Þórhallur Sigurðsson

  • Þórhallur Sigurðsson

ÞÓRHALLUR SIGURÐSSON hefur leikstýrt um fjörutíu leiksýningum við Þjóðleikhúsið, þar af mörgum af vinsælustu sýningum leikhússins. Hann hefur einnig starfað við Þjóðleikhúsið sem leikari allt frá árinu 1968.

Þórhallur hefur meðal annars stýrt hér frumflutningi á mörgum íslenskum verkum, þar af níu leikritum eftir Ólaf Hauk Símonarson, Milli skinns og hörunds, Bílaverkstæði Badda, Hafinu, Gauragangi, Þreki og tárum, Kennarar óskast, Meiri gauragangi, Græna landinu og Bjart með köflum. Af öðrum leikstjórnarverkefnum Þórhalls hér má nefna Sölumaður deyr, Ofviðrið, Kæru Jelenu, Emil í Kattholti, Ferðalok, Oleönnu, Tröllakirkju, Solveigu og Vér morðingjar. Nýjustu leikstjórnarverkefni Þórhalls við Þjóðleikhúsið eru Litla skrímslið og stóra skrímslið, Sindri silfurfiskur, Blái hnötturinn, Vatn lífsins, Jón Oddur og Jón Bjarni, Halti Billi, Koddamaðurinn, Leitin að jólunum, Hart í bak, Gott kvöld og Kuggur og leikhúsvélin.

Þórhallur hefur einnig leikstýrt víða utan Þjóðleikhússins, meðal annars Söngvaseiði hjá Leikfélagi Reykjavíkur og í Nemendaleikhúsinu.

Þórhallur hefur einnig starfað töluvert sem leikstjóri í brúðuleikhúsi og hafa sýningar hans Tröllaleikir, Bannað að hlæja og Leifur heppni verið sýndar í fjölmörgum löndum. Hann leikstýrði meðal annars Gamla manninum og hafinu hjá Brúðuheimum.

Leiksýningarnar Leitin að jólunum (2005) og Gott kvöld (2008), sem Þórhallur leikstýrði, hlutu hvor um sig Grímuverðlaunin sem barnasýning ársins.

Þórhallur starfar nú í fræðsludeild Þjóðleikhússins.