Astrid Lindgren

  • Astrid-lindgren
Þjóðleikhúsið sýnir söngleikinn Ronju ræningjadóttur leikárið 2018-2019, en hann er byggður á samnefndri bók Astridar Lindgren.

Manst þú eftir Línu Langsokk, sterku stelpunni með rauðu flétturnar sem á apa og hest og fulla kistu af gullpeningum? Kannastu við Emil í Kattholti, sem gerði ótal fyndin skammarstrik og þurfti að dúsa í smíðaskemmunni þar sem hann dundaði sér við að tálga spýtukarla? Manstu eftir Snúð og Jónatan Ljónshjarta, sem lentu í ævintýrum í Nangijala? Og hefurðu kynnst sjálfri Ronju ræningjadóttur, sem þessi leiksýning fjallar um? Ef þú þekkir þessar sögupersónur þekkir þú líka Astrid Lindgren, því það var hún sem samdi bækurnar um þær.

Astrid Lindgren skapaði margar aðrar skemmtilegar sögupersónur, eins og til dæmis börnin í Ólátagarði, Míó, Madditt, Kalla á þakinu, leynilögreglumanninn Karl Blómkvist og börnin á Saltkráku. Allar þessar litríku persónur og ævintýri þeirra hafa gert Astrid Lindgren að einum vinsælasta barnabókahöfundi í heimi. Eftir mörgum bókum hennar hafa verið gerðar kvikmyndir, teiknimyndir og leikrit, rétt eins og söngleikurinn um Ronju ræningjadóttur sem núna er sýndur í Þjóðleikhúsinu.

Astrid Lindgren fæddist árið 1907 og lést árið 2002, 94 ára að aldri. Hún ólst upp í Smálöndunum í Svíþjóð, á bóndabæ sem heitir Nes, nálægt þorpinu Vimmerby. Kannski manstu eftir því að Emil í Kattholti er líka úr Smálöndum? Astrid ólst upp í gömlu, rauðu húsi með eplatrjám í kring. Svo virðist sem hún og systkini hennar hafi lifað fjörugu lífi líkt og krakkarnir í Ólátagarði og æskuár hennar verið hamingjurík. Astrid segir að það sem hafi gert bernskuna svona skemmtilega hafi verið að börnin í Nesi hafi búið í senn við öryggi og frelsi. Öryggið fólst í því að í kringum þau var alltaf fullorðið fólk sem þau gátu treyst og leitað til hvenær sem var. Frelsið kom til af því að fullorðna fólkið var svo upptekið við vinnu sína að það hafði ekki tíma til að hafa stöðugt auga með krökkunum. Astrid hefur lýst því hvernig börnin klifruðu í trjánum og eftir húsþökum, stukku ofan af heysátum, bjuggu til sín eigin neðanjarðargöng og busluðu í ánni áður en þau lærðu að synda.

Astrid starfaði meðal annars sem ritari, og vann við fjölmiðla og bókaútgáfu, en hún byrjaði ekki að senda frá sér bækur fyrr en hún var komin undir fertugt. Astrid eignaðist tvö börn, Karin og Lars, og fyrstu sögur sínar samdi hún til að skemmta þeim. Þegar Karin var sjö ára veiktist hún af lungnabólgu og kvöld eitt bað hún mömmu sína að segja sér sögu um stelpu sem ætti að heita Lína Langsokkur. Næstu kvöld spann Astrid upp sögur um þessa stelpu án þess að vita í upphafi neitt um hana nema það að hún héti mjög skrýtnu nafni og hlyti þess vegna að vera mjög skrýtin stelpa. Astrid hélt áfram að semja sögur um Línu Langsokk fyrir Karin og vini hennar og síðar skrifaði hún þær niður. Hún gaf Karin handritið á tíu ára afmælinu hennar og sendi síðan afrit til bókaútgefanda. Hún var svolítið kvíðin yfir því að senda frá sér sögu um svona óþekka og skrýtna stelpu og í bréfi sem hún sendi útgefandanum stóð: „Í þeirri von að þið kallið ekki á barnaverndarnefndina“!

Fyrsta bókin um Línu kom út árið 1945 og varð strax mjög vinsæl. En þó voru ýmsir sem hneyksluðust á bókinni og höfðu áhyggjur af því að nú færu börn að hegða sér eins og Lína. „Ekkert eðlilegt barn hámar í sig heila rjómatertu í kaffiboði“, skrifaði einn gagnrýnandi. Astrid var svo sem sammála því. En hún bætti við: „Ekkert eðlilegt barn lyftir heldur upp heilum hesti með annarri hendinni. En sú sem getur það ætti að fara létt með að gleypa í sig heila rjómatertu!“

Sagnaheimur Astridar Lindgren er fjölbreytilegur. Sumar bækur hennar lýsa lífi í sveit eða smábæ, aðrar gerast í borg. Sumar sækja efnivið í daglegt líf, en aðrar gerast í heimi ímyndunaraflsins og ævintýranna. Margar bækur Astridar eru bráðfyndnar, aðrar ógurlega spennandi og í sumum er fjallað um sorgleg viðfangsefni. Meðal þess sem einkennir bækur Astridar er hlýja, kímnigáfa og lífsgleði, og rík tilfinning fyrir því ævintýralega í lífinu. En Astrid er líka óhrædd við að takast á við alvarlegar spurningar, um líf og dauða, gott og illt.

Skáldsagan um Ronju ræningjadóttur kom fyrst út árið 1981, og er ein af vinsælustu bókum Astridar Lindgren. Þekkt sænsk kvikmynd frá árinu 1984 er byggð á bókinni, og til eru ýmsar leikgerðir af sögunni. Söngleikurinn sem Þjóðleikhúsið sýnir nú var frumsýndur í Danmörku árið 1991 og danski tónlistarmaðurinn Sebastian samdi lög og söngtexta. Söngleikurinn var sýndur í Borgarleikhúsinu 1992 og 2006, en er nú sýndur í fyrsta sinn í Þjóðleikhúsinu.