Halldór Laxness Halldórsson

  • Halldór Laxness Halldórsson

Halldór Laxness Halldórsson er, í samvinnu við Unu Þorleifsdóttur leikstjóra, höfundur leikgerðarinnar Atómstöðin - endurlit sem Þjóðleikhúsið sýnir leikárið 2019-2020.

Halldór Laxness Halldórsson betur þekktur sem Dóri DNA, er íslenskur leikari, höfundur og uppistandari. Halldór kláraði stúdentspróf frá Menntaskólanum við Hamrahlíð árið 2006 og útskrifaðist af Sviðshöfundabraut LHÍ árið 2011. Hann er meðlimur í uppistandshópnum Mið Ísland, ásamt Ara Eldjárn, Jóhanni Alfreð Kristinssyni, Bergi Ebba Benediktssyni og Birni Braga Arnarssyni.

Halldór var upphaflega rappari, með hljómsveitunum Bæjarins Bestu, NBC og 1985!. Hann lagði hljóðnemann á hilluna árið 2008, en hefur komið fram og rappað við sérstök tilefni.

Halldór skrifaði og lék í leikritinu Þetta er grín án djóks, ásamt Sögu Garðarsdóttur sem sett var upp af Menningarfélagi Akureyrar árið 2015. Sama ár gaf hann út ljóðabókina Hugmyndir: Andvirði hundrað milljónir, en var hún tilnefnd til Menningarverðlauna DV árið 2016. Bókin hefur nú komið út í Þýskalandi. Árið 2017 kom út eftir hann hjá Bjarti ljóðabókin Órar, martraðir og hlutir sem ég hugsa um þegar ég er að keyra. Hans fyrsta skáldsaga, Kokkáll, kom út árið 2019. Hann hefur þá verið í handritsteymi fyrir ótal sjónvarpsþætti, svo sem Steindann Okkar, Áramótaskaupið, Venjulegt fólk og Mið Ísland.