Hallgrímur Helgason

Hallgrímur þýðir Loddarann fyrir Þjóðleikhúsið leikárið 2018-2019.

Hallgrímur Helgason er fæddur í Reykjavík 1959. Hann hefur starfað sem myndlistarmaður frá árinu 1983 og rithöfundur frá árinu 1990. Hallgrímur býr og starfar í Reykjavík og Hrísey.

Eftir Hallgrím liggja tíu skáldsögur, þrjár ljóðabækur, ein barnabók, nokkur leikverk og tveir söngleikir.

Bækur hans hafa þrisvar sinnum verið tilnefndar til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs, tvær hafa verið kvikmyndaðar og þá hlaut hann íslensku bókmenntaverðlaunin 2001 fyrir skáldsöguna Höfund Íslands og 2018 fyrir Sextíu kíló af sólskini, og Menningarverðlaun DV 2001 fyrir leikritið Skáldanótt.

Árið 1998 þýddi hann einleikinn Hellisbúann og árið 2002 þýddi hann leikritið Rómeó & Júlíu eftir Shakespeare fyrir uppfærslu Vesturports. Hann þýddi Óþelló eftir Shakespeare fyrir Þjóðleikhúsið og hlaut fyrir það Íslensku þýðingarverðlaunin 2016.

Einnig skrifaði hann handritið að dönsku kvikmyndinni Comeback (2015).

Meðal leikverka sem byggð hafa verið á skáldsögum Hallgríms eru 101 Reykjavík (Stúdentaleikhúsið 2004, leikgerð Hjálmar Hjálmarsson), Þetta er allt að koma (Þjóðleikhúsið 2005, leikgerð Baltasar Kormákur), Tíu ráð til að hætta að drepa fólk og byrja að vaska upp (Borgarleikhúsið í Salzburg 2011, leikgerð Peter Arp), Konan við 1000°, (Þjóðleikhúsið 2014, leikgerð HH, Una Þorleifsdóttir og Símon Birgisson), og Konan við 1000°, (Aveny T Teater og ýmis leikhús í Danmörku, 2016, leikgerð Solbjörg Höjfeldt).