Lee Hall

Lee Hall skrifaði handrit að Shakespeare verður ástfanginn og Útsendingu sem sýnd eru í Þjóðleikhúsinu leikárið 2019-2020.

Breska leikskáldið Lee Hall (f. 1966) hefur samið fjölda leikrita og söngtexta og skrifað handrit kvikmynda og sjónvarpsþátta. Meðal þekktustu verka hans eru handrit kvikmyndarinnar Billy Elliot (2000), og handrit og söngtextar í samnefndum söngleik (London, 2005 og New York, 2008), og handrit kvikmyndarinnar Rocketman (2019), sem er byggð á ævi Eltons John. 

Nokkur leikverk Lees Hall hafa verið sýnd á Íslandi, söngleikurinn Billy Elliot, Ausa Steinberg (Spoonface Steinberg), Eldað með Elvis (Cooking with Elvis) og nú leikgerð hans byggð á kvikmyndinni Shakespeare verður ástfanginn (Shakespeare in Love) og leikgerð hans byggð á kvikmyndinni Útsendingu (Network). 

Lee Hall hefur meðal annars hlotið Tony-verðlaunin, Evening Standard-verðlaunin og Laurence Olivier-verðlaunin fyrir verk sín.