Guðjón Davíð Karlsson

Leikari

Guðjón Davíð leikur í Shakespeare verður ástfanginn og leikstýrir Útsendingu í Þjóðleikhúsinu leikárið 2019-2020.

Guðjón Davíð útskrifaðist frá leiklistardeild Listaháskóla Íslands vorið 2005. Hann tók þátt í nokkrum söngleikjum fyrir útskrift og má þar nefna Grease sem sýndur var í Borgarleikhúsinu 2003, Hárið í Austurbæ 2004 og Kabarett í Íslensku óperunni 2005.

Hjá Þjóðleikhúsinu lék Guðjón meðal annars í Einræðisherranum, Jónsmessunæturdraumi, Loddaranum, Risaeðlunum, Djöflaeyjunni, Húsinu, Óþelló, Í hjarta Hróa hattar og Sporvagninum Girnd.

Hann samdi Stuðmannasöngleikinn Slá í gegn og fjölskyldusöngleikinn Fjarskaland fyrir Þjóðleikhúsið.

Guðjón var fastráðinn við Leikfélag Akureyrar strax eftir útskrift og var einn helsti burðarás leikhússins þar til hann var ráðinn til Borgarleikhússins árið 2008. Hjá LA fór Guðjón með fjölmörg burðarhlutverk og lék m. a. Markó í Pakkinu á móti, Bjarna í Fullkomnu Brúðkaupi, Baldur í Litlu hryllingsbúðinni, Díma í Maríubjöllunni, Ralf í Herra Kolbert, Davey í Svörtum ketti og ýmis hlutverk í Ökutímum.

Guðjón lék mörg burðarhlutverk í Borgarleikhúsinu, m.a. í Fló á skinni, Fólkinu í blokkinni, Söngvaseið, Heima er best, Gauragangur, Fólkinu í kjallaranum, Ofviðrinu, Nei, ráðherra, Kirsuberjagarðinum, Eldhafi, Mary Poppins, Á sama tíma að ári, Beint í æð, Skálmöld og Er ekki nóg að elska.

Guðjón samdi leikgerð og lék ævintýrin Gói og eldfærin og Gói og baunagrasið sem sýnd voru í Borgarleikhúsinu.

Guðjón samdi handrit og var umsjónarmaður Stundarinnar okkar á RÚV í nokkur ár. 

Guðjón var tilnefndur til Grímunnar fyrir leik sinn í Loddaranum og Húsinu, og fyrir söng í Jónsmessunæturdraumi.