Egill Eðvarðsson

  • Egill Eðvarðsson

Egill Eðvarðsson er höfundur leikmyndar í Útsendingu í Þjóðleikhúsinu leikárið 2019-2020

Egill Eðvarðsson hefur starfað við íslenska sjónvarps- og kvikmyndagerð í hartnær 50 ár eða allt frá því að hann lauk námi við Myndlista- og handíðaskóla Íslands árið 1971. Verksvið hans hefur alla tíð verið fjölþætt þótt þekktastur sé hann sem dagskrárgerðarmaður og upptökustjórnandi, en útlitshönnun og leikmyndagerð innan sama geira hefur þó sömuleiðis verið stór þáttur í starfi hans. Fyrsta leikmyndaverkefni Egils fyrir leikhús er hins vegar Útsending.

Af verkum Egils sem upptökustjóra má nefna leikverk eins og Keramik, Saga af sjónum, Silfurbrúðkaupið, Ringulreið, Don Juan, Maðurinn sem sveik Barrabas, Silfurtunglið, Blóðrautt sólarlag, Hart í bak, Fólkið í kjallaranum, Hrói höttur, Sveinsstykki, Blái hnötturinn, Vegbúar og beinar sjónvarpsútsendingar af sviði eins og Þrek og tár og Englar alheimsins.

Af höfundarverkum Egils fyrir sjónvarp má nefna leikverkin Djáknann, Músina Mörtu, Dómsdag, Önnu afastelpu og Danskeppnina og heimildarmyndirnar Erró engum líkur, Björk -this is my home, Sveitapiltsins darumur, Snúið líf Elvu, Ég gafst ekki upp og heimildarmyndina um Stefán frá Möðrudal, Ég er nefnilega svo aldeilis yfirgengilega magnaður að lifa.

Egill leikstýrði einnig sjónvarpskvikmyndinni Steinbarn og hefur gert tvær leiknar kvikmyndir í fullri lengd, kvikmyndina Húsið árið 1982 og Agnesi 1995. Þá leikstýrði hann sömuleiðis gamanleikritinu Örfá sæti laus fyrir Þjóðleikhúsið 1990.

Auk alls þessa hefur Egill alltaf starfað sem myndlistarmaður og haldið fjölda sýninga hér heima og erlendis.
Egill hlaut heiðursverðlaun Eddunnar árið 2019 fyrir ævistarf sitt.