Harpa Arnardóttir

Leikkona

Harpa leikur í  Föðurnum í Þjóðleikhúsinu leikárið 2017-2018.

Harpa hefur starfað sjálfstætt sem leikari og leikstjóri. Hún hefur leikið í fjölda sýninga hjá Leikfélagi Reykjavíkur, Þjóðleikhúsinu og sjálfstæðum leikhópum og leikstýrt hjá Þjóðleikhúsinu, Borgarleikhúsinu, Nemendaleikhúsinu og víðar.

Harpa útskrifaðist úr Leiklistarskóla Íslands árið 1990 og lauk meistaranámi í ritlist við Háskóla Íslands.

Í Þjóðleikhúsinu lék Harpa í Þingkonunum, Heddu Gabler, Finnska hestinum, Kennarar óskast, Nönnu systur, Skilaboðaskjóðunni og Gleðispilinu, auk þess sem hún lék í Sjöundá á vegum Aldrei óstelandi í Þjóðleikhúsinu.

 

Hjá Leikfélagi Reykjavíkur  var Harpa meðal annars hluti af leikhóp sem starfaði undir stjórn Benedikts Erlingssonar á Nýja sviðinu í tvö ár, og var hún tvívegis tilnefnd til menningarverðlauna DV fyrir störf sín þar. Meðal verkefna Hörpu í Borgarleikhúsinu eru Ég er hættur farinn ég er ekki með í svona asnalegu leikriti, Vetrarævintýri, Jón og Hólmfríður, Maðurinn sem hélt að konan hans væri hattur, Fyrst er að fæðast, Abigail heldur partý, Dauðasyndirnar, And Bjork of course og Sporvagninn Girnd. Hún lék ennfremur í Húsi Bernörðu Alba hjá LR í Íslensku óperunni.

Af uppfærslum með sjálfstætt starfandi leikhópum má nefna Woyzek hjá Vesturporti/Barbican Center, Hundrað ára hús, Kirsuberjagarðinn og Rhodimenia palmata hjá Frú Emilíu, Í djúpi daganna og Draumsólir vekja mig hjá Íslenska leikhúsinu, Steinar í djúpinu, Ragnarök 2002 og Heima er best hjá Lab Loka og Dimmalimm og Júlíu og Mánafólkið hjá Augnabliki. Hún sýndi Dýrlingasögur á Listasafni Íslands og samdi sjálf fjórar af tíu sögum.

Harpa hefur hefur leikið í útvarpi, sjónvarpi og kvikmyndum, nýlega í Stóra planinu og Kurteisu fólki í leikstjórn Ólafs Jóhannessonar.

Harpa leikstýrði Karitas og Jónsmessunótt í Þjóðleikhúsinu. Hún leikstýrði Brúðuheimili í Borgarleikhúsinu.

Hún leikstýrði og gerði leikgerðir fyrir Blíðfinn og Rómeó, Júlíu og Amor hjá Borgarleikhúsinu og Tristan og Ísól hjá Augnabliki. Hún leikstýrði Náttúruóperunni eftir Andra Snæ Magnason í MH, Þremur systrum eftir Anton Tsjekhov í Nemendaleikhúsinu og Súldarskeri eftir Sölku Guðmundsdóttur hjá Soðnu sviði í Tjarnarbíói. Hún leikstýrði einnig Hættuför í Huliðsdal hjá Soðnu sviði í samstarfi við Þjóðleikhúsið.

Harpa er áhugamanneskja um íslenska leikritun og hefur tekið þátt í frumuppfærslum á hátt í þrjátíu nýjum íslenskum verkum.

Harpa hefur einnig kennt leiklist hér heima og erlendis, meðal annars í Listaháskólanum, Leiklistarskóla áhugaleikfélaganna og Kramhúsinu, og haldið fjölmörg listmiðjunámskeið.

Harpa stofnaði listafélagið Augnablik árið 1991. Markmið félagsins er að vera vettvangur fyrir listsköpun, rannsóknir og fræðslu. Félagið hefur sett upp leiksýningar, haldið tónleika og námskeið og staðið fyrir ferðum inn á hálendi Íslands.

Harpa hlaut Grímuna 2009 fyrir leik sinn í Steinar í djúpinu hjá Lab Loka í Hafnarfjarðarleikhúsinu, en auk þess var hún tilnefnd til Grímunnar fyrir Sjöundá, And Bjork of course, Sporvagninn Girnd, Dauðasyndirnar og Dubbeldusch hjá LA. Hún var tilnefnd ásamt samstarfsfólki sínu til Grímunnar fyrir handritið að Dauðasyndunum 2009.