Sögustund fyrir leikskóla

19. október 2018 Fræðsla Um starfið

Þjóðleikhúsið hefur allt frá upphafi lagt mikla áherslu á barnasýningar og leikhúsuppeldi og  boðið upp á heillandi barnasýningar.

Með Sögustund vill Þjóðleikhúsið leggja sitt af mörkum til að kynna börnum heim leikhússins, því að leikhúsferðir geta veitt ungum sem öldnum mikla gleði, örvað þroska og eflt hæfileika okkar til að takast á við lífið og tilfinningar okkar. Í fjölda ára hefur Þjóðleikhúsið boðið efstu bekkjardeildum leikskóla í heimsókn og boðið upp á leiksýningar sem henta fyrir þann aldur. Auk þess eru skipulagðar leikferðir þar sem börnum á landsbyggðinni er boðið að upplifa leikhús. Það er markmið Þjóðleikhússins að bjóða öllum börnum að upplifa leikhús burtséð frá búsetu og efnahag.