Hallveig Kristín Eiríksdóttir

  • Hallveig-Kristin-Eiriksdottir
Hallveig Kristín er aðstoðarleikstjóri í Samþykki og Loddaranum í Þjóðleikhúsinu leikárið 2018-2019.

 Hallveig Kristín útskrifaðist af sviðshöfundabraut Listaháskóla Íslands vorið 2018 en hafði áður stundað nám í leikmyndahönnun við Centro Universitario de Artes TAI í Madrid, og þar áður myndlist í Georgia Southern University í Bandaríkjunum.

Hallveig hefur unnið í samsköpunarferli með ýmsum sviðslistahópum á undanförnum árum, og þá einblínt á sjónræna hlutann og leikstjórn. Hún er stofnmeðlimur fjölllistahópsins CGFC, en með honum hefur hún sett upp fimm sviðsverk sem ferðast hafa um landsbyggðina og Norðurlönd frá árinu 2015. Með CGFC starfar Hallveig í flötum strúktúr sem leikmyndahönnuður, höfundur og flytjandi, og vinnur sem stendur að nýju verki þeirra Kartöflur í samstarfi við Halldór Eldjárn, sem frumsýnt verður sumarið 2019.

Veturinn 2018-19 vinnur Hallveig með leikmyndahönnuðinum David Orrico, en saman leiða þau röð smiðja í listarýminu El Matadero í Madrid og vinna saman að sýningunni Reconocimiento, sem sýnd verður á vormánuðum 2019, bæði á Íslandi og á Spáni. Einnig er hún leikmyndahönnuður finnska sviðslistahópsins Blaue Frau og frumsýnir með þeim verkið Harlequin í Helsinki í júní 2019.