Leikskrár

Leikskrá - Samþykki

"Heillandi. Alvöruverk unnið af alvöru." TMM, Silja Aðalsteinsdóttir

Leikarar

Listrænir aðstandendur

 • Höfundur
  Nina Raine
 • Leikstjórn
 • Leikmynd

  Stígur Steinþórsson 

 • Búningar

  Þórunn María Jónsdóttir 

 • Lýsing

  Halldór Örn Óskarsson 

 • Tónlist

  Úlfur Eldjárn 

 • Hljóðmynd

  Elvar Geir Sævarsson 

 • Þýðing

  Þórarinn Eldjárn 

 • Sýningastjórn

  Kristín Hauksdóttir 

 • Aðstoðarmaður leikstjóra

  Hallveig Kristín Eiríksdóttir 

 • Textaaðstoð
  Tryggvi Freyr Torfason
 • Leikgervadeild, förðun og hárkollugerð

  Valdís Karen Smáradóttir (yfirumsjón sýningar), Silfá Auðunsdóttir, Ingibjörg G. Huldarsdóttir

 • Leikgervadeild

  Hárgreiðsla: Guðrún Erla Sigurbjarnadóttir (yfirumsjón sýningar), Þóra Guðbjörg Benediktsdóttir 

 • Búningadeild
  Berglind Einarsdóttir (deildarstjóri og yfirumsjón sýningar), Ásdís Guðný Guðmundsdóttir, Hjördís Sigurbjörnsdóttir, Leila Arge, Ingveldur E. Breiðfjörð (búningaumsjón)
 • Leikmunadeild

  Trygve J. Eliassen (yfirumsjón sýningar)

 • Stóra sviðið, yfirumsjón

  Rebecca Scott Lord

 • Sviðsmenn

  Rebecca Scott Lord, Siobhán Antoinette Henry, Arnar Geir Gústafsson, María Arnardóttir, Margrét Agnes Iversen, Anna Margrét Ólafsdóttir

 • Leikmyndarsmíði

  Smíðaverkstæði Þjóðleikhússins

 • Leikmyndarmálun

  Sviðsmenn

 • Framleiðslustjórn

  Hákon Örn Hákonarson

 • Ljósmyndir
  Hörður Sveinsson
 • Viðtal við Kristínu Jóhannesdóttur
  Snædís Snorradóttir
 • Leikskrártextar
  Melkorka Tekla Ólafsdóttir
 • Heiti verks á frummáli
  Consent
 • Sýningarréttur

  Nordiska Aps - Copenhagen

 • Frumsýning
  Stóra sviðið, 26. október 2018

Um höfundinn

Nina Raine er eitt þekktasta leikskáld Breta af yngri kynslóðinni, en hún starfar einnig sem leikstjóri. Samþykki er hennar fjórða leikrit. Verkið var frumflutt í Breska þjóðleikhúsinu í apríl árið 2017 og flutt yfir á West End í kjölfar mikilla vinsælda. Áður hafði Raine skrifað leikritin Rabbit, Tribes og Tiger Country, en nýjasta leikrit hennar Stories var frumflutt í Breska þjóðleikhúsinu nú í október.

Nina-Raine-photo-credit-Jack-Ladenburg-use-free-of-charge-

Fjölskylda Ninu Raine er mikið bókmenntafólk, en foreldrar hennar eru Craig Raine, ljóðskáld og gagnrýnandi, og Ann Pasternak Slater, bókmennafræðingur, þýðandi og fyrrum háskólakennari í Oxford. Ann er systurdóttir rússneska rithöfundarins Boris Pasternak.

Nina Raine stundaði nám í enskum bókmenntum við Christ Church háskólann í Oxford og útskrifaðist þaðan með láði árið 1998. Hún hlaut styrk til starfsnáms í leikstjórn við Royal Court leikhúsið í London, en það leikhús er heimsþekkt fyrir að hlúa að samtímaleikritun. Í Royal Court var Raine aðstoðarleikstjóri í nokkrum sýningum, meðal annars My Zinc Bed í leikstjórn Davids Hare, Far Away í leikstjórn Stephens Daldry, Mouth to Mouth í leikstjórn Ians Rickson, Presence í leikstjórn James Kerr og Fucking Games í leikstjórn Dominics Cooke.

Fyrsta leikrit Raine, Rabbit, fjallar um unga, einhleypa konu, sem þrátt fyrir velgengni er ósátt við sjálfa sig og þjökuð af þeim væntingum sem gerðar eru til hennar. Leikritið gerist á 29 ára afmælisdegi aðalpersónunnar, en nokkrir vinir og fyrrverandi elskhugar hennar hafa komið saman á bar í tilefni afmælisins. Létt spjall um vinnu, ástarsambönd og kynlíf snýst upp í heiftúðug átök kynjanna. Raine bauð nokkrum af stærri leikhúsunum í London verkið til sýninga, en hafði ekki erindi sem erfiði og ákvað að setja það sjálf upp í litlu Off West End leikhúsi í London, Old Red Lion, árið 2006. Hispurslaus umfjöllun höfundarins um ungt fólk í samtímanum og kynjabaráttu vakti mikla athygli og sýningin var flutt yfir í Trafalgar Studios á West End sama ár. Raine hlaut Evening Standard verðlaunin og Critic's Circle verðlaunin sem efnilegasta leikskáld ársins fyrir verkið. Það var í kjölfarið sýnt á Brits Off Broadway Festival í New York og víðar.

Annað leikrit Raine, Tribes, var frumflutt í Royal Court leikhúsinu árið 2010, í leikstjórn Rogers Michell. Verkið er fjölskyldudrama um takmarkanir mannlegra samskipta og þörf manneskjunnar fyrir að tilheyra hópi. Aðalpersóna verksins er heyrnarlaus, ungur maður sem elst upp í fjölskyldu þar sem gerð er afdráttarlaus krafa um samheldni og ást, um leið og fjölskyldumeðlimir leyfa sér árásargirni, yfirgang og drottnunargirni í samskiptum hver við annan. Foreldrar heyrnarlausa piltsins tóku í upphafi þá ákvörðun að láta hann ekki læra táknmál heldur varalestur, og sáu fyrir sér að þannig myndi hann best læra að bjarga sér í samfélagi hinna heyrandi. Þegar pilturinn verður ástfanginn af ungri stúlku sem talar táknmál og er virkur þátttakandi í samfélagi heyrnarlausra, fær hann nýja sýn á líf sitt og fjölskyldu sína. Raine er í þessu verki að fást við hugmyndir um fjölskylduna sem „ættbálk“, með sínar eigin reglur og gildi. Verkið vakti mikla athygli þegar það var frumsýnt í Bretlandi, en naut enn meiri vinsælda þegar það var sýnt vestan hafs, í New York og Los Angeles. Raine hlaut Drama Desk verðlaunin og New York Drama Critics' Circle verðlaunin fyrir leikritið, og var tilnefnd til Olivier verðlaunanna. 

Leikrit Raine Tiger Country var frumflutt hjá Hampstead Theatre árið 2011 í leikstjórn höfundar. Verkið gerist á sjúkrahúsi í London og fjallar um krefjandi aðstæður sem nokkrir læknar og hjúkrunarfræðingar á spítalanum lenda í. Höfundurinn beinir sjónum að siðferðilegum álitamálum sem heilbrigðisstarfsfólk getur staðið frammi fyrir, togstreitunni á milli vinnu og einkalífs, tilfinninga og faglegra vinnubragða.

Samþykki, eða Consent á frummálinu, var frumflutt í Breska þjóðleikhúsinu í apríl árið 2017, í samstarfi við Out of Joint, í leikstjórn Rogers Michell. Þetta kraftmikla verk um samskipti kynjanna, vináttu, ástarsambönd, kynferðisofbeldi, traust og svik hlaut afar góðar viðtökur. Í kjölfar mikilla vinsælda sýningarinnar var hún flutt yfir í Harold Pinter Theatre á West End í maí á þessu ári.

Nýjasta verk Raine er Stories, sem frumflutt var í Breska þjóðleikhúsinu nú í október í leikstjórn höfundar. Aðalpersóna verksins er 39 ára gömul, einhleyp kona, sem er staðráðin í að eignast sitt fyrsta barn. Verkið lýsir oft og tíðum grátbroslegum tilraunum hennar til að láta draum sinn um að eignast fjölskyldu rætast, en í stað þess að notast við gjafasæði ókunnugs aðila ákveður hún að rannsaka hvort einhverjir af vinum hennar og kunningjum gætu reynst góðir og viljugir sæðisgjafar. Um leið skoðar höfundur fyrirbærið sögur, meðal annars út frá þeirri hugmynd að í raun séu aðeins til sjö gerðir af sögum, sem allar sögur séu tilbrigði við.

Meðal verka sem Raine hefur leikstýrt, auk eigin leikrita, eru samvinnuverkefnið Unprotected hjá Liverpool Everyman leikhúsinu árið 2006, en fyrir sýninguna hlaut hún TMA verðlaunin fyrir leikstjórn, Behind the Image eftir Alia Bano hjá Royal Court árið 2008 og Shades eftir Alia Bano hjá Royal Court leikhúsinu árið 2009, sem hún hlaut Critic‘s Circle og Evening Standard verðlaunin fyrir í flokki efnilegustu nýliða. Hún leikstýrði Jumpy eftir April De Angelis hjá Royal Court árið 2011, og í kjölfarið hjá Duke of York‘s Theatre á West End. Hún leikstýrði einnig Longing, leikgerð byggðri á smásögum eftir Tsjekhov, hjá Hampstead Theatre árið 2013.

MTÓ

_DSC2654

Nina Raine skrifar um Samþykki

 

Fyrsta leikritið mitt, Rabbit, fjallaði um ungt, menntað fólk í atvinnulífinu. Í Samþykki langaði mig mikið að beina sjónum að því hvernig slíku fólki reiddi af, þegar farið væri að trosna upp úr hjónaböndunum, og ung börn væru orðin hluti af lífi þess. Eða þá að viðkomandi manneskjur væru barnlausar og þráðu að eignast börn. Ég hafði á tilfinningunni að það væri eitthvað varðandi börn sem gæti kveikt mjög ofsafulla hefnigirni í fólki, eins og í grískum harmleikjum. Mér fannst áhugavert að skoða þetta í samhengi við heim lögfræðinnar. Ég sá fyrir mér að skrifa verk um fólk í góðum störfum sem líktist persónunum í Rabbit, en væri aðeins eldra, og að sumar persónurnar væru málafærslumenn. Ég hrífst alltaf af því þegar maður getur tekið lítið brot af lífinu og stækkað það svo það verði að heilu leikatriði – þannig að jafnvel eitt hvasst tilsvar sem maður heyrir falla á milli hjóna í kvöldverðarboði geti orðið kveikjan að heilu atriði í leikriti. Hugmyndin að þessu leikriti spratt af slíku, en einnig að vissu marki af dómsmáli sem ég öðlaðist kynni af og opnaði fyrir mér ákveðnar dyr.

Eftir Weinstein-málið, á tímum #MeToo og I Believe Her, hefur þetta leikrit vissulega öðlast nýja skírskotun. Ég ætla mér ekki að halda því fram að það sé beinlínis skrifað í anda baráttunnar, og er raunar ánægð með það, vegna þess að ég tel ekki að leikrit eigi að vera í einhverju klappstýru-hlutverki. Ég lít svo á að leikrit eigi að beina sjónum fólks að tilteknu umfjöllunarefni, en ekki reyna að svara öllum spurningum og hnýta alla lausa enda.

Leikritið Samþykki tengist #MeToo með þeim hætti að ein persónan í verkinu er þolandi nauðgunar, fær ekki sanngjarna málsmeðferð og er úthýst af réttarkerfinu. Réttlætið nær ekki fram að ganga. Þegar ég réðst í ákveðna rannsóknarvinnu fyrir ritun verksins vakti það mér mikla furðu og beinlínis gekk fram af mér að átta mig á því að í nauðgunarmálum [í Bretlandi, innskot þýð.] er þolandanum ekki úthlutað lögfræðingi. Sækjandi flytur málið gegn nauðgaranum, en ver ekki þolandann – þannig að enginn hefur í raun og veru það hlutverk að vera málsvari þolandans og gæta hagsmuna hans. Ef þolandinn er heppinn gæti sækjandi tekið sönnunargögnin til sérstakrar skoðunar með það fyrir augum að láta þolandann líta aðeins betur út, ef það hentar málflutningi viðkomandi. Skorturinn á formlegri vörn fyrir þolandann vakti mér mikla undrun.

Ég held að ég hafi aldrei skrifað leikrit sem er í jafn beinum tengslum við það sem er að gerast í samtímanum. Ég gæti ekki hugsað mér að skrifa „Brexit-leikrit“; verk þar sem ég brygðist samstundis við samfélagshræringum. Það tekur mig svo langan tíma að skrifa leikrit. Oftast verð ég gagntekin af einhverri hugmynd og leyfi henni svo að þróast innra með mér árum saman, sem þýðir að ég get engan veginn brugðist við viðburðum í samfélaginu jafnóðum og þeir eiga sér stað, en í þessu tilviki var tímasetningin hárrétt. Það er eins og ég hafi geymt vín í vínkjallaranum og tekið tappann úr flöskunni nákvæmlega á því augnabliki sem vínið var fullþroskað.

Greinin birtist á vef Breska þjóðleikhússins


Viðtal við leikstjóra

Kristín Jóhannesdóttir segir frá Samþykki

Umfjöllun

Samþykki er feikilega vel skrifað leikrit og prýðilega þýtt og efnið gæti ekki átt betur við en akkúrat þessi misserin. Þó að umfjöllunarefnið sé háalvarlegt er tónninn hvass og meinfyndinn.

tmm.forlagid.is, Silja Aðalsteinsdóttir

Heillandi. Alvöruverk unnið af alvöru.

tmm.forlagid.is, Silja Aðalsteinsdóttir

Leikurinn var vandaður og innlifaður, einkum var ég hrifin af Snorra í hlutverki Eds; það reyndi mest á hann og hann var í senn einlægur og írónískur eins og hlutverkið krafðist.

tmm.forlagid.is, Silja Aðalsteinsdóttir

Kristín Jóhannesdóttir er leikstjóri þessarar sýningar og það er ekki ofsögum sagt að hún er galdrakona á leiksviði. Hún hugsar myndrænt eins og fyrri daginn við sviðsetningu textans

RÚV, Menningin, Hlín Agnarsdóttir

[Kristín Þóra og Arndís Hrönn] verða báðar eftirminnilegar á sinn hátt … Stefán Hallur átti stórgóðan leik og studdist við frábært gervi, kom á óvart og er ein af eftirminnilegustu persónum leiksins. Leikur Snorra var ógleymanlegur … Og ekki má gleyma Hallgrími Ólafssyni í hlutverki vinarins – hann svíkur sjaldan þegar kómíkin er annars vegar.

RÚV, Menningin, Hlín Agnarsdóttir

Stefán Hallur Stefánsson sem leikur Tim, hinn klaufalega piparsvein hefur þá stærð og fas að vel smíðuð persóna hans alveg út í smæstu hreyfingar, studd vel af gervi og búningi Þórunnar Maríu, nær fram, vekur áhuga, frá byrjun til loka.

RÚV, Víðsjá, María Kristjánsdóttir

hér er úr miklu að moða fyrir hugann um samtímann

RÚV, Víðsjá, María Kristjánsdóttir

Kristín Jóhannesdóttir er einstaklega fær leikstjóri með skýra sjónræna sýn á leikverkin sem hún tekur sér fyrir hendur að setja upp. Hér sigar hún karakterum hverjum á annan, líkt og einvígi upp á líf og dauða sé að fara fram, þetta er gjöf sem leikararnir nýta sér vel.

Fréttablaðið, Sigríður Jónsdóttir

Kristín Þóra fer lipurlega með mótsagnakenndan karakter sinn og dregur upp skýra mynd af tilfinningalegu niðurbroti Kittyar ... Snorri hefur sjaldan verið betri … Hallgrímur er hér í essinu sínu … Stefán Hallur sýnir mjög agaðan og góðan leik

Fréttablaðið, Sigríður Jónsdóttir

Stígur Steinþórsson fremur listrænan galdur með ótrúlega áhrifamikilli og vel heppnaðri sviðsmynd.

Fréttablaðið, Sigríður Jónsdóttir