Leikskrár

Leikskrá - Reikult er rótlaust þangið

Dagskrá

„Reikult er rótlaust þangið“

Hátíðarkvöld til heiðurs Jóhanni Sigurjónssyni

Velkomandaminni

Vigdís Finnbogadóttir

„Vei, vei, yfir hinni föllnu borg!“ Dramatíkin í ljóðum Jóhanns Sigurjónssonar

Dr. Sveinn Yngvi Egilsson prófessor

Ljóð eftir Jóhann Sigurjónsson

Anna Kristín Arngrímsdóttir og Kristján Franklín Magnús lesa

Vögguvísa Höllu úr Fjalla-Eyvindi

Jóhanna Vigdís Arnardóttir syngur

Leiklestur úr Fjalla-Eyvindi

Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir og Hilmir Snær Guðnason

Hlé

„Væri ég aðeins einn af þessum fáu“. Um leikskáldið Jóhann Sigurjónsson

Dr. Sveinn Einarsson

Lög við ljóð Jóhanns Sigurjónssonar

Heimþrá eftir Karl O. Runólfsson

Ég sótti upp til fjallanna eftir Karl O. Runólfsson

Bikarinn eftir Markús Kristjánsson

Eyjólfur Eyjólfsson tenór

Bjarni Frímann Bjarnason, píanó

Leiklestur úr Merði Valgarðssyni

Arnar Jónsson og Lára Jóhanna Jónsdóttir

Hátíðarkvöld á Stóra sviði Þjóðleikhússins 14. október 2019. Þjóðleikhúsið og Vonarstrætisleikhúsið standa að samkomunni. Að undirbúningnum unnu Þórunn Magnea Magnúsdóttir og Sveinn Einarsson. Umsjón með leiklestrum hefur Árni Kristjánsson.

Jóhann Sigurjónsson

Jóhann Sigurjónsson (1880-1919) var fyrsta íslenska skáldið á eftir höfundum fornbókmenntanna sem vakti verulega athygli utan landsteinanna. Leikritið Fjalla-Eyvindur gerði hann frægan en frumsýning þess í Kaupmannahöfn árið 1912 var stórsigur og í kjölfarið var verkið þýtt á mörg tungumál og sýnt víða um heim. Þekktustu leikrit Jóhanns, Fjalla-Eyvindur og Galdra-Loftur, hafa oft verið sviðsett í íslensku leikhúsi, en ljóð hans hafa einnig lifað með þjóðinni.

Johann-Sigurjonsson_1570544804174

Jóhann fæddist og ólst upp á stórbýlinu Laxamýri í Suður-Þingeyjarsýslu. Að loknu fjórðabekkjarprófi frá Lærða skólanum í Reykjavík hóf hann nám í dýralækningum í Kaupmannahöfn haustið 1899. Hann hvarf frá námi haustið 1902 og helgaði sig skáldskapnum upp frá því.

Jóhann hóf rithöfundarferil sinn á því að birta ljóð í blöðum og tímaritum, en hann sendi aldrei frá sér ljóðabók. Ljóð hans komu út í heildarsafni verka hans eftir hans dag, en meðal þeirra eru ýmis ástsæl kvæði eins og Sorg, Bikarinn, Heimþrá, Jónas Hallgrímsson og vögguvísa Höllu úr Fjalla-Eyvindi, Sofðu, unga ástin mín.

Jóhann skrifaði leikrit og orti ljóð bæði á dönsku og íslensku. Á undan Fjalla-Eyvindi hafði hann samið nokkur leikrit og elsta varðveitta leikrit hans er Skugginn eða Skyggen sem hann skrifaði að líkindum 1902-1903, en það kom hvorki út né var sviðsett meðan hann lifði. Leikritið Rung læknir eða Dr. Rung kom út á dönsku hjá Gyldendals Forlag í Kaupmannahöfn árið 1905, og var því nokkuð vel tekið. Fyrsta leikrit Jóhanns sem sett var á svið var Bóndinn á Hrauni sem kom út á íslensku árið 1908 og var leikið hjá Leikfélagi Reykjavíkur við góðar undirtektir. Verkið kom út í nýrri gerð á dönsku árið 1912 undir heitinu Gaarden Hraun og var leikið í Konunglega leikhúsinu í Kaupmannahöfn árið 1913 en hlaut ekki góðar viðtökur.

Leikritið Fjalla-Eyvindur er byggt á frásögnum af útilegumanninum Fjalla-Eyvindi og Höllu konu hans sem voru uppi á átjándu öld, en úr þeim efniviði semur höfundurinn sjálfstætt skáldverk. Verkið kom út á bók á dönsku haustið 1911 undir heitinu Bjærg-Ejvind og hans hustru og fékk strax mjög góðar viðtökur. Meðal annars skrifaði hinn þekkti bókmenntamaður Georg Brandes lofsamlegan ritdóm um verkið. Leikfélag Reykjavíkur frumsýndi leikritið á jólum árið 1911. Sýningin öðlaðist miklar vinsældir og var oft á fjölunum á næstu árum. Vorið 1912 hófust svo sýningar á verkinu í Dagmar-leikhúsinu í Kaupmannahöfn með hinni frægu norsku leikkonu Johanne Dybvad í hlutverki Höllu. Verkið var á næstu árum sýnt víða á Norðurlöndum, í ýmsum borgum í Þýskalandi, sem og í Bretlandi, Bandaríkjunum, Hollandi, Eistlandi og víðar. Leikritið var einnig gefið út á bók á nokkrum erlendum tungumálum. Sænski leikhúsmaðurinn Victor Sjöström gerði fræga þögla kvikmynd byggða á leikritinu árið 1917.

Galdra-Loftur var frumsýndur hjá Leikfélagi Reykjavíkur jólin 1914 og var afar vel tekið. Frumsýning verksins, undir heitinu Ønsket, í Dagmar-leikhúsinu í janúar 1915 hlaut hinsvegar dræmar viðtökur. Síðasta leikrit Jóhanns, Mörður Valgarðsson eða Løgneren, var sýnt í Konunglega leikhúsinu í Kaupmannahöfn árið 1918 en vakti ekki mikla hrifningu. Verkið var ekki sýnt á Íslandi fyrr en árið 1970, í þýðingu Sigurðar Guðmundssonar.

Jóhann kvæntist árið 1912 danskri konu, Ingeborg Thidemann (1870-1934). Þau eignuðust ekki börn en Jóhann hafði eignast dótturina Grímu árið 1906. Hún mun hafa verið Jóhanni afar kær, og dvaldi hún stundum hjá honum, en ólst að mestu upp hjá fósturforeldrum í Danmörku. Hún eignaðist ekki afkomendur.

Jóhann hafði mikinn áhuga á uppfinningum og varði talsverðum tíma og orku í að reyna fyrir sér sem uppfinningamaður, þótt ekki skilaði sú vinna honum þeim tekjum sem hann vonaðist eftir. Hann fékk einkaleyfi á sérstökum klemmum fyrir kvenhatta árin 1910 og 1911, og einkaleyfi á ryklokum á ölkrúsir árið 1917.

Jóhann lést í Kaupmannahöfn í sumarlok árið 1919, eftir alvarleg veikindi, og fylgdi fjöldi manns honum til grafar, bæði Íslendingar, dönsk skáld og virðingarfólk úr dönsku bókmennta- og leikhúslífi. Fjalla-Eyvindur var hátíðarsýning á 50 ára afmæli Dagmar-leikhússins í Kaupmannahöfn árið 1933, en leikrit Jóhanns hafa aðallega verið flutt á íslensku leiksviði eftir hans dag.

Helge Toldberg skrifaði bók um líf og list Jóhanns Sigurjónssonar en hún kom út í íslenskri þýðingu árið 1966. Árið 2004 kom út bók Jóns Viðars Jónssonar, Kaktusblómið og nóttin - Um ævi og skáldskap Jóhanns Sigurjónssonar. Árið 2000 kom hin danska lokagerð Fjalla-Eyvindar í fyrsta sinn út á íslensku í fræðilegri útgáfu sem Jón Viðar Jónsson hafði umsjón með. Heildarsafn verka Jóhanns Sigurjónssonar kom út á árunum 1940 og 1942, og var endurútgefið með breytingum árið 1980. 

MTÓ

Fjalla-Eyvindur á sviði

Fjalla-Eyvindur á sviði íslenskra atvinnuleikhúsa

Þjóðleikhúsið, 2015

(Fjalla-Eyvindur og Halla)

Leikstjórn og leikgerð: Stefan Metz

Halla: Nína Dögg Filippusdóttir

Kári: Stefán Hallur Stefánsson

_C9Q3757_fix

Aldrei óstelandi í Norðurpólnum, 2011

Leikstjórn: Marta Nordal

Halla: Edda Björg Eyjólfsdóttir

Kári: Guðmundur Ingi Þorvaldsson


Þjóðleikhúsið, 1988

Leikstjórn: Bríet Héðinsdóttir

Halla: Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir

Kári: Þórarinn Eyfjörð


Leikfélag Akureyrar, 1973

Leikstjórn: Magnús Jónsson

Halla: Sigurveig Jónsdóttir

Kári: Þráinn Karlsson


Leikfélag Reykjavíkur, 1967

Leikstjórn: Gísli Halldórsson

Halla: Helga Bachmann

Kári: Helgi Skúlason


Þjóðleikhúsið, 1950

Ein þriggja vígslusýninga Þjóðleikhússins

Leikstjórn: Haraldur Björnsson

Halla: Inga Þórðardóttir

Kári: Róbert Arnfinnsson


Leikfélag Akureyrar, 1943

Leikstjórn: Jón Norðfjörð

Halla: Ingibjörg Steinsdóttir

Kári: Jón Norðfjörð


Leikfélag Reykjavíkur, 1940

Leikstjórn: Haraldur Björnsson

Halla: Soffía Guðlaugsdóttir

Kári: Gestur Pálsson


Hátíðarsýning í Reykjavík, 1930

Sýning í tengslum við Alþingishátíðina og hálfrar aldar afmæli skáldsins

Leikstjórn: Haraldur Björnsson

Halla: Anna Borg

Kári: Ágúst Kvaran/Gestur Pálsson


Leikfélag Akureyrar, 1922

Leikstjórn: Haraldur Björnsson

Halla: Guðrún Indriðadóttir

Kári: Gísli R. Magnússon


Leikfélag Reykjavíkur, 1911

Leikstjórn: Jens B. Waage

Halla: Guðrún Indriðadóttir

Kári: Helgi Helgason