Selma Björnsdóttir

Leikstjóri

Selma leikstýrir Shakespeare verður ástfanginn í Þjóðleikhúsinu leikárið 2019-2020, auk þess sem hún leikur í Leitinni að jólunum.

Selma starfar sem söng- og leikkona, dansari, leikstjóri og danshönnuður.


Nám

Selma stundaði nám í leikstjórn við Bristol Old Vic Theatre School vorið 2010.


Leikstjórn í Þjóðleikhúsinu

Selma leikstýrði Ronju ræningjadótturFjarskalandi,  Hleyptu þeim rétta inn, Vesalingunum, Oliver!, Kardemommubænum og Karíusi og Baktusi í Þjóðleikhúsinu. Hún leikstýrði jafnframt Í hjarta Hróa hattar ásamt Gísla Erni Garðarssyni.

Hún var aðstoðarleikstjóri í Með fulla vasa af grjóti.


Leikstjórn í öðrum leikhúsum

Hún leikstýrði Gosa í Borgarleikhúsinu og Grease í Loftkastalanum.

Hún var meðleikstjóri og kóreógraf í The Heart of Robin Hood hjá Royal Shakespeare Company.


Leikur, söngur og dans

Nýjustu hlutverk Selmu í Þjóðleikhúsinu voru aðalkvenhlutverkið í Spamalot og annar álfanna í Leitinni að jólunum

Meðal annarra leiksýninga sem hún hefur leikið, sungið og dansað í eru West Side Story, Meiri gauragangur, Syngjandi í rigningunni, Halldór í Hollywood, Túskildingsóperan, Ástin er diskó lífið er pönk og Leitin að jólunum í Þjóðleikhúsinu, Rómeó og Júlía, Hamskiptin og Húsmóðirin hjá Vesturporti, Hið ljúfa líf, Augun þín blá, Grease, Litla hryllingsbúðin og Footloose í Borgarleikhúsinu, Rocky Horror, Áfram Latibær og Skari Skrípó hjá Flugfélaginu Lofti, Ávaxtakarfan og Benedikt búálfur hjá Draumasmiðjunni, Hárið hjá Menningarfélagi alþýðunnar og Ávaxtakarfan og Hafið bláa hjá Austurbæ.


Önnur störf við leiklist, söng og dans

Selma hefur einnig unnið við fjölda sýninga sem danshöfundur og aðstoðarleikstjóri og unnið talsvert við sjónvarp og talsetningu. Hún hefur jafnframt starfað við kennslu í söng, danslist og leiklist.


Tónlist

Selma sendi frá sér sólóplöturnar I am og Life Won't Wait, dúettaplöturnar Sögur af sviðinu og Sögur af konum og kántrídiskinn Alla leið til Texas. Hún hlaut Íslensku tónlistarverðlaunin sem flytjandi ársins árið 2000. Hún hefur tvívegis tekið þátt í Söngvakeppni Evrópskra sjónvarpsstöðva fyrir Íslands hönd og hafnaði í öðru sæti í keppninni í Jerúsalem árið 1999.


Verðlaun og viðurkenningar

Sýning selmu á Ronju ræningjadóttur hlaut Grímuverðlaunin sem barnasýning ársins. Sýning Selmu á Vesalingunum var tilnefnd til Grímuverðlaunna sem sýning ársins, auk þess sem Selma var tilnefnd sem leikstjóri ársins. Sýningar hennar á Kardemommubænum og Gosa voru tilnefndar til Grímuverðlaunanna sem barnasýning ársins.

Selma var tilnefnd sem leikkona ársins og söngvari ársins til Grímuverðlaunanna fyrir hlutverk sitt í Spamalot.

Selma hlaut Stefaníustjakann árið 2012.