíð sína. Í brennidepli í verkinu eru þjóðernisvitund og sjálfsmynd, tengsl litlu eyþjóðarinnar við umheiminn og hin eilífu átök auðstéttar og alþýðu.

Halldór Laxness Halldórsson hefur getið sér gott orð sem uppistandari, handritshöfundur og ljóðskáld, en skrifar nú í fyrsta sinn leikverk fyrir Þjóðleikhúsið.

 • Eftir Leikverk eftir Halldór Laxness Halldórsson, í samstarfi við Unu Þorleifsdóttur. Byggt á skáldsögu eftir Halldór Laxness
 • Leikstjórn Una Þorleifsdóttir
 • Frumsýning 1.11.2019
 • Svið Stóra sviðið

Meistarinn og Margaríta

Hnyttin háðsádeila, gædd myrkum töfrum

Skáldsagan Meistarinn og Margaríta er af mörgum talin eitt magnaðasta skáldverk 20. aldarinnar. Þessi hnyttna og beitta háðsádeila um eilífa baráttu góðs og ills er vinsælt verkefni leikhúsa víða um heim, og birtist hér í nýrri leikgerð sem var frumflutt á Dramaten í Svíþjóð árið 2014.

Satan sjálfur heimsækir Moskvu í líki galdramannsins Wolands og ásamt skrautlegu fylgdarliði sínu tekur hann til við að afhjúpa spillingu og græðgi, og fletta ofan af svikahröppum, loddurum, aurasálum og hrokagikkjum. Jafnframt því að fylgjast með bellibrögðum Wolands kynnast áhorfendur Meistaranum, rithöfundi sem hefur verið lokaður inni á geðspítala af yfirvöldum, og ástkonu hans Margarítu, og inn í fjölskrúðugan sagnaheim verksins blandast óvænt frásögn af Pontíusi Pílatusi og síðustu stundum Jesú frá Nasaret.

Þetta sígilda skáldverk talar til okkar með nýjum og ferskum hætti í heillandi sýningu, þar sem allt getur gerst og undramáttur ímyndunaraflsins ræður ríkjum.

 • Eftir Mikhaíl Búlgakof. Leikgerð: Niklas Rådström
 • Leikstjórn Hilmar Jónsson
 • Frumsýning 26.12.2019
 • Svið Stóra sviðið

Útsending

Magnað verk um átök innan fjölmiðlaheimsins og vald fjölmiðlanna, sem hefur slegið rækilega í gegn í London og New York

Fréttamanninum Howard Beale er sagt upp eftir tuttugu og fimm ára starf hjá sömu bandarísku sjónvarpsstöðvakeðjunni. Áhorfið þykir of lítið. Hann tilkynnir áhorfendum að eftir viku muni hann svipta sig lífi í beinni útsendingu og skyndilega er fréttaþátturinn hans orðinn miðpunktur athyglinnar. Sjónvarpsstöðin þarf á auknu áhorfi að halda og Howard er leyft að halda áfram á skjánum. Hann fer að tjá sig reglulega í beinni útsendingu um grimmdina í heiminum, hræsnina og blekkingarnar í þjóðfélaginu og hvetur fólk til að rísa upp.

Spennandi leikrit sem vekur fjölda spurninga um vald fjölmiðla og áhrif þeirra á líf fólks. Nýta fjölmiðlar sér skeytingarlaust mannlega harmleiki og andlegt ójafnvægi fólks í samkeppni sinni um æsilegasta efnið? Eða er einmitt mikilvægt að raddir reiðinnar og sársaukans fái að hljóma hindrunarlaust?

Sýning Breska þjóðleikhússins, sem var á fjölunum bæði í London (2017-18) og New York (2018-19), sló rækilega í gegn og var tilnefnd til fjölda verðlauna. Bryan Cranston (Breaking Bad) hlaut fimm virt leiklistarverðlaun fyrir leik sinn í aðalhlutverkinu, meðal annars Laurence Olivier og Tony verðlaunin.

Leikrit Lee Halls er byggt á Óskarsverðlaunamynd Paddy Chayefskys, Network.

 • Eftir Lee Hall, leikrit byggt á kvikmynd eftir Paddy Chayefsky
 • Leikstjórn Guðjón Davíð Karlsson
 • Frumsýning 21.2.2020
 • Svið Stóra sviðið

Kardemommubærinn

Þjóðleikhúsið fagnar 70 ára afmæli með uppáhaldsleikriti íslenskra barna!

Verk norska listamannsins Thorbjörns Egners hafa verið samofin starfi Þjóðleikhússins allt frá því að Kardemommubærinn var frumsýndur hér árið 1960. Skáldskapur Egners rataði beint að hjarta íslenskra barna og Kardemommubærinn og Dýrin í Hálsaskógi hafa verið sett á svið á Stóra sviði Þjóðleikhússins reglulega allar götur síðan, enda verður hver kynslóð að fá að sjá sinn Kardemommubæ! Verkið er nú sett upp í Þjóðleikhúsinu í sjötta sinn, og er við hæfi að það sé afmælissýning Þjóðleikhússins á 70 ára afmæli þess, enda hefur Þjóðleikhúsið alla tíð lagt sérstaka áherslu á veglegar barnasýningar. Og eins og við vitum þá talar Egner til barna á öllum aldri!

Kardemommubær er hreint indæll bær, fullur af skemmtilegum dýrum og litríkum íbúum. En þrennt ógnar þó friðsældinni í bænum, þrír kostulegir ræningjar, ógurlega ljónið þeirra sem elskar mjólkursúkkulaði og hin ráðríka og skapstygga Soffía frænka! Þegar ræningjarnir láta sér detta í hug að ræna sjálfri Soffíu frænku til sjá um húsverkin færist nú heldur betur fjör í leikinn. 

Fjöldi leikara, barna og tónlistarmanna tekur þátt í þessari bráðskemmtilegu og kraftmiklu sýningu, þar sem yndislegu sönglögin hans Egners gleðja jafnt ung og gömul hjörtu!

 • Eftir Thorbjörn Egner
 • Leikstjórn Ágústa Skúladóttir
 • Frumsýning 18.4.2020
 • Svið Stóra sviðið

ÖR (eða Maðurinn er eina dýrið sem grætur)

Ágengt og tragíkómískt nýtt íslenskt verk sem spyr stórra spurninga

„Ég er að skrifa gegn myrkrinu í heiminum,“ sagði Auður Ava Ólafsdóttir þegar hún hlaut bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs árið 2018 fyrir skáldsöguna Ör, sem kom út árið 2016. Skáldsagan spratt á sínum tíma af uppkasti Auðar Övu að leikriti sem hún hefur nú lokið við að semja. Leikritið er sjálfstætt verk sem lýtur eigin lögmálum, þótt það byggi á sama grunni og skáldsagan.

Jónas Ebeneser, fráskilinn karlmaður á miðjum aldri, fær að vita að uppkomin dóttir hans, Vatnalilja, er í raun barn annars manns. Vængbrotinn og í djúpri tilvistarkreppu reynir Jónas að átta sig á hlutverki sínu í þessum heimi og skilja konur, rétt eins og Svanur, nágranni hans og kórfélagi. Í lífi Jónasar eru þrjár konur; Stella móðir hans sem dvelur á dvalarheimili og er gagntekin af tölfræði stríða, líffræðingurinn Vatnalilja sem er sérfræðingur í súrnun sjávar og innflytjandinn Maí sem starfar á dvalarheimilinu og tekst á við fortíð í stríðshrjáðu landi. En konur geta verið flóknar og margt sem þær varðar sannkölluð ráðgáta. Eða hvað á kona við þegar hún segir við karlmann að hann rekist utan í sjóndeildarhring hennar?

Leikritið ÖR (eða Maðurinn er eina dýrið sem grætur) er í senn órætt, fyndið og ágengt, og spyr áleitinna spurninga um lífið og dauðann, samskipti kynjanna og leit að samastað í veröldinni.

 • Eftir Auði Övu Ólafsdóttur
 • Leikstjórn Ólafur Egill Egilsson
 • Frumsýning 13.9.2019
 • Svið Kassinn

Engillinn

Leiksýning byggð á verkum Þorvaldar Þorsteinssonar

Rithöfundurinn, myndlistarmaðurinn og kennarinn Þorvaldur Þorsteinsson (1960-2013) féll frá langt fyrir aldur fram, en skildi eftir sig fjölda verka sem notið höfðu mikillar hylli, meðal annars örleikrit, leikrit í fullri lengd og handrit fyrir sjónvarp og útvarp. Í leiksýningunni Englinum er arfleifð Þorvaldar heiðruð.

Finnur Arnar Arnarson, myndlistarmaður og leikmyndahöfundur, skapar sýningu upp úr verkum Þorvaldar þar sem saman koma örverk, brot úr lengri verkum og vísanir í myndlist og gjörninga.

 • Eftir Leiksýning eftir Finn Arnar Arnarson, byggð á verkum eftir Þorvald Þorsteinsson
 • Leikstjórn Finnur Arnar Arnarson
 • Frumsýning 21.12.2019
 • Svið Kassinn

Kópavogskrónika

Til dóttur minnar með ást og steiktum

Kópavogskrónika fjallar um unga, einstæða móður sem í kjölfar ástarsorgar dvelst langdvölum í Kópavogi, - bæ sem sagt er að sé slys og hefði aldrei átt að verða til!

Ilmur Kristjánsdóttir og Silja Hauksdóttir skapa ögrandi og skemmtilega leiksýningu upp úr skáldsögu Kamillu Einarsdóttur, sem vakti mikla athygli þegar hún kom út árið 2018.

Kópavogskrónika er hispurslaus ástarsaga úr samtímanum en jafnframt opinskátt verk um samband móður og dóttur. Móðir talar til dóttur sinnar, gerir upp fortíðina og dregur ekkert undan í lýsingum á hömluleysi í drykkju, neyslu og samskiptum við karlmenn. Frásögnin er í senn kjaftfor, hjartaskerandi, kaldhæðin, fyndin og frelsandi.

“Fæst börn eru sérstaklega stolt yfir ríðiafrekum mæðra sinna. Ég get alveg skilið það. En elsku stelpa, þú verður nú að viðurkenna að listinn yfir bólfélaga mína er frekar tilkomumikill.”

Skáldsagan hlaut Rauðu hrafnsfjöðrina, verðlaun sem lestrarfélagið Krummi veitir fyrir forvitnilegustu kynlífslýsingu ársins í íslenskum bókmenntum.

“Það eru alveg atriði sem passa en þetta er skáldskapur, ekki ævisaga. En ég á börn og hætti í menntaskóla til að vinna á strípibúllu, svona smáatriði sem passa. En þetta er ekki ég, og ekki mínar uppáferðir og fyllirí í þessari bók.“ Kamilla Einarsdóttir

„Óþægilega þægileg, sorglega fyndin, átakanlega ljúf og lygilega heiðarleg – svolítið vont-gott.“ Ilmur Kristjánsdóttir

 • Eftir Ilmi Kristjánsdóttur og Silju Hauksdóttur. Byggt á skáldsögu eftir Kamillu Einarsdóttur
 • Leikstjórn Silja Hauksdóttir
 • Frumsýning 14.3.2020
 • Svið Kassinn

Þitt eigið leikrit II - Tímaferðalag

Hvert myndir þú fara?

Þitt eigið leikrit er glæný tegund af leikhúsi sem varð til í Kúlunni í Þjóðleikhúsinu árið 2019. Með þar til gerðum fjarstýringum stjórna áhorfendur sjálfir atburðarásinni!

Í kjölfarið á sýningunni Þitt eigið leikrit I – Goðsaga, kemur ný sýning, Þitt eigið leikrit II – Tímaferðalag. Nýja sýningin er enn lengri og viðameiri en sú fyrri, og nú er haldið af stað í æsispennandi ferð um rúm og tíma!

Ef þú gætir ferðast hvert sem er, fram eða aftur í tíma, - hvert myndirðu fara? Myndirðu reyna að hafa áhrif á fortíðina eða viltu kannski skoða framtíðina? Viltu eignast gæludýr sem er grameðla, reyna að bjarga einhverjum úr fortíðinni eða skjótast út í geim eftir hundrað ár? Valið er þitt!

Leiksýningin Þitt eigið leikrit I – Goðsaga var tilnefnd til Grímunnar sem barnasýning ársins 2019.

Aldursviðmið: 8-16 ára.

 • Eftir Ævar Þór Benediktsson
 • Leikstjórn Stefán Hallur Stefánsson
 • Frumsýning 4.1.2020
 • Svið Kúlan

Brúðumeistarinn

Átakamikil og nýstárleg sýning um uppgjör brúðumeistara við fortíðina

Bernd Ogrodnik er heimskunnur brúðumeistari sem hefur gert Ísland að heimalandi sínu, og er þekktur fyrir einstakt næmi og listfengi. Hann hefur hlotið fjölda verðlauna og viðurkenninga fyrir brúðusýningar sínar fyrir börn og fullorðna. Hér fetar hann ótroðnar slóðir og stefnir saman leikhúsforminu og brúðulistinni í nýrri sýningu fyrir fullorðna, þar sem hann leikur sjálfur brúðumeistara sem tekst á við líf sitt og fortíð.

Leikverkið fjallar um þýska brúðumeistarann Günther sem hefur leitað skjóls frá umheiminum í bráðabirgðahúsnæði í Reykjavík, þar sem hann vinnur að nýrri brúðusýningu. En um leið og hann tekst á við flóknar áskoranir í brúðugerðarlistinni leita á hann knýjandi spurningar um fortíðina og sögu heimalands hans, og harmræna atburði sem hafa mótað foreldra hans og hann sjálfan.

Er mögulegt að flýja fortíðina eða leitar hún okkur alltaf uppi á endanum og krefur okkur svara?

 • Eftir Bernd Ogrodnik
 • Leikstjórn Bergur Þór Ingólfsson
 • Frumsýning 5.3.2020
 • Svið Brúðuloftið

Sjitt, ég er sextugur!

Örn Árnason býður í veislu

Örn Árnason fagnaði sextugsafmæli sínu fyrr á árinu. Af því tilefni efnir hann til stórveislu í Þjóðleikhúskjallaranum.

Örn þarf vart að kynna fyrir íslensku þjóðinni. Hann hefur létt okkar lund í hartnær fjóra áratugi með leik sínum á sviði, í kvikmyndum og sjónvarpsþáttum. Hann átti góðu gengi að fagna með Spaugstofunni og skapaði þar fjölda ógleymanlegra karaktera sem hafa lifað með þjóðinni. Örn hefur í auknum mæli lagt stund á sönglistina og hefur ekki ráðist á garðinn þar sem hann er lægstur á þeim vettvangi. Bogi róni, Afi og, hver veit, Davíð Oddsson kíkja kannski í heimsókn.

 • Eftir Örn Árnason
 • Frumsýning 15.11.2019
 • Svið Þjóðleikhúskjallarinn

Brúðkaup Fígarós

Óperuuppfærsla í samstarfi við Íslensku óperuna

Íslenska óperan setur upp Brúðkaup Fígarós, í samstarfi við Þjóðleikhúsið, á Stóra sviðinu.

Óperan er byggð á gamanleikriti Beaumarchais og er full af fyndnum uppákomum, misskilningi og óvæntum uppljóstrunum. Verkið hefur engu að síður alvarlegan undirtón og felur í sér leiftrandi ádeilu á samskipti yfirstéttar og alþýðu.

Sagan gerist í kastala Almaviva greifa, í nágrenni Sevilla. Hinn kvensami greifi rennir hýru auga til Súsönnu, sem er þjónustustúlka eiginkonu hans. Daginn sem Súsanna á að giftast Fígaró hyggst greifinn nýta sér aldagamlan herrarétt til að sænga hjá henni. Greifafrúin og Súsanna taka höndum saman um að leika á greifann, og klækjabrögð þeirra hafa ýmsar kostulegar afleiðingar.

Ópera um ást, hjónaband, stéttaskiptingu og forréttindi, í nýrri og bráðskemmtilegri farsauppfærslu!

 • Eftir Wolfgang Amadeus Mozart
 • Leikstjórn John Ramster
 • Frumsýning 7.9.2019
 • Svið Stóra sviðið

Einræðisherrann

Sýningin sem sló í gegn. Siggi Sigurjóns fer á kostum!

Meistaraverk Charlies Chaplins á leiksviði, í bráðskemmtilegri, nýrri gerð.

Leikgerð Nikolajs Cederholms af kvikmynd Chaplins The Great Dictator sló í gegn í Þjóðleikhúsinu á síðasta leikári, og eftir áramót gefst færi á að sjá sýninguna að nýju á Stóra sviðinu. Siggi Sigurjóns þótti vinna leiksigur í aðalhlutverkinu, og hin einstaka hljóðmynd sýningarinnar hlaut Grímuverðlaunin, en heiðurinn af henni eiga tónlistarmaðurinn Karl Olgeirsson, leikmunadeild Þjóðleikhússins og Aron Þór Arnarson úr hljóðdeild leikhússins. Anja Gaardbo og Kasper Ravnhöj voru einnig tilnefnd til Grímunnar í flokknum dans- og sviðshreyfingar ársins, en dansar og slapstick-atriði í sýningunni hafa vakið mikla athygli og kátínu.

Leiksýningin er á sinn hátt óður til meistaraverks Chaplins, en um leið vísar hún til samtímans, líkt og kvikmynd Chaplins gerði á sínum tíma.

Hér gefst íslenskum leikhúsgestum kostur á að sjá Sigga Sigurjóns stíga á svið í hlutverki flækingsins sem verður einræðisherra fyrir röð mistaka. Leikhópurinn fer á kostum í takt við listilegar hljóðbrellur Karls Olgeirssonar píanóleikara.

Heillandi, bráðskemmtileg og frumleg leiksýning um valdasýki, möguleika mennskunnar í trylltri veröld og baráttuna fyrir friði í heiminum. 

Leikarahópurinn er með því sterkasta sem hefur sést á sviðinu

SJ, Fbl.


 • Eftir Charlie Chaplin. Leikgerð: Nikolaj Cederholm
 • Leikstjórn Nikolaj Cederholm
 • Frumsýning 26.12.2018
 • Svið Stóra sviðið

Ronja ræningjadóttir

Barnasýning ársins heldur áfram á nýju leikári!

Ronja ræningjadóttir var sýnd nær 100 sinnum fyrir fullu húsi á síðasta leikári og hlaut Grímuverðlaunin sem barnasýning árins 2019.

Nú snýr Ronja aftur á Stóra sviðið til að heilla okkur enn á ný. Stórskemmtilegur og æsispennandi söngleikur fyrir alla fjölskylduna!

Ronja ræningjadóttir er einstök saga um óvenjulega vináttu, heitar tilfinningar, hættuleg ævintýri, sorg og gleði.

Salka Sól fer með titilhlutverkið og stór hópur leikara, dansara, barna og tónlistarfólks tekur þátt í þessari fjörugu og fallegu sýningu.

Sýningar hefjast að nýju á Stóra sviðinu 14. september

 • Eftir Astrid Lindgren. Leikgerð: Annina Enckell. Tónlist: Sebastian
 • Leikstjórn Selma Björnsdóttir
 • Frumsýning 15.9.2018
 • Svið Stóra sviðið

Eyður

Paradís eða prísund? – Ný sýning frá Marmarabörnum

Í Eyðum skoðar sviðslistahópurinn Marmarabörn sambandið á milli eyja og minnis. Hver staður býr yfir minningum, hvert einasta sker á sér mörg þúsund ára sögu. Minningar okkar líkjast skerjum í skerjagarði, sem eru í raun efstu lögin á víðfemu neðansjávarlandslagi. Hvað viljum við muna og hverju reynum við að gleyma í sögunni um okkur sjálf?

Í sýningunni fylgjumst við með örlagaríkri svaðilför fimm strandaglópa sem, eftir að hafa lengi hrakist um hafið, ranka við sér á söndugum ströndum skerjagarðs með óteljandi eyjum. „Hún sagði að paradís væri líklega á einhverri eyjunni en þar væri helvíti líka.“

Marmarabörn (Marble Crowd) skapa sjónræn sviðsverk þar sem hópurinn gerir atrennur að mögulegum og ómögulegum verkefnum. Eyður er önnur sýning þeirra í samstarfi við Þjóðleikhúsið en fyrri sýningin, Moving Mountains, var tilnefnd til gagnrýnendaverðlauna evrópska tímaritsins Tanz 2017 og var tilnefnd til Grímuverðlaunanna 2019 í flokknum danshöfundur ársins.

Flytjendur: Katrín Gunnarsdóttir, Kristinn Guðmundsson, Saga Sigurðardóttir, Sigurður Arent Jónsson og Védís Kjartansdóttir 

Marmarabörn í samstarfi við Þjóðleikhúsið. Verkefnið er styrkt af Mennta- og menningarmálaráðuneytinu - Leiklistarráði.

 • Eftir Marmarabörn
 • Frumsýning 11.5.2019
 • Svið Stóra sviðið

Stormfuglar

Hinn rómaði sögumaður Einar Kárason stígur á svið

Einar Kárason er einn vinsælasti rithöfundur þjóðarinnar. Hér flytur hann okkur magnaða sögu sem hann gerði skil í bók sinni Stormfuglum sem kom út árið 2018.

Stormfuglar er áhrifamikil saga um örvæntingarfulla baráttu íslenskra sjómanna við miskunnarlaus náttúruöfl, á síðutogara sem lendir í aftakaveðri vestur undir Nýfundnalandi. Togarinn hleður á sig ísingu í nístandi frosti og ofsaroki, og klakabrynjan er við það að sliga drekkhlaðið skipið. Frá miðunum í kring berast neyðarköll annarra skipa sem eins er ástatt um. Baráttan er upp á líf og dauða.

Höfundur og flytjandi: Einar Kárason

 • Eftir Einar Kárason
 • Frumsýning 28.9.2019
 • Svið Þjóðleikhúskjallarinn

Skarfur

„Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu auglýsir eftir manni á fertugsaldri. Maðurinn á samkvæmt lögreglu að hafa brotið umgengnisreglur þegar hann sótti börn sín á knattspyrnuæfingu síðastliðinn þriðjudag og hefur hann ekki sést né látið í sér heyra síðan. Maðurinn ekur á hvítum jeppling af gerðinni Dacia Duster sem talinn er vera sami bíll og stolið var frá asískum ferðamönnum á Mývatni fyrr í vikunni. Börnin eru 6 og 8 ára og voru klædd í íþróttafatnað Stjörnunnar og í svörtum úlpum. Lögreglan biður þá sem séð hafa til þeirra að hafa samband í síma..."

Fyrirmyndarlífið og fjölskyldan var eintóm tálsýn. Þorsteinn, ungur fjárfestir og fráskilinn tveggja barna faðir, leggur af stað í leiðangur út í náttúruna þar sem hann hyggst kynna börnin fyrir kjarna lífsins og um leið frelsa sinn innri mann. Breytingin sem við leitum eftir virðist þó hafa tilhneigingu til að verða allt önnur en við lögðum upp með í byrjun.

„Þau eru eins og lítil hreindýr með horn sem vaxa í spíral sem endar í augunum á þeim og veldur hægum og kvalafullum dauða."

SKARFUR er nýtt íslenskt leikverk eftir Kolbein Arnbjörnsson og leikhópinn Lið fyrir lið. Verkið er unnið í samstarfi við Þjóðleikhúsið og er styrkt af Mennta- og menningarmálaráðuneytinu, Leiklistarráði og Uppbyggingarsjóði Austurlands.

 • Eftir Kolbein Arnbjörnsson og leikhópinn Lið fyrir lið
 • Frumsýning 20.3.2020

Gilitrutt

Brúðusýning fyrir alla fjölskylduna byggð á þekktri, íslenskri þjóðsögu

Einstaklega falleg og skemmtileg brúðusýning fyrir alla fjölskylduna, byggð á þjóðsögunni um skessuna Gilitrutt.

Sagan segir frá bóndakonunni Freyju sem er löt til verka og lendir í klónum á Gilitrutt fyrir vikið, en lærir af þeim samskiptum að rækja skyldur sínar og taka ábyrgð á eigin gjörðum.

Brúðumeistarinn Bernd Ogrodnik segir að þessi sýning sé ástaróður sinn til Íslands. Hlýhugur hans til landsins birtist meðal annars í natni við gerð hinnar fallegu leikmyndar, sem er unnin úr þæfðri ull, og brúðunum, sem eru tálgaðar úr íslensku birki. Sýningin er mikið sjónarspil og ber listfengi Bernds fagurt vitni.

Gilitrutt hlaut Grímuverðlaunin sem barnasýning ársins 2011.

Brúður, leikmynd, tónlist og leikur: Bernd Ogrodnik

 • Eftir Bernd Ogrodnik
 • Leikstjórn Benedikt Erlingsson
 • Fyrsti sýningardagur 14.11.2018

Ómar Orðabelgur

Barnasýning um uppruna orða – börnum boðið í leikhús

Eitt af markmiðum Þjóðleikhússins er að bjóða börnum að upplifa töfra leikhússins, burtséð frá búsetu og efnahag, og því stendur það fyrir sérstökum boðssýningum á fjölmörgum stöðum á landsbyggðinni og einnig á höfuðborgarsvæðinu undir yfirskriftinni „Sögustund”.

Við sláumst í för með Ómari Orðabelg í leit að uppruna orðanna. Hvaðan kemur orðið fíll ? Afhverju segjum við fægiskófla? Er appelsína epli frá Kína? Ómar Orðabelgur ferðast um heim orðanna og kynnist allskonar skrýtnum orðum, en eitt orð mun hann kannski aldrei skilja til fulls. Dauðinn. Hvað er að deyja? Og hvað gerist eftir dauðann? Dauðinn er orð sem allir þekkja en veit einhver hvað það þýðir í raun?

Boðssýning á leikferð um landið og Sögustund í Þjóðleikhúskjallaranum.

Frumsýning á Patreksfirði 2. september

Aldursviðmið: 4ra – 8 ára

 • Eftir Gunnar Smári Jóhannesson
 • Leikstjórn Björn Ingi Hilmarsson
 • Frumsýning 7.9.2018

Leitin að jólunum

Jólaglaðningur fyrir alla fjölskylduna!

Grímuverðlaunasýningin Leitin að jólunum hefur verið sýnd á aðventunni við miklar vinsældir allt frá því hún var frumsýnd árið 2005. Verkið er nú sýnt fimmtánda leikárið í röð og eru sýningar orðnar um 350 talsins.

Tveir skrýtnir og skemmtilegir náungar taka á móti litlum leikhúsgestum í anddyri Þjóðleikhússins. Með þeim í för eru tveir hljóðfæraleikarar og þessi fjörugi hópur leiðir börnin með leik og söng um leikhúsið. Börnin ferðast inn í ævintýraveröld jólanna og sjá leikþætti um jólin í gamla daga og á okkar tímum.

Sönglög Árna Egilssonar við Jólasveinavísur Jóhannesar úr Kötlum fléttast inn í ævintýrið.

Sýningar hefjast að nýju á Leikhúsloftinu 16. nóvember

 • Eftir Þorvald Þorsteinsson
 • Leikstjórn Þórhallur Sigurðsson
 • Fyrsti sýningardagur 21.9.2018
 • Svið Leikhúsloftið

>