Þorvaldur Þorsteinsson

  • Thorvaldur-Thorsteinsson

Þjóðleikhúsið sýnir leikárið 2019-2020 sýninguna Engilinn, sem er byggð á textum og myndlist eftir Þorvald Þorsteinsson, og aðventuleikrit hans Leitina að jólunum

Rithöfundurinn, myndlistarmaðurinn og kennarinn Þorvaldur Þorsteinsson (1960-2013) féll frá langt fyrir aldur fram, en skildi eftir sig fjölda verka sem notið höfðu mikillar hylli, meðal annars örleikrit, leikrit í fullri lengd og handrit fyrir sjónvarp og útvarp. 

Þorvaldur stundaði nám við Myndlistaskólann á Akureyri 1977 – 1981, lauk prófi frá nýlistadeild Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1987 og frá Jan van Eyck Akademie í Maastricht í Hollandi 1989. Þorvaldur starfaði jöfnum höndum sem myndlistarmaður og rithöfundur. 

Hann hélt yfir 40 einkasýningar, tók þátt í tugum alþjóðlegra myndlistarviðburða og sýninga víða um heim og fékk viðurkenningar og stór alþjóðleg verðlaun fyrir framlag sitt til samtímamyndlistar. 

Þorvaldur skrifaði fjölda leikverka fyrir svið, útvarp og sjónvarp, allt frá því hann flutti Vasaleikrit sín vikulega í Ríkisútvarpinu veturinn 1991-1992. Verk Þorvaldar sem sett hafa verið upp eru: Skilaboðaskjóðan (1993 og 2007) og aðventusýningin Leitin að jólunum, með tónlist Árna Egilssonar við jólasveinavísur Jóhannesar úr Kötlum, (frá árinu 2005) í Þjóðleikhúsinu. And Björk, Of Course (2002) og Sekt er kennd (2003) hjá Leikfélagi Reykjavíkur. Við feðgarnir (1998) hjá Leikfélagi Hafnarfjarðar. Prumpuhóllinn (2001) fyrir Möguleikhúsið og Sveinsstykki (2004) fyrir Íslenska leikhúsið. Hann skrifaði ennig Það var barn í dalnum (2001) og Draumlausi maðurinn (2007) fyrir STOPP leikhópinn. Maríusögur (1995) fyrir Nemendaleikhúsið. Ég var beðin að koma (1997) og Ævintýrið um ástina (1999) fyrir Kaffileikhúsið og Bein útsending (1997) fyrir Leikfélag Íslands.