Magnea J. Matthíasdóttir

  • Magnea-J.-Matthiasdottir

Magnea þýddi leikgerð Nikolajs Cederholm af Einræðisherranum, sem er jólasýning Þjóðleikhússins 2018. Hún þýddi einnig Ég heiti Guðrún eftir Rikke Wölck sem var sýnt í Kúlunni í samstarfi við Leiktóna í október 2018. Hún þýddi söngtexta fyrir Jónsmessunæturdraum.

Magnea lauk stúdentsprófi frá fornmáladeild MR 1970 og las sálfræði við Kaupmannahafnarháskóla í tvö ár en sneri sér þá að þýðingum og ritstörfum meðfram annarri vinnu. Árið 2010 hóf hún nám í þýðingafræði við Háskóla Íslands og lauk meistaraprófi þaðan árið 2012. Hún leggur nú stund á doktorsnám í þýðingafræði við HÍ og er stundakennari í þýðingum og þýðingafræði við skólann.

Magnea hefur sent frá sér ljóðabókina Kopar (1976) og þrjár skáldsögur, Hægara pælt en kýlt (1978, 2. útg. 2013), Göturæsiskandídatar (1979) og Sætir strákar (1981) og kvæðakverið Jólasveinar af fjöllum í fellihýsi (2008), en einnig birt smásögur, ljóð og barnasögur á ýmsum vettvangi, bæði í prentmiðlum og útvarpi.

Magnea þýddi Hleyptu þeim rétta inn eftir Jack Thorne sem var sýnt í Þjóðleikhúsinu 2016. Hún hefur einnig þýtt og samið önnur leikverk.

Magnea er afkastamikill þýðandi og hefur tvívegið hlotið barnabókaverðlaun Reykjavíkurborgar fyrir bestu þýðingu (fyrir Hungurleikana 2012 og Kvöldsögur fyrir uppreisnargjarnar stelpur 2018). Hún sat í stjórn Bandalags þýðenda og túlka frá 2011-2013 og var formaður félagsins 2013-2017. Hún hefur einnig gegnt trúnaðarstörfum fyrir Rithöfundasamband Íslands og setið í tilnefningarnefnd til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs fyrir hönd Íslands.