Leikskrár

Leikskrár - Stríð

Stríð

Samvinnuverkefni Þjóðleikhússins og Sinfóníuhljómsveitar Íslands

Listrænir aðstandendur

Verk eftir Ragnar Kjartansson og Kjartan Sveinsson

 • Leikstjórn
  Ragnar Kjartansson
 • Tónlist
  Kjartan Sveinsson
 • Hljómsveitarstjóri
  Bjarni Frímann Bjarnason
 • Leikmyndarhöfundur
  Ragnar Kjartansson
 • Hljómsveit
  Sinfóníuhljómsveit Íslands
 • Útfærsla leikmyndar

  Axel Hallkell Jóhannesson og Jana Wassong

 • Búningar

  Helga I. Stefánsdóttir

 • Lýsing
  Halldór Örn Óskarsson
 • Dramatúrg
  Henning Nass
 • Sýningastjórn
  Elín Smáradóttir
 • Málarar
  Anda Skrejane, Anton Hägebarth, Camilla Hägebarth, Christoph Fischer, Julia Krawczynski
 • Sérstakar þakkir

  Henning Nass, Ingibjörg Sigurjónsdóttir, Lilja Gunnarsdóttir, María Huld Markan Sigfúsdóttir

 • Ljósmyndir
  Hörður Sveinsson

Tjald upp. Tjald niður.

Nokkur orð um leikhúsharm og annarlegar spónaplötur


Tjald upp. Tjald niður. Þessir tveir atburðir afmarka Stríð Ragnars Kjartanssonar og Kjartans Sveinssonar. Í upphafi verksins birtist okkur hermaður á heljarslóð vígvallarins að lokinni orrustu. Hann grætur, ákallar Guð, öskrar, ásakar, syrgir fallna félaga sína. Þannig hefst verkið. Þannig lýkur því reyndar líka. Og á milli þessa upphafs og þessa endis gerist reyndar fátt annað en þetta: Maður þjáist.

Við lítum svo á að engum verði það því talið til minnkunar þótt honum renni í brjóst einhverntímann á þessari klukkustund sem líður á milli tjalds-upp og tjalds-niður. Mögulega er það einmitt ætlunin: Að svæfa áhorfendurna, a.m.k. að leyfa þeim að dotta í andartak. Ragnar hefur sagt okkur frá því að þegar hann var ungur kórdrengur, hafi augnlokin eitt sinn farið að síga niður eftir augnkúlunum yfir langdregnu helgihaldi, þá vatt Sigurbjörn Einarsson, þáverandi biskup Íslands, sér að honum og hvíslað í eyra hans: „Ekki óttast að sofna, vinur. Það er gott að dotta í kirkju. Guð talar við okkur þegar við sofum í kirkju.“

Það er ekki skrýtið okkur syfji yfir Stríði, því hér erum við ekki teymd áfram eftir nokkru sem kalla mætti söguþráð. Okkur er aldrei sýnt atriðið þegar óþekkti hermaðurinn kveður kotið sitt, þegar þegar hann tekur konu sína í faðminn í síðasta sinn eða kyssir barnið í vöggunni að skilnaði. Okkur er heldur ekki sýnt atriðið þegar hann kneyfar á knæpunni með vopnabræðrum sínum kvöldið fyrir orrustuna. Og allra síst er okkur sýnt stríðið sjálft. Nei, við fáum bara að sjá hermanninn vafra og veltast einmana um vígvöllinn að orrustunni lokinni. Hér er því svo að segja ekkert plott, hvorki upphaf né endir, einungis afmörkun í tíma.

Á sviðinu er einungis einn leikari. Hvað er einmanalegra en einn leikari á stóru sviði? Aleinn, innan um leikmuni, fastur í limbói á milli áhorfenda og leiktjaldanna. Af áhorfendabekkjunum sjáum við að Stríð er þannig einhverskonar málverk, kannski einhverskonar 21. aldar tilbrigði við þessar sérkennilegu lifandi myndir (tableaux vivants) sem nutu vinsælda fram eftir síðustu öld. Þessar lifandi myndir voru nokkurskonar innsetningar, þrívíðir skúlptúrar þar sem kyrrstæðum leikurum, sviðsmunum og bakgrunni var stillt upp frammi fyrir áhorfendum útfrá strangri tilfinningu fyrir sígildum reglum myndbyggingar í málverkum. Stríð er því einhverskonar myndlist, en um leið einhverskonar leikhús þar sem leikarinn gegnir hlutverki tannhjóls í vél hins myndræna, þar sem leikari verður vart aðgreindur frá leikmununum. 
* * *

Það kemur fyrir okkur á stundum, til að mynda þegar við erum á göngu í fjöru í ljósaskiptunum – þegar nóttin er í svefnrofunum – að við horfum á blautt fjörugrjót, þaraslytti og landöldu. Og þótt þessir þrír hlutir líti vissulega út eins og grjót, þari og alda þá finnst okkur í andartak sem grjótið, þarinn og aldan séu að þykjast; þau séu bara að leika, séu bara að stæla grjót, þara og öldu. Í andartak verður allt annarlegt og okkur rennur kalt vatn milli skins og hörunds.
* * *
Ragnar Kjartansson ólst upp í leikhúsi, ekki á áhorfendabekkjunum, heldur baksviðs. Hann ólst upp við að horfa á hnakka leikara æfa sömu senuna aftur og aftur, eða flytja sömu einræðuna kvöld eftir kvöld. En hann sá líka til þeirra þegar þeir skutust út í sviðsvænginn milli atriða, hann sá þá taka niður hárkollurnar og fá sér sígarettu á meðan þeir biðu þess að vera kallaðir aftur á svið. Okkur grunar að þessi gæti verið ein ástæða þess að Ragnar trúir ekki á það sem í daglegu tali er kallað „galdrar leikhússins“. Þegar Ragnar horfir á Rómeó og Júlíu sér hann ekki ástfangin ungmenni á strætum Verónu heldur nafngreinda leikara á þrítugsaldri, vappandi um í sokkabuxum, með furðuleg höfuðföt á höfðinu, á sviði ákveðins leikhúss, að fara með löngu skrifaðan texta kvöld eftir kvöld, aftur og aftur.

Þetta nafngreinda fólk, þessir leikarar, eru að þykjast. Ragnar laðast í sífellu að þykjustleiknum. List hans leikur í yfirborðinu, þangað sækir hún á furðulegan hátt dýpt sína. Hið fyrsta sem listafólk sem starfar með Ragnari þarf jafnan að læra er að þykjast vera listafólk. Það er fyrsta hlutverkið þeirra. Hilmir Snær er ekki nema að hluta til að leika ímyndaðan prússneskan riddaraliðsmann á ofanverðri átjándu öldinni – aðallega er hann að leika sjálfan sig: leikarann Hilmi Snæ. Þegar Ragnar sér leikara á sviði sér hann hann um leið í sviðsvængnum án hárkollunnar að reykja sígarettu. 

En þrátt fyrir að vera hvorki epískt né dramatískt verk þá Stríð ekki heldur grundvallað á kaldri eða íronískri sýn á tónlist eða leikhús. Tilfinningarnar sem Stríð vekur með okkur eru ekki tilfinningar sem vísa skýrt til reynslu okkar af lífinu heldur frekar og jafnvel einvörðungu til reynslu okkar af leikhúsi. Og þá komumst við ekki hjá því að að spyrja okkur: Eru leikhús-tilfinningar ekki líka tilfinningar?
Búningarnir í sýningunni taka af öll tvímæli um þetta. Þeir eru ekki unnir uppúr sögulegum heimildum um klæðaburð prússneskra soldáta í her Friðriks mikla, heldur eru þeir unnir uppúr fötum úr búningasafni Þjóðleikhússins, nánar tiltekið úr tveimur þekktum leikverkum: Kóperník höfuðsmanni og Þremur systrum. Þessir búningar eru ekki sögulegir, en þeir eru hins vegar algerlega leiksögulegir. Leiktjöldin eru handmáluð á striga. Þau líta út eins og leiktjöld. Það er þeirra fyrsta hlutverk: Að virðast leiktjöld. Spónaplöturnar í sviðsmununum segja sömu sögu: Þær líta út eins og spónaplötur sem málaðar hafa verið til að virðast vera spýtnabrak á vígvelli en það fyrsta sem spónaplatan segir er samt: Ég er leikmunur.  Ástæðan hlýtur að vera sú að eitt getur leikhúsið gert betur en nokkuð annað: Verið leikhús.


Að sama skapi veit Kjartan Sveinsson að það er ómögulegt að semja tónlist eins og Schumann, Mahler, Debussy, Beethoven … Og samt semur hann fyrir Stríð tónlist sem vísar í þá hefð. Þessi tónlist er vissulega eitthvað í líkingu við tónlistina sem samin var þegar hægt var að semja slíka tónlist en hún er líka nauðsynlega eitthvað allt annað. Og þó er þetta ekki skopstæling, til þess er treginn í tónlistinni einfaldlega of áþreifanlegur. Að reyna að líma skýran merkimiða á tónlist Kjartans virðist okkur vera álíka líklegt til árangurs og að reyna veiða draug í net. Listræn afstaða Ragnars og Kjartans er margbrotin en hún er líka að nokkru leyti ólík þeirra í millum. Kannski er sú staðreynd einmitt ein af ástæðunum fyrir því hvers vegna samstarf þeirra Ragnars og Kjartans hefur reynst svo gjöfult. Báðir trúa þeir hins vegar augljóslega á listina – leikhúsið, tónlistina – sem sjálfstæða einingu sem ekki þurfi að sækja tilvistarréttlætingu út fyrir sjálfa sig.

Stríð er leikhús að leika leikhús. En markmiðið virðist ekki vera það að afbyggja leikhúsið, afhjúpa það eða veikja mátt þess, ekki frekar en málverk Ragnars eru afbygging á málverkinu. Afbyggingin er hins vegar auðvitað hluti af þeim grunni sem verkið stendur á: 20. öldin í listasögunni var kannski vondur draumur, en hann er sannarlega ekki draumur sem við getum af-dreymt. 

Leikhúsverk þeirra Ragnars og Kjartans eru hvorki afbygging á leikhúsi né  tónsmíðum. Þeir hins vegar njóta þess að leika sér í brunarústunum sem byltingar tuttugustu aldarinnar skildu eftir á þeim stað þar sem áður stóðu leikhús, hvar leikin voru leikrit eða spilaðar sinfóníur. Þar leika þeir sér, Ragnar og Kjartan, og þvert á væntingar – jafnvel þeirra eigin – þá verður útkoman einhverskonar sinfónía og einhverskonar leikhús. Í þeim skilningi er Stríð þess vegna kannski furðulega einlægur óður til leikhússins og tónlistarinnar. Nákvæmlega hverskonar leikhúss og hverskonar tónlistar, það er hins vegar snúnari spurning því Stríð virðist okkur vera íronískt og einlægt í sömu svipan. Stríð, eins og önnur sviðsverk þeirra Ragnars og Kjartans, býr yfir glefsum af pathos en samt er það frekar pathétique – á sama hátt og píanósónata eftir Beethoven – bæði stórkostlega og hlægilega tilfinningaþrungið.

Í Stríði vitum við aldrei fyllilega hvar við höfum nokkurn skapaðan hlut – enda kannski ekki nema von – þar sem við við erum ekki alveg viss um hvort við erum vakandi eða sofandi.


Tónlistin dáleiðir mann. Endurtekningin er svæfandi. Augnlokin líða eins og tjaldið upp og niður frammi fyrir augunum. En samt er aldrei að vita nema einhverntímann í öllum þessum öskrum og grenji – allri þessari þjáningu Hilmis Snæs – öllum þessum fiðlustrokum og pákuslætti, ekki að Hilmir umbreytist í hugum okkar í raunverulegan óþekktan hermann, ekki að við föllum í þá gryfju að að fara að rugla spýtnadraslinu eða tvívíðum leiktjöldunum við einhvern veruleika úti í heiminum, hvað þá að við finnum þarna einhvern samhljóm við eitthvað skýrt í sál okkar –  heldur miklu frekar, að einmitt vegna þess að þetta er augljóslega Hilmir, og einmitt vegna þess að leikmyndin er bersýnilega gerð úr spónaplötum og striga – einmitt þess vegna skapist aðstæður til þess að hún vakni þessi einstaka tilfinning, þessi sérstaka tegund fegurðar sem aldrei hefur verið til annarsstaðar en í leikhúsinu: Leikhúsharmurinn, leikhúsþjáningin. Þessi tilfinning sem er einmitt er svo mikils virði í leikhúsinu, því hana finnum við hvergi annarsstaðar í lífi okkar – einungis í leikhúsinu. Síðan er það auðvitað sérstaklega heppilegt að þessi tilfinning, þessi leikhúsharmur – þessi leikhúsþjáning – er einmitt bæði skýrust og sætust einmitt þarna þar sem við dveljum þegar við erum á milli svefns og vöku.

Við leyfum okkur í stundarkorn að njóta þessarar þjáningar sem hér er framreidd fyrir okkur, fljótandi og hverfult ástand er djúpfryst og rannsakað, eitt andartak strekkt yfir heila klukkustund: Eimuð sinfónía, eimað leikhús.

Ráðleggingar Sigurbjarnar Einarssonar hljóma fyrir eyrum okkar. Við minnum okkur á að leikhús og önnur listhús eru það næsta sem við komumst því að finna kirkju í samtímanum. Þess vegna skulum við bara láta það eftir okkur að dotta. Ef lukkan er með okkur í liði getum við vonað að við náum að strekkja enn á bilinu milli svefns og vöku. Og þá gæti það gerst að þeirri tilfinningu ljósti niður í okkur óforvarandis (einmitt þegar við erum hætt að bíða eftir því) að þessi spónaplata, þessi strigi og þessi leikari – rétt eins og fjörugrjótið, þarinn og aldan – séu bara að þykjast. Þau séu bara að þykjast vera það sem þau eru, þykjast vera þau sjálf. Þá verður allt annarlegt í andartak. En góðu heilli, áður en við náum að feta okkur of langt inn eftir þessari tilfinningu kemur tjaldið okkur til bjargar. Það byrjar að síga niður, auglokin þokast upp og við erum kölluð aftur til sjálfra okkar.

Ragnar Helgi Ólafsson

Leikarar

 • LeikariHilmir Snær Guðnason
 • AukaleikararAdolf Smári Unnarsson, Tómas Helgi Baldursson, Aron Martin de Azevedo og Guðjón Bergmann Ágústsson


Sinfóníuhljómsveit Íslands • 1. fiðla

  Sigrún Eðvaldsdóttir, 1. konsertmeistari
  Vera Panitch
  Zbigniew Dubik 
  Rósa Hrund Guðmundsdóttir 
  Bryndís Pálsdóttir
  Andrzej Kleina
  Geirþrúður Ása Guðjónsdóttir
  Pascal La Rosa
  Júlíana Elín Kjartansdóttir 
  Hildigunnur Halldórsdóttir
  Pálína Árnadóttir
  Olga Björk Ólafsdóttir

 • 2. fiðla

  Joaquín Páll Palomares 
  Roland Hartwell
  Ingrid Karlsdóttir
  Margrét Þorsteinsdóttir
  Hlín Erlendsdóttir
  Sigurlaug Eðvaldsdóttir
  Christian Diethard
  Gunnhildur Daðadóttir 
  Dóra Björgvinsdóttir
  Gróa Margrét Valdimarsdóttir

 • Víóla

  Þórarinn Már Baldursson
  Sarah Buckley
  Móeiður Anna Sigurðardóttir
  Herdís Anna Jónsdóttir
  Ásdís Hildur Runólfsdóttir
  Guðrún Hrund Harðardóttir 
  Eyjólfur Bjarni Alfreðsson 

 • Selló

  Sigurgeir Agnarsson
  Hrafnkell Orri Egilsson
  Margrét Árnadóttir
  Bryndís Halla Gylfadóttir 
  Ólöf Sigursveinsdóttir

 • Bassi

  Páll Hannesson
  Gunnlaugur Torfi Stefánsson
  Jóhannes Georgsson
  Þórir Jóhannsson

 • Flauta

  Áshildur Haraldsdóttir
  Martial Nardeau

 • Óbó

  Julia Hantschel 
  Peter Tompkins

 • Klarinett

  Arngunnur Árnadóttir
  Baldvin Tryggvason

 • Fagott

  Michael Kaulartz
  Brjánn Ingason

 • Horn
  Stefán Jón Bernharðsson
  Emil Friðfinnson
 • Trompet
  Eiríkur Örn Pálsson
  Guðmundur Hafsteinsson
 • Básúna
  Sigurður Þorbergsson
  David Bobroff
 • Túba
  Nimrod Ron
 • Pákur
  Soraya Nayyar
 • Slagverk

  Steef van Oosterhout
  Frank Aarnink
  Eggert Pálsson