Stefán Jónsson

  • Stefan-Jonsson

Stefán Jónsson leikur í Atómstöðinni - endurliti í Þjóðleikhúsinu leikárið 2019-2020.

Stefán Jónsson útskrifaðist úr Guildhall School of Music and Drama í London, 1989.

Hann hefur leikið fjölda hlutverka á leiksviði, í kvikmyndum og sjónvarpi. Stefán hefur einnig verið mikilvirkur leikstjóri um árabil og fengist við leiklistarkennslu.

Í Borgarleikhúsinu lék hann í Kjöti, Þrúgum reiðinnar og Einari Áskatli. Meðal leikverkefna í Þjóðleikhúsinu eru My Fair Lady, Gaukshreiðrið, Skilaboðaskjóðan, Hafið, Gauragangur, Fávitinn, Þrek og tár, West Side Story, Leigjandinn, Sem yður þóknast, Leitt hún skyldi vera skækja, Fiðlarinn á þakinu, Hamlet, Bróðir minn Ljónshjarta, Sjálfstætt fólk, Krítarhringurinn í Kákasus, Landkrabbinn, Antígóna, Laufin í Toskana, Anna Karenína, Karíus og Baktus og Veislan.

Af verkefnum með sjálfstæðum leikhópum má nefna: Sprengd hljóðhimna vinstra megin hjá Alþýðuleikhúsinu, Stjörnur á morgunhimni hjá Leikfélagi Íslands, Elling hjá Sögn e.h.f. og Endatafl hjá leikhópnum Svipir.

Í Þjóðleikhúsinu hefur hann leikstýrt; Herjólfur er hættur að elska, Hænuungunum, Túskildingsóperunni, Fögnuði, Óhappi, Legi, Hreinsun, Baðstofunni og Manni að mínu skapi.

Leikstjórnarverkefni hjá L.R. í Borgarleikhúsi eru: Sporvagninn Girnd, Terrorismi, Sekt er kennd, Belgíska Kongó, Draugalest, Héri Hérason, Enron og Ekki hætta að anda í samstarfi við leikhópinn Háaloft.

Stefán gegndi stöðu fagstjóra og síðar prófessors við sviðslistadeild LHÍ, 2008-2018. Af útskriftarsýningum sem hann leikstýrði má nefna; Forðist okkur, Eftirlitsmanninn, Draum á Jónsmessunótt og Að eilífu.

Hann hlaut Grímuna fyrir leikstjórn á Kvetch og sem danshöfundur fyrir Forðist okkur, ásamt leikhópi. Stefán var tilnefndur til Grímunar fyrir leikstjórn á Legi, Sporvagninum Girnd, Héra Hérasyni, Forðist okkur, Óhappi, Hreinsun og fyrir útvarpsverkið Draugalest. Hann var einnig tilnefndur til menningarverðlauna DV fyrir leikstjórn sína í Herjólfur er hættur að elska og Sporvagninum Girnd. Stefán fékk sömuleiðis Grímutilnefningar fyrir leik sinn í Veislunni, Elling og Endatafli.