03. Mar. 2020

Breytingar á skipulagi Þjóðleikhússins

Gerðar hafa verið breytingar á skipulagi Þjóðleikhússins. Markmið breytinganna er að skerpa á skipulagi og skilvirkni með það að leiðarljósi að efla listrænt starf og auka listrænan árangur. Þannig verða skýrari skil á milli verkþátta, með aðgreiningu listræns starfs annars vegar og rekstur leikhússins hins vegar. Nýtt skipulag endurspeglast í nýju skipuriti

Það eru tvær meginstoðir í hinu nýja skipuriti, annars vegar listrænt starf og stefnumörkun sem heyrir beint undir þjóðleikhússtjóra og hins vegar rekstrarsvið undir forystu framkvæmdastjóra þess.

Í nýju skipulagi verður til nýtt rekstrarsvið og mun framkvæmdastjóri sviðsins bera ábyrgð á daglegum rekstri leikhússins sem færist af hendi leikhússtjóra. Framkvæmdastjóri rekstrar stýrir þannig nýju rekstrarsviði leikhússins. Samhliða er lögð aukin áhersla á stefnumörkun og listræna stjórnun í starfi leikhússtjóra.

Sjá stækkaða mynd

Listræn stjórnun:

Þegar hefur verið kynnt til sögunnar teymi fastráðinna listrænna stjórnenda sem var ráðið í kjölfar auglýsingar nú í febrúar en þeir koma í stað verkefnaráðinna listrænna stjórnenda áður. Markmið þess teymis er að efla samtal og framtíðarsýn í listrænni stefnumörkun leikhússins. Þá verður stofnuð ný deild sem kallast „nýir leikhúsgestir – börn og fræðsla“ og kemur í stað tveggja deilda áður sem sinntu sambærilegum verkefnum. Markmið deildarinnar er að bæta þjónustu við börn og ungt fólk.

Rekstrarsvið:

Ný deild á rekstrarsviði sem kallast „samskipti, markaður og upplifun“ hefur það að markmiði að efla samskipti og samtal leikhússins við samfélagið og gesti leikhússins. Það kemur að hluta í stað eldra markaðs- og sölusviðs leikhússins. Á því sviði verður til nýtt starf sem kallast þjónustu- og upplifunarstjóri en markmið þess er að stórbæta þjónustu og upplifun leikhúsgesta allt frá fyrstu samskiptum í gegnum miðasölu og þar til gestir hafa kvatt leikhúsið. Sá starfsmaður mun leiða bætta veitingaþjónustu, ásýnd aðstöðu gesta og fleira.

Undir nýrri deild á rekstrarsviði sem kallast „skipulag, framleiðsla og ferlar“ eru allar sviðs- og tæknideildir leikhússins. Markmið deildarinnar er að bæta skipulag leikhússins sem og framleiðslu og gæðastjórn á öllum sviðum. Í nýju skipulagi fá stjórnendur sviðs- og tæknideilda aukið sjálfstæði og ábyrgð á sínum verkþáttum.

Undir „fjármáladeild“ heyrir fjármálastýring, bókhald og launavinnsla sem var áður á sjálfstæðu sviði, fjármálasviði. Miðasöludeild leikhússins mun bæta við sig því verkefni að sinna móttöku að tjaldabaki eftir breytingu. Samhliða þessum breytingum verður breyting á ráðningarformi fimm stöðugilda leikara, sem áður voru fastráðnar stöður en nú verða þessi stöðugildi nýtt til ráðningar til skemmri tíma. Gefur það tækifæri til meiri sveigjanleika í takt við þarfir sem verkefnval komandi leikárs kallar á.

Í tengslum við skipulagsbreytingarnar verða þrjú ný störf auglýst en samhliða eru önnur eldri störf aflögð. Störfin sem verða auglýst á næstu dögum eru framkvæmdastjóri, verkefnastjóri samskipta, markaðar og upplifunar og þjónustu- og upplifunarstjóri.  

Opnunartími miðasölu

Miðasala Þjóðleikhússins er opin virka daga frá kl. 14 – 18 og til kl. 20.00 á sýningarkvöldum. Um helgar er miðasalan opin frá kl 11 – 18 og til kl 20:00 á sýningarkvöldum

Heimilisfang
Hverfisgata 19, 101 reykjavík
Sjá á korti
Sími