Leikskrár

Leikskrá - Þitt eigið leikrit - Goðsaga

Ævintýraleg og spennandi sýning, þar sem allt getur gerst!

Nú er komið að þér að stjórna framvindunni í þínu eigin leikriti!

Þú mátt kjósa!

Leikarar

Listrænir aðstandendur

 • Höfundur
  Ævar Þór Benediktsson
 • Leikstjórn
  Stefán Hallur Stefánsson
 • Leikmynd
  Högni Sigurþórsson
 • Búningar
  Ásdís Guðný Guðmundsdóttir
 • Lýsing
  Magnús Arnar Sigurðarson
 • Myndband
  Ingi Bekk
 • Tónlist og hljóðmynd
  Elvar Geir Sævarsson og Kristinn Gauti Einarsson
 • Kosningakerfi og aðrar sértækar tæknilausnir
  Hermann Karl Björnsson
 • Aðstoðarleikstjórn
  Mari Agge
 • Sýningaumsjón og sýningastjórn

  Guðmundur Erlingsson og Eglė Sipavičiūtė

 • Tæknistjórn á sýningum
  Ásta Jónína Arnardóttir
 • Leikgervi
  Valdís Karen Smáradóttir
 • Búningadeild
  Ásdís Guðný Guðmundsdóttir (yfirumsjón sýningar), Berglind Einarsdóttir (deildarstjóri) , Leila Arge, Hjördís Sigurbjörnsdóttir, Sigurbjörg Stefánsdóttir, Ingveldur E. Breiðfjörð
 • Formlistamaður
  Mathilde Anne Morant
 • Brúðugerð

  Aldís Davíðsdóttir

 • Leikmyndarsmíði

  Reynir Þorsteinsson og Högni Sigurþórsson

 • Sýning í anddyri

  Högni Sigurþórsson, Reynir Þorsteinsson, Mathilde Anne Morant og Björgvin Már Pálsson

 • Pylsugerðarmaður og aðstoð við undirbúning
  Jón Stefán Sigurðsson

Frá höfundi

Það er vika í frumsýningu.

Ég sit úti í sal og fylgist með Láru (Eddu Haðardóttur) og Snorra (Loka Laufeyjarsyni) ræsa út Naglfarið. Ég heyri í Baldri Trausta á bak við leikmyndina búa sig undir að rúlla skipinu inn á svið. Á bak við dimmlýsta sviðsmyndina heyri ég fótatak Gumma og Egle þar sem þau undirbúa æskuepli Iðunnar sem verða í boði í Valhöll – ef áhorfendur kjósa að heimsækja Ásgarð, það er að segja. Hilmir er í búningaskiptum, hendir sér leiftursnöggt úr hendinni Einari yfir í þrumuguðinn Þór og svo aftur til baka. Sólveig situr skammt frá mér úti í sal og fylgist spennt með; einbeitt á svip og með upplýsta Miðgarðsorms-brúðu við hliðina á sér.

Ég hef leikið á móti þeim ölllum; Hilmi, Snorra, Sólveigu, Baldri og Láru. Ég veit hvað þau eru klár og ég veit að þau halda endalaust áfram að koma með hugmyndir og tillögur að nýjum leiðum til að gera sýninguna okkar betri. Við hefðum ekki getað verið heppnari með leikhóp – því undir venjulegum kringumstæðum er hægara sagt en gert að setja upp leiksýningu, hvað þá þegar hún er til í ótalmörgum útgáfum og þú þarft að kunna þær allar. Stefán Hallur, skipulagðasti og lausnamiðaðasti (sem er víst orð) leikstjóri norðan Ásgarðs, biður alla um að bakka og við rennum enn einu sinni í senuna. Allar deildir eru tilbúnar á kantinum, norræna goðafræðin fyllir Kúluna og áður en við vitum af er sjálfur Miðgarðsormurinn mættur í fullri stærð og tilbúinn í slaginn.

Fyrir fjórum árum skrifaði ég bók. Þín eigin goðsaga var önnur bókin í Þín eigin-bókaflokknum og sú langþykkasta. Ástæðan er einföld; heimurinn sem hún er byggð á, norræna goðafræðin, er endalaus uppspretta sagna og ævintýra. Fyrir tveimur árum fékk ég símtal frá Stefáni Halli þar sem hann spurði mig hvort ég væri til í að hitta hann, Magga ljósahönnuð, Högna leikmyndahönnuð og fleiri og ræða möguleikann á því að taka Þitt eigið-formið og færa það á svið. Í fyrstu var ég ekki viss – en svo minntist ég þess að þeir ásamt fleirum hefðu verið á bak við sýninguna Litla prinsinn sem sett var upp í Kúlunni fyrir nokkrum árum og þá gat ég ekki annað en verið memm. Sú sýning var yndisleg og situr enn í mér mörgum árum seinna.

Eitt af því sem mig langaði að gera þegar ég skrifaði þetta verk var að koma lesendum bókarinnar á óvart; suma þræði í verkinu munu dyggir lesendur kannast við – í öðrum tilfellum eru glænýjar sögur á ferðinni og áhorfendur munu ekki vita í hvorn fótinn þeir eiga að stíga. Þeir mega samt ekki vera of lengi að ákveða sig; hver kosning tekur bara 10 sekúndur. Stundum náði verkið meira að segja að koma sjálfum mér á óvart; leikararnir og leikstjórinn gripu hugmynd á lofti sem var í handritinu og teygðu hana og tosuðu í glænýja átt með spennandi afleiðingum. Mér þykir afar vænt um samtalið milli leikhóps og höfundar í þessu ferli.

Leiksýning er allt öðruvísi kvikindi en bók; bók er prentuð og breytist sjaldan eftir það á meðan leiksýning heldur áfram að þróast. Í eðli sínu eru tvær sýningar af sama leikritinu aldrei nákvæmlega eins – en það á kannski sérstaklega við í okkar tilfelli. Það hefur verið ævintýri líkast að fylgjast með heimi verksins verða til. Hér er fagfólk á öllum sviðum. Ég hlakka til að þið fáið að upplifa það ævintýri með okkur.

Aftur.

Og aftur.

Jæja, það er verið að rúlla Valhöll inn. Einherjar og Valkyrjur veina í fjarska og hrímþursar arka að Ásgarði. Ég ætla að halda áfram að horfa á sýninguna.

Gangi ykkur vel.

Og ekki treysta Loka.

-Ævar 


Kosningakerfið

Kosningakerfið og fjarstýringarnar sem áhorfendur nota til að velja leiðirnar í Þínu eigin leikriti eru hannaðar og smíðaðar frá grunni hér í Þjóðleikhúsinu.

Heiðurinn af þessari tækninýjung á Hermann K. Björnsson, eða Hemmi, sem starfar í ljósadeildinni. Auk þess að sinna hefðbundnum störfum sem ljósamaður fæst Hemmi við að finna út úr allskonar ómögulegum vandamálum sem snerta raftækni í leiksýningum Þjóðleikhússins. Nýjasta verkefni Hemma af því tagi var til dæmis að finna leið til að stjórna flóknum hreyfingum á gólfinu í leikmyndinni í sýningunni Samþykki, en þar þurfti gólfið sem leikararnir léku á að geta oltið til hliðanna. Hemmi er menntaður rafvirki, en það má líka segja að hann sé nokkurs konar „rafmagnsnörd“. Eða bara „rafmagnssnillingur“.

Í fyrstu var hugmyndin að áhorfendur myndu kjósa um leiðir í Þínu eigin leikriti með handauppréttingum, en til þess að koma í veg fyrir hópþrýsting í valinu, og leyfa hverjum og einum að stjórna alveg sínu vali, var ákveðið að reyna að finna leið til að leyfa áhorfendum að kjósa rafrænt.

Þá fór Hemmi að velta vöngum. Hann fékk hugmynd að lausn, þróaði hana áfram og kom henni í framkvæmd. Hann byrjaði á því að meta hvað kerfið þyrfti að gera og hvernig hægt væri að leysa það verkefni. Svo forritaði hann og smíðaði sjálfur frá grunni 115 fjarstýringar!

Útlitið á fjarstýringunum unnu Hemmi og Högni leikmyndahöfundur í samvinnu.

Og hvernig virkar svo kerfið?

1)      Kosning  er sett af stað með ákveðið mörgum valmöguleikum.

2)      Áhorfendur velja með því að ýta á takka.

3)      Tölva les hvað flestir velja, keyrir af stað tilkynningu um það, og leiðir tæknistjórn sýningarinnar áfram rétta leið.

4)      Leikararnir þurfa að bregðast við á örskotsstundu og leika rétt leikrit!

Hér að neðan má sjá dæmi um kosningaúrslit, yfirlit í einu vali yfir allar fjarstýringar:

Kosningaurslit-yfirlit-yfir-fjarstyringar
Hringur valinn - ljósblár
Kassi valinn - bleikur
Þríhyrningur valinn - gulur
Kross valinn - appelsínugulur
Ekkert valið - brúnn

Hér eru myndbönd sem sýna dæmi um kosningu:


Umfjöllun

Umgjörð sýningarinnar ber listrænum hönnuðum og tæknifólki Þjóðleikhússins fagurt vitn 

Norræn goðafræði


Ævar hefur skrifað tvær bækur þar sem hann leikur sér með heim norrænu goðafræðinnar; Þína eigin goðsögu og Börn Loka. Ef þig langar að kynnast upphaflegu sögunum um goðin mælir Ævar sérstaklega með Snorra-Eddu og Valhallar-teiknimyndasögunum. En hér eru nokkrir fróðleiksmolar frá Ævari um heim goðanna:

Askur Yggdrasils

Sjálft heimstréð. Það er svo stórt og svakalegt að það nær í gegnum alla jörðina og rúmlega það. Í raun nær það til allra heima norrænu goðafræðinnar. Í toppi þess býr örn og á botninum lúrir dreki. Íkorninn Ratatoskur hleypur á milli þessara tveggja dýra og slúðrar. 

Auðhumla

Risastór kýr. Alveg hreint risastór. Hún sá um að næra þursinn Ými og bjó til forföður goðanna, Búra, með því að sleikja salta hrímsteina þar til hann kom í ljós. 

Ásgarður

Heimili goðanna. Svakalega fallegur staður. Þar má meðal annars finna Valhöll. Ásgarður er þar sem himinn rís hæst og ef þig langar að komast þangað þarftu að ganga eftir regnbogabrúnni Bifröst. 

Baldur

Einn af goðunum, sonur Óðins og Friggjar. Ósæranlegur – nema þú tálgir ör úr mistilteini og skjótir henni í hann. Fáránlega myndarlegur og með hár sem fær hörðustu nagla til að fella tár. 

Bifröst

Regnbogabrúin. Ef þú ætlar að heimsækja Ásgarð verður þú að rölta eftir þessari litríku brú. Farðu samt varlega – regnbogar eiga það til að leysast upp þegar þú átt síst á því von. 

Einherjar

Allir þeir sem deyja í bardaga á jörðu niðri eru sóttir af valkyrjunum og fá samastað í Valhöll. Þessir menn eru kallaðir einherjar og munu verja Ásgarð í Ragnarökum. 

Fenrisúlfur

Eitt af fjölmörgum börnum Loka. Fenrisúlfur var mesta grey þegar hann var yrðlingur og átti meira að segja heima hjá goðunum um tíma. Þegar hann fór svo að stækka stóð goðunum ekki á sama og plötuðu þau hann að lokum og bundu hann fastan svo hann gæti ekki ráðist á þau. Því hefur verið spáð að Fenrir drepi Óðin í Ragnarökum. 

Frigg

Kona Óðins. Höfuðgyðja og kerling í krapinu. Frigg er móðir Baldurs og getur séð það sem mun gerast í framtíðinni – sem getur bæði verið blessun og bölvun. 

Heimdallur

Varðmaður Ásgarðs. Það fer ekkert fram hjá honum. Nema stundum. Hann býr í Himinbjörgum og gætir regnbogabrúarinnar Bifrastar. Hann á lúðurinn Gjallarhorn sem heyrist um alla heima ef blásið er í hann. Í frístundum finnst honum gaman að tana. 

Hel

Eitt af afkvæmum Loka. Hel ríkir yfir Niflheimi (sem stundum er kallaður Hel) en þangað fara allir sem ekki deyja í orrustu. Hún er blá öðrum megin og hvít hinum megin. 

Hymir

Lítill jötunn sem fór með Þór að reyna að veiða Miðgarðsorminn. Mesta grey við fyrstu sýn en stórhættulegur um leið og þú snýrð baki í hann. Farðu varlega. 

Iðunn

Ein af ásynjunum, gyðja ástar og æsku. Hún ræktar hin svokölluðu æskuepli sem goðin háma í sig svo þau fái alveg örugglega engar hrukkur. 

Loki

Stórhættulegur hálfjötunn með kolsvart hjarta. Hann er félagi ásanna þegar það hentar honum og það er nánast alveg sama hvað hann gerir af sér, alltaf fær hann annan séns hjá þeim. Hann eignaðist Fenrisúlfinn, Hel og Miðgarðsorminn með tröllskessunni Angurboðu, og Narfa og Vála með konu sinni Sigyn. Já, og svo er hann mamma hestsins Sleipnis. Ef Loki er með þér í liði skaltu hafa auga með honum – það er aldrei að vita hvað hann gerir. 

Miðgarður

Miðja heimsins – þar sem við mannfólkið búum. 

Miðgarðsormur

Eitt af börnum Loka. Lítill og krúttlegur maðkur sem stækkaði svakalega hratt og varð að skrímsli. Hann spúir eitri, nær um alla jörðina og étur sjómenn eins og snakk. Því hefur verið spáð að Miðgarðsormurinn og Þór muni drepa hvor annan í Ragnarökum. 

Múspellsheimur

Eldheimur. Héðan kom hitinn við sköpun heimsins. 

Naglfar

Viðbjóðslegt skip úr nöglum dauðra manna. Ekki fara um borð. 

Niflheimur

Hér er svakalega kalt. Héðan kom kuldinn við sköpun heimsins. 

Níðhöggur

Dreki undir Aski Yggdrasils. Hann er stór og grimmur og nagar rætur trésins. Hann er alltaf svangur. 

Óðinn

Æðsta goð norrænu goðafræðinnar. Hann á ótal börn með ótal konum. Óðinn fórnaði öðru auga sínu fyrir sopa úr Mímisbrunni og er þess vegna með lepp. Sopinn veitti honum gríðarmikla visku og þess vegna virðist hann alltaf vita allt. Hann er kvæntur Frigg. 

Ragnarök

Heimsendir. Hér munu flestir, ef ekki allir, deyja. 

_H8B1772_1548948162719

Ratatoskur

Íkorni í Aski Yggdrasils sem nagar rætur trésins og flytur ljót orð á milli arnarins sem situr á toppi þess og ormsins Níðhöggs sem er á botni þess. Passaðu þig á Ratatoski – maður á aldrei að hlusta á slúður. 

Sif

Kona Þórs og gyðja kornakra og fjölskyldu. Það sem færri vita er að hún er mikill stríðsgarpur og kann að sveifla sverði eins og atvinnumaður. Samkvæmt Þór er best að hlýða henni ef hún segir þér að gera eitthvað. 

Sleipnir

Áttfættur hestur Óðins. Loki er mamma hans. Ekki spyrja hvernig það gerðist! 

Tanngnjóstur og Tanngrisnir

Þetta eru hinir fljúgandi hafrar Þórs. Þeir búa yfir þeim magnaða hæfileika að hægt er að drepa þá og éta og svo með smá sveiflu frá hamrinum Mjölni lifna þeir aftur við. Passaðu þig bara að fara varlega með beinin þeirra og alls ekki brjóta þau. 

Týr

Gríðarlega hugrakkt goð og mikil hetja. Týr var sá eini af goðunum sem þorði að leggja hönd sína í gin Fenrisúlfsins þegar átti að binda hann niður. Úlfurinn beit höndina af og því er Týr einhentur. Staðurinn sem úlfurinn beit höndina af heitir nú í höfuðið á honum: Úlfliður (úlnliður). 

Útgarður 

Svæðið sem hvorki goð né menn búa á. Hér ráða jötnar ríkjum. Ekki fara hingað nema þú þurfir þess nauðsynlega og þá helst með bæði Þór og Loka með þér. 

Valhöll

Bústaður Óðins. Hér gæða einherjarnir sér á geltinum Sæhrímni og drekka mjöð úr spenum geitarinnar Heiðrúnar. Það mætti í raun kalla Valhöll félagsmiðstöð goðanna. Flottasta höll í öllum heimum. 

Valkyrjur

Valkyrja er orð sem þýðir kjarnakona eða hörkukvenmaður. Valkyrjurnar fljúga yfir vígvelli Miðgarðs og ráða hverjir deyja og hverjir lifa. Þær taka alla með sér sem falla og gera þá að einherjum. 

_H8B1986_1548948270282

Vili og Vé

Tvö af fyrstu goðunum. Þeir eru líka stundum nefndir Lóður og Hænir. Vili og Vé koma bara fyrir í sköpunarsögunni og þá sem bræður Óðins. Mestu grey og gríðarlega góðir í að kasta heila upp í himininn. 

Ýmir

Þursinn sem allt er sprottið frá. Fætur hans eignuðust sexhöfða viðbjóðslegan son og hann svitnaði manni og konu undan handakrikunum. Saman urðu þessi þrjú upphaf hrímþursanna. Þegar Óðinn og bræður hans drápu Ými notuðu þeir líkama hans til að búa til heiminn. Næst þegar þú sérð fallegt ský geturðu þess vegna hugsað: „Nei, sko. Heilinn úr Ými.“ 

Þór

Þrumuguðinn Þór er stór og sterkur, með eldrautt hár og skegg. Hann er sonur Óðins og eiginmaður Sifjar. Hann er sterkastur allra ása og flýgur um á vagni sem geithafrarnir Tanngnjóstur og Tanngrisnir draga. Hann á hamarinn Mjölni og getur étið og drukkið hvern sem er undir borðið. Stundum er hann kallaður Öku-Þór. Oftast er hann samt kallaður „Ó, nei! Þór!“ – þá oftast af jötnum. 

Æsir og ásynjur 

Goðin sem ráða öllu í Ásgarði. Svolítið eins og kóngar og drottningar, prinsar og prinsessur. 

Örlaganornirnar

Urður, Verðandi og Skuld eru örlaganornir. Þær taka vatn á hverjum degi úr Urðarbrunni og vökva rætur Asks Yggdrasils. Þær skipta með sér tímabilum í sögu goðafræðinnar: Urður sér um fortíðina, Verðandi um nútíðina og Skuld um framtíðina. Skrítnar en afar áhugaverðar systur.

Heimsmynd norrænnar goðafræði

Högni leikmyndahöfundur teiknaði upp heimsmynd norrænu goðafræðinnar, og myndin er til sýnis í fullri stærð í forsal Kúlunnar, ásamt ýmsum skemmtilegum munum sem tengjast sýningunni.

Heimsmynd-norraenu-godafraedinnar-eftir-Hogna-Sigurthorsson


Viðtöl

Ævar Þór

Stefán Hallur