Barnastarf

06. september 2018 Um starfið

Þjóðleikhúsið hefur allt frá upphafi árið 1950 lagt mikla áherslu á barnasýningar og leikhúsuppeldi, einkum með glæsilegum sýningum á Stóra sviðinu. Það hefur alltaf verið vandað vel til verka. Bestu leikarar leikhússins hafa heillað unga áhorfendur og heilu fjölskyldurnar. Börnin fá að kynnast leikhúsinu á unga aldri og halda svo áfram að fara í leikhús alla tíð

Með árunum hefur  nýjum íslenskum barnaleikritum sem samin eru fyrir leikhúsið fjölgað, og nú frumsýnir Þjóðleikhúsið amk. eitt nýtt íslenskt verk á hverju ári.

 Árið 2006 var opnað sérstakt svið fyrir barnasýningar í Þjóðleikhúsinu og hlaut það nafnið Kúlan. Kúlan er helguð fyrstu leikhúsreynslunni og  leiklistaruppeldi þar sem ungir áhorfendur fá að kynnast leikhúsinu og töfrum þess. Í Kúlunni er boðið upp á Sögustund fyrir leikskólabörn, smábarnasýningar og smærri barnasýningar.

Árið 2013 var stofnað sérstakt brúðuleikhús á Brúðuloftinu. Brúðuloftið er samastaður Brúðuheima, leikhúss Bernds Ogrodniks, brúðuleikara og brúðugerðarmeistara. Á Brúðuloftinu er boðið upp á heillandi brúðusýningar fyrir börn og alla unnendur brúðleikhúss.

Frá árinu 2005 hefur leikhúsið sýnt Leitina að jólunum, sem er ferðalag fimm leikara og tveggja hljóðfæraleikara um Þjóðleikhúsið, byggt á íslenskum þjóðsögum og kvæðum um jólin. Sýningar eru orðnar hátt á fjórða hundrað talsins og börn og fullorðnir skemmta sér konunglega saman.

 Sögustund

Á hverju hausti býður Þjóðleikhúsið börnum í elstu deildum leikskóla (þeim að kostnaðarlausu) í heimsókn í leikhúsið með kennurum sínum til að kynnast töfraheimi leikhússins. Með Sögustund vill Þjóðleikhúsið leggja sitt af mörkum til að kynna börnum heim leikhússins, því að leikhúsferðir geta veitt ungum sem öldnum mikla gleði, örvað þroska og eflt hæfileika okkar til að takast á við lífið og tilfinningar okkar. Sögustund hefur notið mikilla vinsælda hjá leikskólum og á hverju hausti hafa vel á fimmta þúsund leikskólabörn frá allflestum leikskólum á höfuðborgarsvæðinu komið í heimsókn til okkar í leikhúsið. Sögustund hefur verið á hverju ári síðan 2009 og þar hafa verið frumsýnd 5 ný íslensk leikrit ásamt öðrum verkum.

 Skoðunarferðir um leikhúsið

Frá árinu 2000 hafa komið í Þjóðleikhúsið í skoðunarferðir um það bil 50 hópar á hverju ári og er fjöldi þessara gesta á bilinu 1-2000. Fjölmargir skólahópar, allt frá leikskólabörnum til háskólanema, fá þar að kynnast sögu leikhússins og því sem unnið er á bak við tjöldin í tæknideildum. Nemendur koma líka í starfskynningar og fá þá nánari innsýn í leikhússtarfið og vinna svo verkefni í skólanum um heimsóknina.

 Þjóðleikhúsið og börn á landsbyggðinni

Það er Þjóðleikhúsinu mikilvægt að ungt fólk á landsbyggðinni geti notið listar óháð búsetu og fjárhag.

Leikárið 2017-2018 i frumsýndi Þjóðleikhúsið  nýtt íslenskt leikrit sem er sérstaklega miðað að börnum á aldrinum 9-12 ára (Miðstig grunnskóla) Verkið heitir Oddur og Siggi og er leikið af leikurunum Oddi Júlíussyni og Sigurði þór Óskarssyni. Leikstjóri er Björn Ingi Hilmarsson og frumsýnt var á Ísafirði 3 október. Þessi sýning fer síðan á leikferð um landið og er gert ráð fyrir að sýna fyrir 3000 - 4000 börn  frá 40 - 50 bæjarfélögum. Þjóðleikhúsið mun bjóða börnum á sýninguna þeim að kostnaðarlausu. Með þessu vill Þjóðleikhúsið leggja sitt af mörkum til að kynna börnum á landsbyggðinni heim leikhússins.

 Leikárið 2016/2017 fórum við í leikferð með sýninguna “Lofthræddi örninn Örvar” en sú sýning var miðuð að aldrinum 5-7 ára. Frumsýnt var í Vestmannaeyjum, og í kjölfarið farið í leikferð og sýnt á yfir 20 stöðum, fyrir börn frá um það bil 40 bæjarfélögum.

 

Þjóðleikur

Þjóðleikur er afar stórt og afar farsælt samstarfsverkefni Þjóðleikhússins og margra menningarráða grunn- og framhaldsskóla, sveitarfélaga og áhugaleikfélaga á landsbyggðinni.

 Eitt af því sem kemur í veg fyrir að skólar setji oftar upp leiksýningar er skortur á vönduðum styttri leikverkum fyrir unga leikara. Þjóðleikhúsið lætur því þekkt íslensk leikskáld skrifa sérstaklega ný íslensk leikrit fyrir þessa hópa sem þeir geta valið úr til uppsetningar.                       
Þjóðleikhúsið veitir síðan  þeim hópum sem taka þátt í Þjóðleik aðstoð í formi faglegrar ráðgjafar og námskeiðum þar sem tekið er á þáttum eins og sviðsetningu, sviðstækni, leikstjórn og skipulagi æfingaferlis.                                                                                                                                        Hver hópur sýnir í sinni heimabyggð, en einnig eru lokahátíðir að vori þar sem allar sýningar í hverjum landshluta koma saman á stórri leiklistarhátíð. Hátíðirnar eru einstakt tækifæri fyrir ungt áhugafólk um leiklist til þess að koma saman, sýna afrakstur erfiðis síns og setja eigin verk í samhengi við annarra.

Verkefnið er tvíæringur þar sem fyrra árið er undirbúningsár og það síðara framkvæmdaár.
Þjóðleikur fór fram í fyrsta sinn á Austurlandi veturinn 2008-2009.

Milli 20-30 leiksýningar hafa verið frumsýndar á vegum þjóðleiks og alla jafna koma milli 4-500 ungmenni að verkefninu í hvert sinn. Oftast sýna hóparnir fyrir skólana sína auk sýninga fyrir fjölskyldu, vini og bæjarbúa. Og skipta áhorfenur þúsundum, börn og fullorðnir.

 

Yfirlýst markmið Þjóðleiks frá uphafi hafa verið:

Að -  efla áhuga ungs fólks á leiklist.

Að -  tengja Þjóðleikhúsið landsbyggðinni.

Að -  styrkja fagflekkingu í leiklist í skólum og hjá áhugaleikfélögum.

Að -  efla íslenska leikritun.