Ingvar E. Sigurðsson

Leikari

Ingvar lauk prófi frá Leiklistarskóla Íslands árið 1990 og hefur síðan leikið fjölda hlutverka í Þjóðleikhúsinu, hjá Vesturporti, í Borgarleikhúsinu og hjá öðrum leikhúsum. hérlendis sem erlendis. Hann hefur farið með hátt á fjórða tug hlutverka í íslenskum og erlendum kvikmyndum, auk hlutverka í sjónvarpsþáttum og stuttmyndum.

Ingvar hefur leikið mörg burðarhlutverk við Þjóðleikhúsið en meðal nýlegra verkefna hans hér eru Heimkoman, Afmælisveislan, Listaverkið (2011), Íslandsklukkan, Sólarferð og Pétur Gautur (2006).

Meðal annarra verkefna eru Pétur Gautur (1991), Kæra Jelena, Rómeó og Júlía, Stræti, Stund gaupunnar, Blóðbrullaup, Gauragangur, Sannur karlmaður, Don Juan, Tröllakirkja, Sem yður þóknast, Listaverkið (1997), Þrjár systur, Hamlet, Sjálfstætt fólk, Krítarhringurinn í Kákasus, Komdu nær, Kirsuberjagarðurinn, Sorgin klæðir Elektru og Öxin og jörðin. Hann lék hér ennfremur í dansverki Sigríðar Soffíu, Svörtum fjöðrum. 

Ingvar er einn af stofnendum Vesturports og hann hefur tekið þátt í mörgum verkefnum leikhópsins, meðal annars í Brimi, Hamskiptunum, Rómeó og Júlíu og Woyzeck. Hann hefur farið í leikferðir víða um heim með Vesturporti.

Hann lék í Ég er meistarinn, Kabarett, Fjandmanni fólksins, Rústað, Ofviðrinu og Jeppa á Fjalli hjá Leikfélagi Reykjavíkur. Meðal annarra verkefna hans á leiksviði eru Klúbburinn, Djúpið, Óperan Ariadne frá Naxos, Gesturinn, Hárið, Kirsuberjagarðurinn, Svanurinn og Svik. Hann lék hjá Þjóðleikhúsi Frakklands í Nice hlutverk Péturs Gauts í samnefndu leikriti eftir Henrik Ibsen í leikstjórn Irinu Brook.

Ingvar hefur hlotið mörg verðlaun og viðurkenningar fyrir leik sinn bæði á sviði sem á hvíta tjaldinu en hann hefur hreppt sjö Edduverðlaun. Hann hlaut Grímuna - Íslensku leiklistarverðlaunin fyrir leik sinn í Íslandsklukkunni og Pétri Gaut og var tilnefndur fyrir Heimkomuna, Djúpið, Rústað, Hamskiptin og Jeppa á Fjalli. Ingvar hlaut Stefaníustjakann fyrir störf sín að leiklist árið 2000.