Hilmar Jónsson

Leikstjóri

Hilmar leikstýrir Meistaranum og Margarítu í Þjóðleikhúsinu leikárið 2019-2020

Hilmar Jónsson útskrifaðist frá Leiklistarskóla Íslands árið 1990. 

Fyrst um sinn starfaði hann sem leikari við Þjóðleikhúsið en árið 1995 stofnaði hann ásamt öðrum Hafnarfjarðarleikhúsið Hermóð og Háðvöru. Síðan þá hefur hann einkum sinnt leikstjórn. 

Hann hefur nú leikstýrt um þrjátíu leiksýningum, hjá Hafnarfjarðarleikhúsinu, Þjóðleikhúsinu, Borgarleikhúsinu, Nemendaleikhúsinu og á Norðurlöndum. 

Í Hafnarfjarðarleikhúsinu leikstýrði Hilmar Himnaríki, Birtingi, Að eilífu, Síðasta bænum í dalnum, Sölku-ástarsögu, Vitleysingunum, Platanov (fyrir Nemendaleikhúsið), Englabörnunum og Grettissögu. 

Hann leikstýrði Furðulegt háttalag hunds um nótt, Stjórnleysingi ferst af slysförum, Kryddlegin hjörtu og Sól og Máni í Borgarleikhúsinu.

Hann leikstýrði Jónsmessunæturdraumi, Cyrano frá Bergerac, Pabbastrák, söngleiknum Edith Piaf og leikgerðum sínum á Sumarljósi og Öxinni og jörðinni við Þjóðleikhúsið.

Hann hefur leikið í ýmsum kvikmyndum, meðal annars Blóðböndum og Svartur á leik.