Allt leikárið

Meistarinn og Margaríta

 • Eftir Mikhaíl Búlgakov. Leikgerð: Niklas Rådström
 • Leikstjórn Hilmar Jónsson

Hnyttin háðsádeila, gædd myrkum töfrum

 • Lengd 2:50 eitt hlé
 • Frumsýning 26.12.2019
 • Svið Stóra sviðið

Skáldsagan Meistarinn og Margaríta er af mörgum talin eitt magnaðasta skáldverk 20. aldarinnar. Þessi hnyttna og beitta háðsádeila um eilífa baráttu góðs og ills er vinsælt verkefni leikhúsa víða um heim, og birtist hér í nýrri leikgerð sem var frumflutt á Dramaten í Svíþjóð árið 2014.

Satan sjálfur heimsækir Moskvu í líki galdramannsins Wolands og ásamt skrautlegu fylgdarliði sínu tekur hann til við að afhjúpa spillingu og græðgi, og fletta ofan af svikahröppum, loddurum, aurasálum og hrokagikkjum. Jafnframt því að fylgjast með bellibrögðum Wolands kynnast áhorfendur Meistaranum, rithöfundi sem hefur verið lokaður inni á geðspítala af yfirvöldum, og ástkonu hans Margarítu, og inn í fjölskrúðugan sagnaheim verksins blandast óvænt frásögn af Pontíusi Pílatusi og síðustu stundum Jesú frá Nasaret.

Þetta sígilda skáldverk talar til okkar með nýjum og ferskum hætti í heillandi sýningu, þar sem allt getur gerst og undramáttur ímyndunaraflsins ræður ríkjum.

Boðið verður upp á 20 mín. umræður með þátttöku listamanna eftir 6. sýningu á verkinu laugardagskvöldið 11. janúar.

Næstu sýningar

 • Engin sýning framundan

Leikarar

Leikhópurinn fer að auki með ýmis önnur hlutverk

Listrænir stjórnendur

 • Höfundur skáldsögu
  Mikhaíl Búlgakov
 • Leikgerð
  Niklas Rådström
 • Leikstjórn og þýðing leikgerðar
  Hilmar Jónsson
 • Leikmynd
  Sigríður Sunna Reynisdóttir
 • Búningar
  Eva Signý Berger
 • Lýsing
  Halldór Örn Óskarsson
 • Tónlist
  Valgeir Sigurðsson
 • Sviðshreyfingar
  Chantelle Carey
 • Hljóðmynd
  Valgeir Sigurðsson, Aron Þór Arnarsson og Kristinn Gauti Einarsson
 • Leikgervi
  Tinna Ingimarsdóttir og Eva Signý Berger
 • Sýningarstjórn
  María Dís Cilia
 • Aðstoðarleikstjóri
  Eygló Hilmarsdóttir
 • Aðstoðarmaður leikstjóra (starfsnemi af sviðshöfundabraut LHÍ)
  Brynhildur Karlsdóttir
 • Textaaðstoð
  Tryggvi Freyr Torfason
 • Aðstoð við sviðshreyfingar
  Juliette Louste
 • Aðstoðarmaður búningahönnuðar
  Erla Guðrún Fritzdóttir
 • Ráðgjöf við töfrabrögð
  Dirk Losander
 • Tannsmíði
  Finnbogi Helgason
 • Leikgervadeild

  Ingibjörg G. Huldarsdóttir deildarstjóri, Valdís Karen Smáradóttir, Þóra Guðbjörg Benediktsdóttir, Tinna Ingimarsdóttir

 • Búningadeild
  Berglind Einarsdóttir deildarstjóri (yfirumsjón sýningar), Ásdís Guðný Guðmundsdóttir, Leila Arge, Hjördís Sigurbjörnsdóttir, Sigurbjörg Stefánsdóttir, Ingveldur Elsa Breiðfjörð
 • Leikmunadeild

  Yfirumsjón sýningar: Mathilde Morant og Trygve Jonas Eliassen

 • Hljóðmaður á sviði

  Eysteinn Aron Halldórsson

 • Sviðsdeild
  Sviðsmenn: Gísli Bjarki Guðmundsson (yfirumsjón), Eglé Sipaviciute, Hera Katrín Aradóttir, Lena Birgisdóttir, Melkorka Embla Hjartardóttir, Sandra Ruth Ásgeirsdóttir, Siobhán Antoinette Henry og Valur Hreggviðsson
 • Leikmyndargerð
  Smíðaverkstæði Þjóðleikhússins og sviðsmenn
  Smiðir: Alex Hatfield, Arturs Zorgis, Haraldur Levi Jónsson, Hildur Evlalía Unnarsdóttir, Michael John Bown (yfirsmiður), Valdimar Róbert Fransson og Viðar Jónsson
  Málarar: Alicia Luz Rodriguez, Brett Smith, Dagur Alex Ingason, Elsa Mencagli, Helgi Þórsson, Rebecca Scott Lord, Ricardo Othoniel Gutierrez og Valur Hreggviðsson
 • Framleiðslustjóri
  Hákon Örn Hákonarson
 • Ljósmyndir úr sýningu
  Hörður Sveinsson
 • Titill á frummáli
  Мастер и Маргарита (skáldsaga), Mästaren och Margarita (leikgerð)
 • Sýningarréttur
  Draken Teaterförlag, Stockholm

Mikhaíl Búlgakov

Rebekka Þráinsdóttir, aðjunkt við mála- og menningardeild Háskóla Íslands, skrifar um rithöfundinn Mikhaíl Búlgakov (1891–1940) og skáldsögu hans Meistarann og Margarítu

Bulgakov

Læknir og rithöfundur

Mikhaíl Afanasevítsj Búlgakov fæddist í Kænugarði í Úkraínu árið 1891 og ólst upp á barnmörgu og líflegu menningarheimili. Móðir hans var kennari, en faðir hans gegndi prófessorsstöðu í prestaskóla. Búlgakov lauk námi í læknisfræði árið 1916 og starfaði um tíma sem læknir á þorpsspítala í Smolensk-héraði og síðan sem herlæknir á tímum borgarastríðsins sem braust út í kjölfar byltingarinnar 1917. Um reynslu sína af starfi sveitalæknis skrifaði Búlgakov pistla í blöð og tímarit, sem síðar komu út á bók. Hún hefur ekki verið þýdd á íslensku, en margir kannast við frásagnir hans af læknisstarfinu úr bresku sjónvarpsþáttunum Dagbók læknis (e. A Young Doctor's Notebook), sem sýndir voru í Ríkissjónvarpinu árið 2016.

Árið 1921 ákvað Búlgakov að söðla um og fluttist til Moskvu til að gerast rithöfundur. Hann skrifaði meðal annars sögur og pistla fyrir blöð og tímarit um það sem efst var á baugi á miklum umbrotatímum í landinu. Það voru gjarnan „ádrepur á hugleysi þeirra sem hafa allan hugann við að bjarga eigin skinni […], á menningarleysi og sjálfumglaða fáfræði, á valdahroka nýbakaðra skriffinna.“[1]

Nokkuð fram eftir þriðja áratugnum var mikil gróska í menningarlífi hinna ungu Sovétríkja og Búlgakov gaf út nokkrar sögur, þar á meðal Örlagaeggin, 1824, sem út kom í íslenskri þýðingu Ingibjargar Haraldsdóttur árið 1989. Þessi kraftmikla saga var fyrirboði þess sem koma skyldi hjá Búlgakov. Vísindamaður uppgötvar fyrir tilviljun „rauðan lífsgeisla“ sem flýtir fyrir tímgun og vexti lífvera. Þegar óþekktur sjúkdómur leiðir til algers hruns í hænsnabúskap þjóðarinnar er ákveðið nota geislann á innflutt hænuegg. Fyrir mistök er geislanum hins vegar beint að eðlu- og strútseggjum. Ófreskjur af áður óþekktri stærð leggjast á menn og málleysingja í sveitunum umhverfis Moskvu og halda í sumarlok í átt til höfuðborgarinnar – þar sem mannaþefurinn er mestur. Eins og fyrir kraftaverk brestur á með bitru næturfrosti í ágúst sem er hitabeltisdýrunum ofviða. Eftir á að hyggja má skoða skrif Búlgakovs um það hvernig rússneski veturinn vinnur bug á andstæðingum íbúa Moskvu eins og spádóm, en vetrarhörkur áttu eftir að verða óvæntur bandamaður Sovétríkjanna í heimsstyrjöldinni síðari. Enginn skortur er á vísunum til samtímans í sögunni, s.s. rauði geislinn sem verður að tortímandi afli kunni menn ekki með hann að fara og oftrú á tækniframfarir. Alls kyns furður aðrar eru á sveimi í sögunni. Glens og glannaskapur af þessu tagi fór ekki vel í það samfélag rithöfunda sem var að verða til um öreigabókmenntir og uppeldi „hins nýja sovéska manns“. Búlgakov sætti harðri gagnrýni og lenti í miklum erfiðleikum með að fá verk sín útgefin. Til dæmis kom bókin Hundshjarta, sem Búlgakov skrifaði árið 1925, ekki út í Sovétríkjunum fyrr en árið 1987.[2]

Árið 1925 birtist hluti skáldsögu Búlgakovs Hvíta varðliðið í tímaritinu Rossíja. Sagan, sem rituð er í raunsæislegum stíl, gerist í heimaborg höfundar, Kænugarði, á tímum borgarastríðsins. Sagt er frá rússnesku menntafólki sem hefur samúð með málstað hvítliða og óttast eyðileggingarmátt byltingarinnar og hrun hinnar klassísku menningar. Eftir því sem sögunni vindur fram átta sögupersónurnar sig á því að þær verði að segja skilið við fortíðina og byrja upp á nýtt – og að líklega eigi alþýða landsins eitthvað inni hjá þeim. Gríðarlega vinsælt leikrit, Dagar Túrbínfjölskyldunnar, sem Búlgakov byggir á þessari skáldsögu, var sett upp í Listaleikhúsinu í Moskvu árið 1926. Stalín var mjög hrifinn af sýningunni og sagt er að hann hafi séð hana a.m.k. fimmtán sinnum. Gagnrýnendur töldu þó margir að stéttaóvinunum væri hér sýnd of mikil linkind. Önnur leikverk Búlgakovs urðu einnig fyrir mikilli gagnrýni og árið 1929 höfðu öll leikrit rithöfundarins verið gerð útlæg af sviðum leikhúsanna og bækur hans fengust ekki prentaðar. Dögum Túrbínfjölskyldunnar var þó aftur komið á svið árið 1932 og það var sýnt mörg hundruð sinnum á næstu árum í Sovétríkjunum.

Lítið dæmi um þann fjandskap sem við var að etja má finna í umfjöllun um Búlgakov í fyrsta bindi Sovéskrar alfræðiorðabókar um bókmenntir, sem út kom í ellefu bindum á árunum 1929–1939, en þar segir meðal annars að listamannsferill Búlgakovs beri þess merki að höfundur sé stéttaóvinur hins sovéska veruleika. Fyrir rithöfund voru þetta vond tíðindi. Í Sovétríkjunum féll fjöldi rithöfunda, og annarra listamanna, í ónáð. Gjarnan var um að ræða rithöfunda sem skrifuðu í módernískum anda eða áttu erfitt með að sætta sig við að skrifa samkvæmt forskrift stjórnvalda. Þeir sættu ritbanni, opinberum fjandskap og áttu oft erfitt með að sjá sér farborða. Í mörgum tilfellum var fólki gert lífið nánast óbærilegt, sumir voru sendir í fangabúðir og enn aðrir voru teknir af lífi. Smám saman var Stalín að ná algerum völdum í Kommúnistaflokknum, fimmáraáætlanir voru settar af stað, hungursneyð geisaði í Úkraínu, sósíalrealismi var gerður að skyldustefnu í bókmenntum og listum, og þegar líða tók á áratuginn hófust grimmilegar ofsóknir og sýndarréttarhöld með tilheyrandi útlegðardómum og aftökum.

Það er í þessu andrúmslofti sem skáldsagan Meistarinn og Margaríta verður til. Síðustu tíu árin sem Búlgakov lifði bjó hann við mikið afkomuóöryggi, listrænt ófrelsi, eftirlit og ritbann sem reyndist honum þungbært.

„Stalín vill heyra í yður ...“

Búlgakov óskaði þess oftar en einu sinni að fá að fara úr landi en fékk aldrei leyfi til þess. Árið 1930 var Búlgakov að gefast upp á erfiðleikunum við að fá verk sín birt og tekjuleysinu sem því fylgdi. Í lok mars 1930 sendi hann yfirvöldum frægt bréf þar sem hann gerði með nokkuð áræðnum hætti grein fyrir afstöðu sinni til listarinnar og lýsti yfir hollustu við hugmyndina um frjálsa list og skapandi hugsun, en andstöðu við forheimskun persónuleikans, þrælslund, undirlægjur og smjaðrara. Um eigin stöðu segir hann meðal annars: „Þegar ég fer yfir úrklippualbúmið mitt, sé ég að á síðustu tíu árum hafa birst um mig 301 grein í sovéskum fjölmiðlum. Þar af eru 3 jákvæðar – en 298 neikvæðar og fjandsamlegar“, og að margir líti á það sem mikinn sigur að gert hafi verið út af við hann. Hann fór fram á að fá starf við Listaleikhúsið eða fá að fara úr landi.

Svo leið tíminn, þá hringdi síminn ... Stalín vildi eiga orð við höfundinn. Hér á eftir fer endursögn samkvæmt minningum Jelenu, eiginkonu Búlgakovs:

– Við fengum bréfið frá yður og erum búnir að lesa það. Svarið við því verður yður hagstætt. En getur það verið rétt að þér viljið fara úr landi? Eruð þér orðinn svona óskaplega leiður á okkur?

Þessi spurning kom Búlgakov svo gersamlega í opna skjöldu (auk þess hafði hann alls ekki átt von á símtalinu) – að hann vissi ekki hverju hann átti að svara en sagði að lokum:

– Ég hef mikið verið að velta því fyrir mér undanfarið hvort rússneskur rithöfundur geti þrifist utan heimalandsins. Líklega getur hann það ekki.

– Þér hafið á réttu að standa. Ég er sammála þessu. En hvar viljið þér fá vinnu? Í Listaleikhúsinu?

– Já, það vildi ég gjarnan.

Þannig fór það. Hann fékk vinnu við Listaleikhúsið og starfaði þar sem leikstjóri um tíma.

Meistarinn og Margaríta, handritið sem ekki brann

Á meðan Búlgakov lifði birtust eftir hann nokkrar smásögur, stutt skáldsaga og þrjú leikrit – en aðeins eitt þeirra hafði verið sýnt oftar en í nokkur skipti á sviðum leikhúsanna. Því má segja að hann hafi aðeins verið „minniháttar spámaður“ í hugum flestra sovéskra samtímamanna og lesenda þegar hann féll frá eftir langvarandi veikindi, aðeins 48 ára gamall.

Fáir vissu að allan fjórða áratuginn vann Búlgakov að þeirri skáldsögu sem átti eftir að valda miklum straumhvörfum í sovéskum og rússneskum bókmenntum þegar hún var að endingu birt í styttri útgáfu í Sovétríkjunum á árunum 1966–1967. Þetta var sagan um Meistarann og Margarítu, ástina, listina og eilíft líf – saga sem er engri lík. Með hjálp Jelenu, þriðju eiginkonu sinnar, endurskrifaði hann verkið að minnsta kosti átta sinnum, og hélt áfram að gera breytingar fram í andlátið.

Jelena hafði gefið manni sínum það loforð að sjá til þess að skáldsagan kæmist á prent. Það varð hins vegar ekki fyrr en 26 árum eftir andlát höfundarins. Margir líta á skáldsöguna sem óklárað handrit, því nokkur ritstjórnarvinna fór fram eftir andlát Búlgakovs. Síðustu breytingarnar gerði Jelena, samkvæmt því sem hún taldi víst að eiginmaður hennar hefði viljað.

Fyrri hluti sögunnar birtist í nóvemberhefti tímaritsins Moskvu árið 1966 og sá síðari í janúarhefti sama tímarits árið 1967. Nóvemberheftið var prentað í 150.000 eintökum, seldist upp á nokkrum klukkutímum og varð fljótt algerlega ófáanlegt. Tveimur árum síðar var búið að þýða skáldsöguna á þó nokkur tungumál. Á íslensku birtist sagan árið 1981 í þýðingu Ingibjargar Haraldsdóttur.

Meistarinn og Margaríta skipar heiðurssess í höfundarverki Búlgakovs. Sé tekið mið af þeirri alúð sem hann lagði í verkið má gera ráð fyrir að hann hafi ætlað þessu verki að vera sinn sáttmáli við Guð og menn og það sem hans yrði minnst fyrir. Það gekk eftir. Lesendur tóku skáldsögunni sem eins konar opinberun. Í bókmenntaumhverfi sósílarealisma og framleiðsluskáldsagna tók fólk goðsögnum og rómantík fagnandi. Þeir voru líka til sem gagnrýndu höfundinn, t.d. þótti andfélagslegt að leiða fram rithöfund sem einangrar sig frá samfélagi manna. Aðrir bentu þó á að fantasían sem hér væri á ferð minnti á það besta frá nítjándu aldar höfundinum Níkolaj Gogol, sem einnig var Úkraínumaður – sá samanburður hefði sannarlega vermt hjarta Búlgakovs. Barátta Pílatusar við eigin samvisku þótti einnig afar áhugavert viðfangsefni.

Nokkuð er á reiki hvenær hugmyndin að sögunni kviknaði. Samstarfsmenn Búlgakovs í Listaleikhúsinu minnast þess að í samtölum hafi komið fram áhugi hans á píslarsögunni og leyndardómum hennar. Í minnispunktum hans fundust einnig fjölmargar tilvitnanir í rit sem tengjast djöflatrúarfræðum og bæði persónur og atburðir í sögunni eiga rætur að rekja til slíkra rita. Nefna má Hellu og talandi köttinn Behemot úr fylgdarliði Wolands, ýmis atriði varðandi „kórstjórann“ Fagot-Korovjov, svo ekki sé talað um Woland. Í djöflafræðin eru líka sótt atvik sem tengjast árshátíð Satans og hugmyndin að talandi og skrifandi jakkafötum – en eigandi þeirra gufaði upp eftir að hafa ákallað djöfulinn of oft.

Víst er að sagan tók allmiklum breytingum á þeim rúmu tíu árum sem Búlgakov vann að henni. Persónur úr upprunalegri gerð sögunnar hurfu og aðrar komu í staðinn. Einnig varð sagan, sem upphaflega átti að verða einfaldari og glaðværari frásögn af heimsókn myrkrahöfðingjans til Moskvu, flóknari og þræðirnir fleiri eftir því sem á leið.

Í sögunni er ofið þétt net hugmynda, hugsana og tákna sem er afrakstur rannsókna höfundar á frumkristni, lífinu í Rómarveldi, satanisma, því yfirnáttúrlega og síðast en ekki síst mannlegu eðli. Fjallað er um algild viðfangsefni eins og ragmennsku, synd, refsingu, frelsun, listina, ástina og dauðleikann í þessu mikla verki þar sem leiftrandi húmor, satíra, töfraraunsæi, ævintýri og strangt raunsæi hjálpast að við að gera frásögnina sem áhrifamesta.

Skáldsagan er sögð á nokkrum plönum eða tilverusviðum. Í grundvallaratriðum er sagan á tveimur plönum: saga sem gerist í Moskvu samtímans, þar sem spilling og ótti ráða ríkjum, og önnur sem gerist í Jerúsalem fyrir tvöþúsund árum. Við þetta má bæta heimi listar og ástar þar sem meistarinn og Margaríta eru í aðalhlutverki, og heimsókn Satans til Moskvu. Niðurstaðan getur þá verið að plönin séu Moskva, Jerúsalem og svo óræður staður sem erfitt er að henda reiður á.

Sagan gerist á fjórum dögum í Moskvu – þegar sjálfur Satan, sem kallar sig Woland, heimsækir borgina ásamt skrautlegu föruneyti í því skyni að halda sinn árlega dansleik. Hann virðist reyndar eiga fleiri erindi, til dæmis að taka stöðuna á mannfólkinu í samhengi við undangengnar kynslóðir allt frá upphafi vega, auk þess að skemmta sér, og lesandanum, með því að hrella lítilmenni af ýmsu tagi – svindlara, þýlynda rithöfunda, skriffinna og siðleysingja – en ekki síst að koma ástinni, fegurðinni og listinni til bjargar. Í Moskvu gerist líka saga meistarans og Margarítu, saga ástar sem ekki á sér framtíð í raunheimum. Meistarinn skrifar sína útgáfu af píslarsögunni, um Pílatus og Jesúa, eða Ha-Notsri, sem gerist í Jerúsalem fyrir tvö þúsund árum. Margaríta, sem hann hittir fyrir tilviljun, verður ástkona hans, lesandi og aðdáandi. Eftir að meistarinn hefur farið með handritið til útgefanda fara að birtast harðorðar greinar um verkið og höfund þess – og í því sambandi er talað um „Pílatusarvitleysu“ sem kallast á við umræðu um svonefnda „Búlgakovsjínu“ í umfjöllun um Búlgakov sjálfan. Skáldsaga meistarans getur ekki komið út og því er henni miðlað til okkar í nokkrum hlutum, eftir ólíkum leiðum: í frásögn Wolands, sem segist hafa verið á staðnum og setur ekki fram neinar efasemdir um meðferð meistarans á sögunni; í gegnum draum Ívans og loks í gegnum lestur Margarítu á handriti meistara síns – sem brann í eldi en Woland hefur með mætti sínum gert heilt. Eða hvað? Brann handritið? Ein frægasta setning heimsbókmenntanna er lögð í munn Wolands og sannast á handriti meistarans og skáldsögu Búlgakovs: „Handrit brenna ekki.“

Hefndin er sæt

Hjá því verður ekki komist að sjá í sögunni gagnrýni á samtíma skáldsins þar sem ríkið nær tökum á öllu og öllum: efnahagnum, menningarlífinu, fólkinu og jafnvel hugsunum þess. Fram kemur beitt gagnrýni á þá sem stjórnuðu bókmenntalífinu í landinu, þar sem hæfileikafólki var haldið niðri og það ofsótt, allt í nafni hins „nýja heims“ sem verið var að byggja, og rithöfunda sem sinna skrifum eins og hverju öðru skítadjobbi sem lýtur tilbúinni og fastmótaðri hugmyndafræði. Í upphafi skáldsögunnar verður Berlíoz, forseti rithöfundasambandsins, fyrir sporvagni og deyr. Missir höfuðið. Allt samkvæmt nákvæmri forspá Wolands. Það læðist að manni sá grunur að Berlíozi hefnist fyrir að hafa gert bókmenntirnar að innihaldslausri skiptimynt fyrir sumarhús og ferðir á heilsuhæli, en slíks munaðar naut Búlgakov ekki í lifanda lífi. Búlgakov gefst líka færi á að hefna sín á gagnrýnendum, þegar hann lætur Margarítu fljúga á sópi yfir Moskvu og ganga berserksgang í íbúð gagnrýnandans Latúnskís, sem hafði rakkað niður skáldsögu meistarans – og þannig óbeint hrakið hann í útlegð á geðveikrahælið.

Woland leggur gjörva hönd á plóg við að ná fram hefndum. Hann á sér ýmsar fyrirmyndir úr þjóðsögum. Mefistó í Faust Goethes er ein þeirra. Sagan hefst reyndar á tilvitnun í Faust, þar sem Mefistó segist vera sá sem alltaf vill gera illt en gjöri ávallt gott. Tilvitnuninni hefur verið sleppt í íslensku þýðingunni. Woland Búlgakovs virðist hins vegar ekkert illt gera, freistar ekki þeirra saklausu og hjálpar Margarítu (Grétu) en steypir ekki í glötun, býður henni að gera við sig samning en krefst þess ekki að hún selji sál sína. Sem þjónn myrkursins er hann mikilvægur hluti hins eilífa jafnvægis og ítrekar að ljósið getur ekki án skuggans verið: „hvað yrði um hið góða ef hið illa væri ekki til“ (úr þýðingu Ingibjargar Haraldsdóttur).

Í sögunni „hverfur“ fólk og bornar eru á það hreint ótrúlegar sakir. Og Woland, líkt og Stalín, virðist sjá í gegnum holt og hæðir og hefur skósveina á sínum snærum sem vinna fyrir hann skítverkin – sem yfirleitt eru þó ekki annað en sprell og hressileg ofanígjöf. Þrátt fyrir mátt sinn og megin getur Woland þó ekki fundið ástinni, listinni og réttlætinu stað nema á öðru tilverusviði.

Íbúð í álögum. Nú á ég hvergi heima ...

Í huga Búlgakovs var friðsælt athvarf lykilatriði fyrir sálarheill mannsins. Húsnæðisskortur var viðvarandi vandamál í Sovétríkjunum og verður mikilvægt þema í Meistaranum og Margarítu. Meistarinn vinnur hundrað þúsund rúblur í happadrætti, segir upp herbergi, „bölvaðri rottuholu“ sem hann hafði haft á leigu, og flytur í örlitla kjallaraíbúð – algera paradís. Forstofa með þvottaskál og tvö herbergi, annað lítið en hitt „geysistórt – fjórtán fermetrar!“ Eftir að gagnrýnandinn Latúnskí birtir níðgrein sína um skáldsögu meistarans, leggur maður nokkur að nafni Aloísi Mogaríts fram kæru á hendur meistaranum þess efnis að hann hafi bannaðar bækur í fórum sínum, og kemst þannig yfir íbúðina hans. Þegar meistarinn glatar athvarfi sínu í kjölfar hrinu níðgreina í dagblöðum, hefur óttinn náð svo sterkum tökum á honum að eina lausn hans er að stimpla sig út úr samfélaginu. Margaríta „þekkti ekki til þeirrar skelfingar sem fylgir sambýli við aðrar fjölskyldur“ (úr þýðingu Ingibjargar Haraldsdóttur). Það sambýli sem hér er talað um var hlutskipti fjölda fólks í Sovétríkjunum þar sem margar fjölskyldur bjuggu saman í íbúð, hver með eitt herbergi en deildu eldhúsi og salerni eða baðherbergi – með þeim þeim óþægindum og árekstrum sem slíku gat fylgt.

Fólk gat þurft að beita ýmsum brögðum til að komast í sæmilegt húsnæði, nota sambönd og bjóða mútur. Ótalmargir vildu komast í hvert pláss sem losnaði. Berlíoz er ekki fyrr fallinn frá, en umsóknir um að komast í herbergið hans hellast yfir formann húsfélagsins. Á tveimur klukkutímum tók hann við þrjátíu og tveimur slíkum umsóknum og síminn stoppaði ekki. Hjá MASSOLIT er jafnan mesta örtröðin við dyrnar sem á stendur „Húsnæðismál“. Meira að segja Woland getur ekki gengið að vísu húsnæði nema beita brögðum. Hér koma saman tvær af ógnum samtímans – mannshvörf og húsnæðisskortur. Íbúar íbúðar númer fimmtíu á Sadovaja-hringbrautinni höfðu farið að hvera sporlaust áður en Woland kom til Moskvu! Og til að hann geti sest þar að, þurfa fleiri að hverfa. Berlíoz þarf að deyja og Stjopa þarf að töfra til Jalta.

Leikur að nöfnum

Rússneska er rík af ættarnöfnum og hægt er að búa til eftirnöfn í tengslum við nánast hvað sem er: fæðingarstað, þjóðfélagsstöðu, atvinnugrein, áhugamál, þjóðerni, trú o.s.frv. Þetta nýtir Búlgakov sér í ríkum mæli.

Rithöfundurinn ungi, sem í upphafi sögunnar berst við að fá botn í hvernig eigi og megi skrifa um Jesú og verður síðan áheyrandi meistarans á geðveikrahælinu, heitir Ívan Níkolajevítsj Ponyrjov. Hann skrifar undir dulnefninu Bezdomyj (Bésdomní), Бездомный, „sá sem er án húsnæðis“ = Ívan Heimilislausi. Hér er vísað til þess að fjölmargir breyttu ættarnöfnum sínum eða tóku sér listamannsnöfn í takt við nýja tíma, tíma öreiganna. Einn þeirra var rithöfundurinn Jefím Prídvorov. Hann skrifaði meðal annars andtrúarleg rit á þriðja áratugnum og tók sér skáldanafnið Demjan Bednyj, Бедный, „hinn fátæki“ = Demjan Fátæki.

Annað dæmi um þetta í skáldsögunni er nafn formanns húsfélagsins, Níkanor Ívanovítsj Bosoj, Босой, „hinn berfætti“ = Níkanor Berfætti. Einnig má nefna forstöðumann fjölleikahússins, Stepan (kallaður Stjopa) Bogdanovítsj Líkhodejev, Лиходеев, „sá sem gerir illt“ = Stepan Illvirki.

Skammstöfunin MASSOLIT, sem höfð er um rithöfundasambandið, kemur ítrekað fyrir í skáldsögunni. Yfir Sovétríkin gekk sannkallaður skammstöfunarfaraldur; ótal stofnanir og samtök voru sett á fót og þeim gjarnan fengin löng og flókin nöfn sem einfaldara var tala um með skammstöfunum og þótti áhrifameira. Í því dæmi sem hér er tekið stendur MASSOLIT fyrir Massovaja literatúra (rússn. МАССОЛИТ – Массовая литература), sem útleggja má sem „Massabókmenntir“ eða „Fjöldabókmenntir“. Hér skopstælir Búlgakov rithöfundasamtökin RAPP – Rossískaja Assotsíjatsíja Proletarskíkh Písatelej (rússn. РАПП – Российская ассоциация пролетарских писателей, 1925–1932) = Samband rússneskra öreigarithöfunda.

Glæpur og refsing Pílatusar

Í Jerúsalemköflunum er margt með öðrum brag en við erum vön úr guðspjöllunum. Jesúa er flökkuheimspekingur sem trúir því að ríki sannleikans muni koma. Ekki man hann eftir foreldrum sínum og gerir engin kraftaverk. Hann á sér enga hirð lærisveina en Leví Matteus, fyrrverandi tollheimtumaður, eltir hann „á röndum og skrifar niður allt sem ég segi. Einu sinni kíkti ég á þessi skrif hans og brá í brún. Ég hafði ekki sagt orð af því sem þar stóð“ (úr þýðingu Ingibjargar Haraldsdóttur). Allt er sett fram í ströngum raunsæisstíl. Þessir kaflar eru ekki að reyna að líta út fyrir að vera raunverulegir, „þeir eru raunverulegir“ og eru ekki meðvitaðir um að verið er að lesa þá.[3] Kraftaverkin gerast hins vegar í Moskvu, og verða þar harla eðlileg í þeim heimi sem þau spretta úr: úkraínskum þjóðsögum og goðsögninni um Faust.

Margt minnir þó á guðspjöllin. Pílatus er til dæmis sannfærður um sakleysi Jesúa en óttast tal hans um ríki sannleikans þar sem keisarar eru valdalausir, enda byggir tilvera Pílatusar á valdi keisarans. Með því að dæma Jesúa gegn betri vitund gerist hann sekur um þann glæp sem Jesúa (eða Búlgakov) kallar versta löstinn, „ragmennskuna“. Mígreni sálarinnar, óhrein samviska, fylgir honum inn í eilífðina, þar sem hann situr, nýr hendur sínar og þráir fyrirgefningu.

Hann nýr hendur sínar; það gerir hann ítrekað í Jerúsalem-köflunum og heldur því áfram í eilífðinni. Hér er hvort tveggja á ferð augljós tilvísun í samviskukvöl Lady Macbeth og áleitið tilbrigði við það sem segir í Matteusarguðspjalli 27: 24: „Hann tók vatn, þvoði hendur sínar frammi fyrir fólkinu og mælti: Sýkn er ég af blóði þessa [réttláta] manns! Svarið þið sjálf fyrir!“ Í skáldsögu meistarans eru engin táknræn eða leikræn tilþrif af þessu tagi. Um leið og meistaranum og hans tryggu og fórnfúsu Margarítu er tryggt eilíft athvarf, hlýtur Pílatus frelsi og fyrirgefningu meistarans.

Er hægt að fá nóg af Meistaranum og Margarítu?

Skáldsagan Meistarinn og Margaríta er svo margslungin og full af táknum og tilvísunum að margir hafa eytt bróðurpartinum af starfsævi sinni í rannsóknir á henni, og dugar ekki til. Við hin lesum hana aftur og aftur og sjáum nýjan sannleik, nýjar vísbendingar, nýjar opinberanir í hvert sinn.

Allt sem tengist höfundinum, skáldsögunni, tilurð hennar, hugmyndunum sem að baki liggja, fyrirmyndum persónanna, Moskvu fjórða áratugarins, Pílatusi og Jesúa, svo fátt sé nefnt, verður fólki að umhugsunar- og umfjöllunarefni.

Boðið er upp á skipulagðar ferðir í Moskvu á slóðir skáldsögunnar, enda var Búlgakov mjög nákvæmur í lýsingum sínum á borginni. Ferðamenn, bæði innlendir og erlendir, fara í pílagrímsferð að Patríarkatjörnum í hjarta Moskvu og fá sér sæti á „bekknum“ þar sem Ívan og Berlíoz hitta Woland í upphafi skáldsögunnar. Leikmenn halda úti heimasíðum um bókina á ensku, sjá t.d. masterandmargarita  og middlebury. Afar fróðlegri alfræðisíðu er haldið úti á rússnesku og árið 1996 kom út 600 blaðsíðna alfræðibók í Rússlandi um Búlgakov og verk hans. Vinsæl sjónvarpsþáttaröð var gerð eftir skjáldsögunni í Rússlandi árið 2005 í leikstjórn Vladimirs Bortkos.

Við erum fólk eins og gengur og gerist …

Í kvöld horfir Woland á okkur og sér okkur eins og við erum:

Þetta er fólk eins og gengur og gerist … Það elskar peninga, sem er svo sem ekkert nýtt … Mannkynið elskar peninga, hvort sem þeir eru úr leðri, pappír, kopar eða gulli. Þetta er léttúðugt fólk … og miskunnsemi gætir öðru hvoru í fari þess … venjulegt fólk. Þegar á allt er litið líkist það fólki sem hér var áður, þótt húsnæðisvandamálið hafi spillt því. (Úr þýðingu Ingibjargar Haraldsdóttur).

[1] Árni Bergmann, „Formáli“ í: Mikhaíl Búlgakov, Meistarinn og Margaríta, þýð. Ingibjörg Haraldsdóttir, Reykjavík: Mál og menning, 1981, bls. 5-8, hér bls. 6.

[2] Bókin kom út á Íslandi í þýðingu Ingibjargar Haraldsdóttur, hjá Máli og menningu árið 1992.

[3] Caryl Emerson, The Cambridge introduction to Russian literature, UK; New York: Cambridge University Press, 2008, bls. 177.


ViðtölHilmar Jónsson

Stefán Hallur og Birgitta

Æfingatímabil

Myndir frá fyrsta samlestri