Birgitta Birgisdóttir

Leikkona

Birgitta leikur í Ör (eða Maðurinn er eina dýrið sem grætur), Atómstöðinni - endurliti, Meistaranum og Margarítu og Útsendingu í Þjóðleikhúsinu leikárið 2019-2020.

Birgitta Birgisdóttir útskrifaðist frá leiklistardeild Listaháskóla Íslands vorið 2006. 

Hún hefur meðal annars nýlega leikið í Þjóðleikhúsinu í Slá í gegn, Svartalogni, Samþykki, Jónsmessunæturdraumi, Leitinni að jólunum í Þjóðleikhúsinu, Risaeðlunum, Hafinu, Húsinu, Góðu fólki og Djöflaeyjunni. Hún lék hér einnig í Frida... viva la vida og ljáði Sindra rödd sína í sýningunni um Sindra silfurfisk. 

Fyrsta hlutverk Birgittu að námi loknu var Konstansa, kona Mozarts, í Amadeusi hjá Borgarleikhúsinu. Meðal annara sýninga sem hún hefur leikið í hjá Borgarleikhúsinu eru Grettir, Dagur vonar þar sem hún fór með hlutverk Öldu, Ræðismannsskrifstofan, Gauragangur þar sem hún fór með hlutverk Höllu, Kirsuberjagarðurinn í hlutverki Önju, Eldhaf, Ferjan og Fólkið í kjallaranum. 

Birgitta lék í MammaMamma í Hafnarfjarðarleikhúsinu og í sýningunni HYSTORY sem var sett upp í samstarfi Sokkabandsins og Borgarleikhússins.

Birgitta var tilnefnd til Grímunnar fyrir leik sinn í Húsinu og Fólkinu í kjallaranum.