Nikolaj Cederholm

  • Nikolaj Cederholm

Nikolaj Cederholm leikstýrir Einræðisherranum í Þjóðleikhúsinu leikárið 2018-2019.

Nikolaj Cederholm er danskur leikstjóri, leikskáld, leikari og leikhússtjóri. 

Hann útskrifaðist sem leikari frá leiklistarskóla Odense-leikhússins árið 1986 og hefur um árabil verið í fremstu röð danskra leikstjóra og leikskálda. 

Cederholm stofnaði ásamt öðrum leikhópinn Dr. Dante árið 1979, sem vakti mikla athygli. Hann var ráðinn leikhússtjóri við  Aveny Teatret árið 1992 og leikhúsið hlaut þá nýtt nafn, Dr. Dantes Aveny. Með sýningum hans þar eins og Jagten, Åbne Hænder og Paradis þótti kveða við nýjan tón í dönsku leikhúslífi. 

Cederholm var upphafsmaður nýs leiklistarforms, leikhústónleika, sem hefur öðlast gífurlegar vinsældir og hann hefur þróað áfram allt frá árinu 1994, þegar fyrstu leikhústónleikarnir, Gasolin' teaterkoncert, voru frumsýndir í  Dr. Dantes Aveny. Þar voru einnig  leikhústónleikarnir Ned på jorden og Lillerød sýndir. Eftir að leikhúsinu var lokað árið 2003 hefur Cederholm sviðsett fjölda leikhústónleika bæði í Danmörku og utan landsteinanna. Má þar nefna Beach Boys í Borgarleikhúsinu í Árósum, Come Together í Østre Gasværk-leikhúsinu, Amsterdam, Borgarleikhúsi Uppsala og Tívolí, Bob Dylan í Østre Gasværk-leikhúsinu og Borgarleikhúsinu í Árósum, Mozart í Betty Nansen-leikhúsinu, Borgarleikhúsinu í Árósum, Rogalandsleikhúsinu í Noregi og Barbican í London, Hey Jude í Forum og Beethoven í Rogalandsleikhúsinu.

Meðal annarra leikstjórnarverkefna Cederholms eru Simon og Verdenshistorien hjá Østre Gasværk-leikhúsinu, Reumertverðlaunasýningin Gítarleikararnir í Mungo Park, Håndværkerne og Koks i kulissen við Konunglega leikhúsið í Kaupmannahöfn, og Shakespeares samlede værker, Saga Danmerkur og Syng dansk hjá Bellevue leikhúsinu.

Cederholm hefur hlotið fjölda verðlauna fyrir störf sín í leikhúsi, og má þar nefna 
Bikubens-heiðursverðlaunin á Reumertverðlaununum 2001 og heiðursverðlaun danska leikskáldafélagsins 1991.

Heimasíða:  http://www.momoland.dk/