Silja Hauksdóttir

  • Silja-Hauksdottir

Silja Hauksdóttir leikstýrir Kópavogskróniku í Þjóðleikhúsinu leikárið 2019-2020, og gerir jafnframt leikgerð ásamt Ilmi Kristjánsdóttur.

Silja Hauksdóttir er leikstjóri og handritshöfundur sem hefur starfað við kvikmyndir og sjónvarp um árabil. Hún er með B.A. gráðu í heimspeki frá Háskóla Íslands, nam kvikmyndagerð við FAMU í Tékklandi, handritagerð í Hollandi og útskrifaðist með MFA gráðu í sviðslistum frá Listaháskóla Íslands árið 2018.

Silja skrifaði skáldsöguna Dís ásamt Birnu Önnu Björnsdóttur og Oddnýju Sturludóttur og leikstýrði samnefndri kvikmynd árið 2004. Hún leikstýrði einni seríu af “Stelpunum” ásamt því að taka þátt í handritaskrifum á þáttunum og leikstýrði þáttunum “Ríkið” og tveimur seríum af gamanþáttunum ´”Ástríði” sem jafnframt hlaut Edduverðlaun fyrir besta leikna sjónvarpsefnið árið 2014. Silja hefur einnig leikstýrt og tekið þátt í skrifum á tveimur Áramótaskaupum og leikstýrt heimildarmyndinni “Kórinn”. Silja hefur nýlokið við gerð kvikmyndarinnar “Agnes Joy”, sem hún skrifar ásamt Göggu Jónsdóttur og Jóhönnu Friðriku Sæmundsdóttir og leikstýrir einnig.