Halldór Laxness

  • Halldor-Laxness-Ljosmyndasafn-Rvk.-EPB-001-107-3-1

Þjóðleikhúsið sýnir leikgerð Halldórs Laxness Halldórssonar, í samvinnu við Unu Þorleifsdóttur leikstjóra, Atómstöðina - endurlit, byggða á skáldsögu Halldórs Laxness Atómstöðinni, leikárið 2018-2019.

Tengsl Halldórs Laxness og Þjóðleikhússins voru alla tíð mikil. Halldór sat í þjóðleikhúsráði frá upphafi starfsemi þess, árið 1948, og allt til ársins 1969. Ein af þremur opnunarsýningum Þjóðleikhússins vorið 1950 var leikgerð skáldsögunnar Íslandsklukkunnar sem skáldið samdi í samvinnu við leikstjóra verksins, Lárus Pálsson, og í áranna rás hafa leikrit Halldórs og leikgerðir af skáldsögum hans oft verið á fjölum leikhússins.

Sýningar á leikritum Halldórs Laxness í Þjóðleikhúsinu:

1954 Silfurtúnglið. Leikstjórn: Lárus Pálsson.

1961 Strompleikurinn. Leikstjórn: Gunnar Eyjólfsson.

1966 Prjónastofan Sólin. Leikstjórn: Baldvin Halldórsson.

1975 Silfurtúnglið. Leikstjórn: Bríet Héðinsdóttir og Sveinn Einarsson.

1992 Straumrof. Sviðsettur leiklestur. Leikstjórn: Þórhallur Sigurðsson.

1992 Strompleikurinn. Sviðsettur leiklestur. Leikstjórn: Guðjón Pedersen.

1992 Prjónastofan Sólin. Sviðsettur leiklestur. Leikstjórn: Þórhildur Þorleifsdóttir.

2002 Strompleikurinn. Leikstjórn: Kristín Jóhannesdóttir.

Sýningar á leikgerðum byggðum á skáldsögum Halldórs Laxness í Þjóðleikhúsinu:

1950 Íslandsklukkan. Leikgerð: Halldór Laxness í samvinnu við Lárus Pálsson leikstjóra.

1956 Íslandsklukkan, fyrrnefnd uppfærsla sýnd að nýju í tilefni Nóbelsverðlaunanna.

1968 Íslandsklukkan. Leikstjórn: Baldvin Halldórsson.

1972 Sjálfstætt fólk. Leikgerð og leikstjórn: Baldvin Halldórsson.

1981 Hús skáldsins (Heimsljós). Leikgerð: Sveinn Einarsson. Leikstjórn: Eyvindur Erlendsson.

1985 Íslandsklukkan. Leikgerð og leikstjórn: Sveinn Einarsson.

1990 Úr myndabók Jónasar Hallgrímssonar. Leikgerð: Halldór Laxness. Leikstjórn: Guðrún Þ. Stephensen.

1992 Veiðitúr í óbygðum. Sviðsettur leiklestur á smásögu. Leikstjórn: Guðjón Pederson.

1998 Rhodymenia Palmata, ópera eftir Hjálmar H. Ragnarsson byggð samnefndum kvæðabálki Halldórs Laxness. Gestaleikur frá Frú Emilíu. Leikstjórn: Guðjón Pedersen.

1999 Bjartur – Landnámsmaður Íslands (Sjálfstætt fólk). Leikgerð: Kjartan Ragnarsson og Sigríður Margrét Guðmundsdóttir. Leikstjórn: Kjartan Ragnarsson.

1999 Ásta Sóllilja – Lífsblómið (Sjálfstætt fólk). Leikgerð: Kjartan Ragnarsson og Sigríður Margrét Guðmundsdóttir. Leikstjórn: Kjartan Ragnarsson.

2010 Gerpla. Leikgerð: Baltasar Kormákur, Ólafur Egill Egilsson og leikhópurinn. Leikstjórn: Baltasar Kormákur.

2010 Íslandsklukkan. Leikgerð og leikstjórn: Benedikt Erlingsson.

2011 Heimsljós. Leikgerð og leikstjórn: Kjartan Ragnarsson.

2014 Sjálfstætt fólk – Hetjusaga. Leikgerð: Símon Birgisson, Ólafur Egill Egilsson og Atli Rafn Sigurðarson. Leikstjórn: Þorleifur Örn Arnarsson.

Ýmsar leiknar dagskrár hafa verið fluttar til heiðurs Halldóri Laxness í Þjóðleikhúsinu. Á 75 ára afmæli skáldsins árið 1977 var flutt dagskráin Mannabörn eru merkileg í umsjón Bríetar Héðinsdóttur. Í tilefni af áttræðisafmælinu 1982 flutti Þjóðleikhúsið dagskrána Ég er vinur farfuglanna undir stjórn Baldvins Halldórssonar. Þann 23. apríl 1987 efndi menntamálaráðherra til afmælishátíðar í Þjóðleikhúsinu og sá Sveinn Einarsson um undirbúning hennar. Árið 1992, á níræðisafmæli Halldórs, var haldin þriggja daga Laxnessveisla í Þjóðleikhúsinu þar sem fluttir voru sviðsettir leiklestrar á Straumrofi, Strompleiknum, Prjónastofunni Sólinni og Veiðitúr í óbygðum, auk hátíðardagskrár með ljóðalestri og leik- og söngatriðum í umsjón Þórhalls Sigurðssonar.


Sjá nánar um Halldór Laxness á vef Gljúfrasteins .