Ragnheiður Steindórsdóttir

Leikkona

 

Þjóðleikhúsið leikárið 2017-2018.

Ragnheiður leikur í Fjarskalandi.

 

Ragnheiður Steindórsdóttir hefur leikið fjölda hlutverka hjá Þjóðleikhúsinu, LR, LA, ýmsum leikhópum sem og í sjónvarpi og útvarpi. Hún hefur verið fastráðin við Þjóðleikhúsið frá árinu 1983.

Nám

Ragnheiður lauk prófi frá The Bristol Old Vic Theatre School árið 1975.

Þjóðleikhúsið

Meðal nýlegra verkefna Ragnheiðar hér eru Karitas, Fjalla-Eyvindur, Kuggur, Þingkonurnar, Eldraunin, Átta konur, Bakkynjur, Sumarljós, Þrettándakvöld, söngleikurinn Oliver, Hænuungarnir, Vesalingarnir, Dýrin í Hálsaskógi og Leitin að jólunum. Ennfremur lék hún í Segðu mér satt sem var sýnt í samstarfi við Leikfélagið Geirfugl í Þjóðleikhúsinu.

Hér hefur hún farið með mörg aðalhlutverk í söngleikjum, til að mynda lék hún Söru Brown í Gæjum og píum, Fantine í Vesalingunum 1987, Nancy í Oliver 1989 og einnig tók hún við hlutverki Goldu í Fiðlaranum á þakinu 1997. Meðal annarra eftirminnilegra hlutverka hennar má nefna Önnu prinsessu í Ríkharði þriðja, Magdalenu í Heimili Vernhörðu Alba, markgreifafrú Merteuil í Háskalegum kynnum, móður Ísbjargar í Ég heiti Ísbjörg Ég er ljón, Maggie í Dansað á haustvöku, þjónustustúlkuna í Blóðbrullaupi, Ratched yfirhjúkrunarkonu í Gaukshreiðrinu og Siddý í Taktu lagið, Lóa! Hún lék Brynju í Í hvítu myrkri, Pútönu í Leitt hún skyldi vera skækja, Farrah í Poppkorni, Fjólu móttökustjóra í Tveimur tvöföldum og ýmis hlutverk í Krítarhringnum í Kákasus. Hún lék Marie-Therese í Ástkonum Picassos, ýmis hlutverk í Antígónu, Sonju í Laufunum í Toscana, Betsý greifafrú og Mösju heitkonu Nikolajs í Önnu Kareninu, saungprófessorynjuna í Strompleiknum, mömmu Jóa í Jóni Oddi og Jóni Bjarna, Gunnhildi Borkmann í Jóni Gabríel Borkmann, ömmu skógarmús í Dýrunum í Hálsaskógi, Louise og Andreu í Edith Piaf og ýmis hlutverk í Halldóri í Hollywood og Túskildingsóperunni.

Önnur leikhús

Ragnheiður lék ýmis hlutverk hjá Leikfélagi Reykjavíkur að loknu námi, meðal annars Lillu í Saumastofunni, Skáld-Rósu í samnefndu verki og Abbie í Undir álminum. Hún lék hlutverk Elísu Doolittle hjá Leikfélagi Akureyrar í My Fair Lady, í Glæsipíum með Alþýðuleikhúsinu og í vetur lék hún í Fyrirgefðu ehf. með Málamyndahópnum í Tjarnarbíói.

Kvikmyndir og sjónvarp

Ragnheiður hefur farið með fjölmörg hlutverk í útvarpi og sjónvarpi og lék m.a. aðalkvenhlutverkið í framhaldsmyndaflokknum Út í óvissuna hjá BBC Scotland sjónvarpsstöðinni. Hún fór með hlutverk Auðar í kvikmyndinni Útlaganum.

Í vetur má sjá Ragnheiði í hlutverki Sigrúnar borgarritara í sjónvarpsþáttunum Borgarstjórinn.