Allt leikárið

Þitt eigið leikrit II - Tímaferðalag

 • Eftir Ævar Þór Benediktsson
 • Leikstjórn Stefán Hallur Stefánsson

Ef þú gætir ferðast um tímann, hvert myndirðu fara?

 • Lengd 1:45 eitt hlé
 • Frumsýning 14.2.2020
 • Svið Kúlan

Hjartnæmt og fjörugt tímaferðalag sem engan svíkur

SJ, Fbl.

TILKYNNING VEGNA SAMKOMUBANNS


Þitt eigið leikrit er glæný tegund af leikhúsi sem varð til í Kúlunni í Þjóðleikhúsinu árið 2019. Með þar til gerðum fjarstýringum stjórna áhorfendur sjálfir atburðarásinni!

Í kjölfarið á sýningunni Þitt eigið leikrit I – Goðsaga, kemur ný sýning, Þitt eigið leikrit II – Tímaferðalag. Nýja sýningin er enn lengri og viðameiri en sú fyrri, og nú er haldið af stað í æsispennandi ferð um rúm og tíma!

Ef þú gætir ferðast hvert sem er, fram eða aftur í tíma, - hvert myndirðu fara? Myndirðu reyna að hafa áhrif á fortíðina eða viltu kannski skoða framtíðina? Viltu eignast gæludýr sem er grameðla, reyna að bjarga einhverjum úr fortíðinni eða skjótast út í geim eftir hundrað ár? Valið er þitt!

Leiksýningin Þitt eigið leikrit I – Goðsaga var tilnefnd til Grímunnar sem barnasýning ársins 2019.

Aldursviðmið: 7-14 ára.

AÐVÖRUN!  Í sýningunni er notast við blikkandi ljós sem kunna að hafa áhrif á ljósnæma flogaveiki. Einnig eru í sýningunni atriði sem kunna að vekja óhug hjá ungum börnum. 

Næstu sýningar

 • 22.08 13:00 Kúlan Tímaferðalag
 • 22.08 16:00 Kúlan Tímaferðalag
 • 23.08 16:00 Kúlan Tímaferðalag

Leikarar

Listrænir stjórnendur

 • Höfundur
  Ævar Þór Benediktsson
 • Leikstjórn
  Stefán Hallur Stefánsson
 • Leikmynd
  Högni Sigurþórsson , Magnús Arnar Sigurðarson og Hermann Karl Björnsson
 • Búningar
  Ásdís Guðný Guðmundsdóttir
 • Tónlist
  Anna Halldórsdóttir
 • Lýsing
  Magnús Arnar Sigurðarson
 • Kosningakerfi og sértækar tæknilausnir
  Hermann Karl Björnsson
 • Hljóðmynd
  Kristinn Gauti Einarsson
 • Myndbandshönnun
  Ásta Jónína Arnardóttir
 • Leikgervi
  Valdís Karen Smáradóttir
 • Aðstoðarleikstjóri
  Hákon Jóhannesson
 • Aðstoð við sviðshreyfingar
  Þórey Birgisdóttir
 • Sýning í gestarými Kúlunnar
  Yfirumsjón: Guðmundur Erlingsson og Eglé Sipaviciute. Myndvinnsla: Ævar Þór Benediktsson. Myndefni á skjám: Guðmundur Erlingsson. Aðstoð við uppsetningu og smíði: Dagur Alex Ingason, Helgi Thorsson, Melkorka Embla Hjartardóttir, Reynir Þorsteinsson, Tómas Helgi Baldursson.
 • Sýningastjórn og umsjón

  Jón Stefán Sigurðsson og Eglé Sipaviciute

 • Tæknistjórn á sýningum

  Áslákur Ingvarsson og Ásta Jónína Arnardóttir

 • Leikgervadeild

  Valdís Karen Smáradóttir, Hildur Ingadóttir, Salóme Ósk Jónsdóttir

 • Leikmunadeild
  Ásta S. Jónsdóttir (yfirumsjón)
 • Búningadeild
  Berglind Einarsdóttir deildarstjóri, Ásdís Guðný Guðmundsdóttir (yfirumsjón sýningar), Leila Arge, Hjördís Sigurbjörnsdóttir, Sigurbjörg Stefánsdóttir, Ingveldur Elsa Breiðfjörð
 • Ljósmyndir úr sýningu

  Ásta Jónína Arnardóttir


Viðtöl


Höfundur og leikstjóri


Lára Jóhanna og Ebba Katrín

Kosningakerfi


Ævar Þór fer í gegnum það hvernig kosningakerfið virkar

Skilaboð frá Ævari

Ýmislegt sem er gaman fyrir þig að vita áður en þú sérð leikritið Þitt eigið leikrit II – Tímaferðalag eða þá eftir sýninguna:

Tímavélar

Tímavélar geta verið af öllum stærðum og gerðum. Sumar eru í laginu eins og glæsilegir bílar, aðrar eins og ísskápar, enn aðrar eins og hvítir og krúttlegir kassar sem suða. Til eru ýmsar kenningar um tímaferðalög og hvaða áhrif þau geti haft – ef einhver – en uppáhaldspælingin mín í sambandi við tímaferðalög er þessi: Ef tímaferðalög verða einhvern tímann fundin upp – þá eru alveg örugglega tímaferðalangar hér. Núna!

Geimferðalög

Þegar þetta er skrifað er ekki mikið um ferðafólk í geimnum, þótt fjölmargir væru frekar til í að eyða sumarfríinu sínu á Satúrnusi en sólarströnd. Nokkur fyrirtæki vinna þó hörðum höndum að því að geta boðið fólki upp á að skoða sig um í geimnum, en enn eru nokkur ár þangað til maður getur „skroppið“ út í geim. Ég veit allavega að ég ætla ekki að verða sá fyrsti til að prófa það.

Múmíur

Sú list að smyrja lík og fjarlægja innyflin til að varðveita líkamann er þekkt í mörgum fornum menningarsamfélögum, en frægustu múmíurnar hljóta þó að vera þær egypsku. Líklegasta ástæðan fyrir frægð þeirra eru kvikmyndir og bækur. Enn þann dag í dag eru fornleifafræðingar að finna múmíur frá tímum Egyptalands hins forna. Ekki alls fyrir löngu fannst stór, kolsvört líkkista í borginni Alexandríu í Egyptalandi. Ekki var vitað hver væri ofan í kistunni en einhverjir hvísluðu að þar mætti finna líkama Alexanders mikla. Kistan var meira en tvö þúsund ára gömul og fornleifafræðingar vildu ólmir opna hana – þótt margir vöruðu við því að hræðileg bölvun gæti fylgt í kjölfarið. Að lokum var kistan opnuð og fundust ofan í henni þrjár beinagrindur og afar illa lyktandi vatn. Hugsanlega var þetta fjölskyldukista. Einhverjir vildu hlaupa til og drekka vatnið en sem betur fer tókst að koma í veg fyrir það.

Neanderdalsmenn

Á Vísindavef Háskóla Íslands segir: „Sú tegund manna sem kallast venjulega Homo neanderthalensis var uppi á árabilinu frá því fyrir um það bil 120.000 árum og þar til fyrir um 28.000 til 30.000 árum. Neanderdalsmenn veiddu sér hreindýr og önnur hjartardýr til matar, loðfíla, birni og nashyrninga, auk þess að borða sitthvað úr jurtaríkinu og annað sem til féll. H[omo] neanderthalensis er merkileg tegund sem lifði á svipuðum slóðum og nútímamaðurinn um langan aldur, en svo hverfur hann úr sögunni fyrir nær þrjátíu þúsund árum. Hvað olli hvarfi hans? Það veit enginn en kenningarnar eru margar, og heillandi að kanna hvað veldur því að einn hópur manna heldur velli og annar hverfur án þess að neitt liggi í augum uppi um ástæðurnar.“ Ég held að ég geti eiginlega ekki toppað þessa útskýringu.

Risaeðlur

Risaeðlur voru svo sannarlega uppi fyrir langa langa löngu og voru svo sannarlega oftast frekar svangar. Þessar skepnur eru svo svakalegar að þegar fyrstu risaeðlubeinin fundust í Englandi í kringum 1820 hélt fólk að þar væri komin sönnunin fyrir því að drekar hefðu einhvern tímann verið til. Sumar eðlurnar voru grasbítar á meðan aðrar átu grasbítana. Uppi eru kenningar um að risaeðlur hafi verið með fjaðrir en vísindamenn eru þó ekki sammála um það. Ég veit ekki af hverju það er, en einhvern veginn finnst mér þær minna óhugnanlegar ef ég sé þær fyrir mér eins og risastóra kjúklinga. Eða hvað? Eru þær kannski helmingi hræðilegri þannig?

ThEL-risaedluegg-DSC01026

Risarottur

Til er kenning um það að þegar mannkynið kveðji fyrir fullt og allt – hvort sem það verður vegna þess að við stingum af á aðra plánetu eða deyjum hreinlega út – þá muni rottur taka yfir jörðina. Þær eru leifturklárar og láta ekkert stoppa sig þegar kemur að því að lifa af. Ólíkir stofnar af rottum munu þá þróast hver í sínu lagi og sagt er að sumar geti orðið um 80 kíló. Kannski er bara fínt að maður verði ekki á svæðinu þegar það gerist.


Reglur fyrir tímaferðalanga

Ævar tók saman lista yfir nokkrar af þeim fjölmörgu reglum sem tímaferðalangar þurfa að hafa í huga:

Regla fyrir tímaferðalanga númer 1:

Ekki breyta neinu.

Regla fyrir tímaferðalanga númer 2:

Ekki vera fyrir.

Regla fyrir tímaferðalanga númer 3:

Ekki eyðileggja nútíðina.

Regla fyrir tímaferðalanga númer 8:

Varastu samskipti við sjálfa(n) þig.

Regla fyrir tímaferðalanga númer 10:

Notaðu tímann vel.

Regla fyrir tímaferðalanga númer 13:

Vertu kurteis.

Regla fyrir tímaferðalanga númer 15:

Vertu í núinu. Djók.

Regla fyrir tímaferðalanga númer 19:

Ekki gleyma að taka með þér tannbursta og hrein nærföt.

Regla fyrir tímaferðalanga númer 20:

Vertu viðbúin(n) öllu!

Regla fyrir tímaferðalanga númer 21:

Ekki skilja eftir rusl.

Regla fyrir tímaferðalanga númer 25:

Ekki kremja fiðrildi.

Regla fyrir tímaferðalanga númer 30:

Það er stranglega bannað að bjarga einhverjum.

Regla fyrir tímaferðalanga númer 32:

Ekki gleyma að drekka vatn.

Regla fyrir tímaferðalanga númer 36:

Ekki gleyma tækjum/tólum í fortíðinni.

Regla fyrir tímaferðalanga númer 39:

Ekki taka neitt með þér heim.

Regla fyrir tímaferðalanga númer 41:

Eins fyndið og það gæti verið er stranglega bannað að bregða sjálfum sér.

Regla fyrir tímaferðalanga númer 48:

Það er stranglega bannað að kaupa lottómiða í fortíðinni.


Myndbönd

Þitt eigið leikrit II - Tímaferðlag