Kristján Þórður Hrafnsson

Kristján Þórður þýðir leikritin Shakespeare verður ástfanginn og Útsendingu sem sýnd verða í Þjóðleikhúsinu leikárið 2019-2020.

Kristján Þórður er leikskáld, ljóðskáld, skáldsagnahöfundur og þýðandi.

Kristján Þórður stundaði nám í bókmenntum við The New School for Social Research í New York og lauk B.A.-prófi í almennri bókmenntafræði frá Háskóla Íslands árið 1992. Hann lauk meistaraprófi í bókmenntum frá Sorbonneháskóla í París árið 1995.

Fyrsta leikrit Kristjáns Þórðar Leitum að ungri stúlku hlaut fyrstu verðlaun í hádegisleikritasamkeppni Leikfélags Íslands og var sýnt í Iðnó. Þjóðleikhúsið hefur sviðsett tvö leikrit eftir Kristján, Já, hamingjan og Böndin á milli okkar, auk þess sem útskriftarárgangur leikarabrautar Listaháskóla Íslands sýndi leikrit hans Aðfaranótt í Þjóðleikhúsinu.  Leikrit Kristjáns Fyrir framan annað fólk var sett upp í Hafnarfjarðarleikhúsinu og síðar í Iðnó. 

Kristján Þórður hefur einnig skrifað leikrit fyrir Útvarpsleikhúsið.

Kristján Þórður skrifaði handrit kvikmyndarinnar Fyrir framan annað fólk ásamt Óskari Jónassyni leikstjóra, en myndin er byggð á samnefndu leikriti Kristjáns.

Leikrit Kristjáns Þórðar Böndin á milli okkar og Fyrir framan annað fólk voru tilnefnd til Grímunnar-Íslensku leiklistarverðlaunanna.

Kristján Þórður hefur sent frá sér skáldsögurnar Hugsanir annarra og Hina sterku og ljóðabækurnar Í öðrum skilningi, Húsin og göturnar, Jóhann vill öllum í húsinu vel og fleiri sonnettur og Tveir Elvis Presley aðdáendur og fleiri sonnettur.

Kristján Þórður hefur þýtt fjölmörg leikrit úr frönsku og ensku fyrir Þjóðleikhúsið, Borgarleikhúsið, Útvarpsleikhúsið og ýmsa leikhópa. Hann hefur einnig þýtt fyrir Íslensku óperuna. Af þýðingum hans má nefna Ríkharð III eftir William Shakespeare, Föðurinn eftir Florian Zeller, Efa eftir John Patrick Shanley, Eldraunina eftir Arthur  Miller, Abel Snorko býr einn, Hjónabandsglæpi og Gestinn eftir Eric-Emmanuel Schmitt, Vilja Emmu eftir David Hare, Lífið þrisvar sinnum og Vígaguðinn eftir Yasminu Reza, Abigail heldur partí eftir Mike Leigh, Í einsemd bómullarakranna eftir Bernard-Marie Koltès, Frankie og Johnny eftir Terrence McNally, Fífl í hófi eftir Francis Veber og Mannsröddina eftir Jean Cocteau. Hann hefur jafnframt þýtt ljóð og söngtexta, meðal annars fyrir leikritið Edith Piaf í Þjóðleikhúsinu.