Leikskrár

Leikskrá - Efi dæmisaga

Leikritið gerist í kaþólskri kirkju, Kirkju heilags Nikulásar, og skóla sem hún starfrækir í Bronx í New York, árið 1964.

Persónur og leikendur

Listrænir aðstandendur

 

 

 • Leikstjórn:
  Stefán Baldursson
 • Leikmynd og búningar:
  Þórunn Sigríður Þorgrímsdóttir
 • Lýsing:
  Ólafur Ágúst Stefánsson og Jóhann Friðrik Ágústsson
 • Tónlist:
  Veigar Margeirsson
 • Hljóðmynd:
  Elvar Geir Sævarsson
 • Þýðing:
  Kristján Þórður Hrafnsson
 • Sýningaumsjón og sýningastjórn:
  Guðmundur Erlingsson
 • Tæknistjórn:
  Áslákur Ingvarsson
 • Hvíslari:
  Valgerður Þorsteinsdóttir
 • Hárgreiðsla, yfirumsjón:
  Guðrún Erla Sigurbjarnadóttir
 • Förðun, yfirumsjón:
  Ingibjörg G. Huldarsdóttir
 • Búningar, yfirumsjón:
  Ásdís Guðný Guðmundsdóttir. Búningadeild: Berglind Einarsdóttir (deildarstjóri), Ásdís Guðný Guðmundsdóttir (yfirumsjón sýningar), Hjördís Sigurbjörnsdóttir, Leila Arge, Ingveldur E. Breiðfjörð (búningaumsjón)
 • Leikmunir, yfirumsjón:
  Högni Sigurþórsson
 • Leikmyndarsmíði:
  Smíðaverkstæði Þjóðleikhússins
 • Myndvörpun:
  Skissur ÞSÞ eftir helgimyndum gamalla meistara
 • Myndvinnsla:
  Ingibjörg Jara Sigurðardóttir 
 • Hljóðfæraleikur:
  Strengjakvartettinn Siggi, Una Sveinbjarnardóttir (fiðla), Ingrid Karlsdóttir (fiðla), Þórunn Ósk Marinósdóttir (víóla), Sigurður Bjarki Gunnarsson (selló)
 • Um tónlistina:
  Veigar Margeirsson (stjórn upptöku, útsetningar, píanó, orgel, hljómborð), Kristinn Sigurpáll Sturluson (upptökumaður), Sveinn Kjartansson (Hljóðblöndun), Lorenzo Carrano (nótnavinnsla)
 • Ljósmyndir:
  Hörður Sveinsson
 • Sýningarréttur:
  Nordiska ApS
 • Viðtöl við leikara og listræna aðstandendur:
  Melkorka Tekla Ólafsdóttir, Atli Þór Albertsson, Sváfnir Sigurðarson. Myndvinnsla: Gunnar Örn (Falcor)

 

Formáli höfundar

Hvað býr undir yfirborðinu í leikriti? Hvað ber það uppi? Það má alveg eins spyrja hvað býr undir yfirborði mínu? Hver er grunnur minn í lífinu? Það býr eitthvað þögult undir yfirborðinu í lífi hverrar einustu manneskju og í hverju einasta leikriti. Það býr líka eitthvað ósagt undir yfirborðinu í hverju einasta samfélagi.

Hugsunarhátturinn í Bandaríkjunum ber mjög skýr einkenni um þessar mundir. Þau blasa við í umræðuþáttum um stjórnmál, í umfjöllun um skemmtanaiðnaðinn, í hvers kyns listgagnrýni, í skoðanaskiptum um trúmál. Samfélagi okkar er farið að svipa til réttarsalar. Hér áður fyrr var frægðin aðalatriðið en það er liðin tíð. Nú höfum við bara áhuga á frægu fólki ef það er komið í réttarsal. Menning okkar einkennist af öfgakenndum málflutningi, átökum, dómum og úrskurðum. Skoðanaskipti hafa vikið fyrir kappræðu. Samskipti eru orðin keppni um að hafa betur. Samfélagsumræðan er orðin ógeðfelld og hræsnisfull. Hvers vegna? Kannski er ástæðan sú að djúpt undir yfirborði alls blaðursins er farin að blasa við okkur sú vitneskja að við vitum... ekki neitt. En þetta er enginn reiðubúinn að viðurkenna.

Mig langar að spyrja þig hreint út. Hefur þú einhvern tímann haldið til streitu tiltekinni afstöðu í rökræðum þótt þér hafi verið farið að þykja það óþægilegt? Hefur þú einhvern tímann haldið uppi vörnum fyrir ákveðna lífshætti sem gáfu þér sjálfum varla nokkuð lengur? Hefurðu einhvern tímann breytt í samræmi við trúarbrögð sem þú varst farinn að efast um? Hefurðu einhvern tímann sagt stúlku að þú elskaðir hana og fundið fyrir votti af ógleði af því að þú varst ekki lengur sannfærður um það sem þú varst að segja? Allt þetta hef ég reynt. Slík augnablik eru áhugaverð. Á slíkum augnablikum kvikna hugmyndir hjá leikskáldum. Mér fannst ég hafa fundið ákveðinn grunn til að byggja leikrit á, leikrit sem styddist við nokkuð sem ætti sér þögula tilvist í lífi mínu og samtíma mínum. Ég byrjaði á því að ákveða titilinn: Efi.

Hvað er Efi? Hvert og eitt okkar er eins og reikistjarna. Á yfirborðinu er skorpa sem virðist óbreytanleg. Við erum viss um það hver við erum. Ef við erum spurð getum við umsvifalaust lýst því hvernig okkar málum er háttað. Ég veit, rétt eins og þú, hvernig ég myndi svara fjölmörgum spurningum. Hvernig maður var faðir þinn? Trúirðu á Guð? Hver er besti vinur þinn? Eftir hverju ertu að sækjast? Svör þín gefa ákveðna mynd af yfirborði þínu, sem virðist óbreytanlegt, en er það ekki í raun. Vegna þess að undir yfirborðinu sem þessi auðgefnu svör mynda býr annar Þú. Og þessi orðlausa Vera er ekki kyrr frekar en núið, hún þrýstir sér upp án útskýringa, fljótandi og orðlaus, þar til vitundin sem streitist á móti henni neyðist til að láta undan.

Það er Efinn (sem okkur virðist svo oft í fyrstu vera veikleiki) sem hrindir af stað breytingum. Þegar okkur finnst við óörugg, erum tvístígandi, þegar þekking sem hefur kostað okkur mikið að öðlast verður að engu fyrir augum okkar, stöndum við á mörkum nýs þroskaskeiðs. Það að sætta okkar ytri mann og okkar innri kjarna, hvort sem það gerist áreynslulítið eða harkalega, virðist oft í fyrstu líkt og mistök, eins og við höfum villst af leið og tapað áttum. En sú tilfinning kviknar bara af því að við þráum hið kunnuglega. Lífið vitjar okkar fyrir alvöru þegar umbreytingarorkan í hinum þögula kjarna sálarinnar, ryður sér leið í gegnum þær andlausu venjur sem hugurinn hefur tamið sér. Efi er hvorki meira né minna en tækifæri til að stíga að nýju inn í Núið.

Víkjum að leikritinu. Ég læt söguna gerast árið 1964, þegar ekki aðeins ég sjálfur heldur allur heimurinn virtist vera að ganga í gegnum einhvers konar gelgjuskeið, í mörgu tilliti. Gömlu gildin voru enn ríkjandi varðandi hegðun, klæðaburð, siðferði, sýn á heiminn, en það sem eitt sinn hafði verið lifandi ásýnd var orðið steinrunnin gríma. Ég var í kaþólskum kirkjuskóla í Bronxhverfinu, sem var starfræktur af Kærleikssystrunum. Þessar konur gengu í svörtum klæðum, trúðu á tilvist helvítis, hlýddu karlkyns starfsbræðrum sínum og uppfræddu okkur. Trúin, sem sameinaði okkur, snerist ekki bara um kennisetningar trúarbragðanna. Hún var í raun sameiginlegur draumur sem við vorum ásátt um að kalla Raunveruleika. Við vorum ekki meðvituð um það, en á milli okkar ríkti ákveðið samkomulag, samfélagssáttmáli. Við myndum öll trúa því sama. Við myndum öll trúa.

Þegar ég lít um öxl, horfir það þannig við mér að við sem vorum í þessum skólum á umræddum tíma höfum verið aldurslaus eining. Við vorum öll fullorðin og við vorum öll börn. Við höfðum, líkt og margar dýrategundir gera, hópast saman í leit að hlýju og öryggi. Af þeim sökum vorum við ákaflega varnarlaus gagnvart hverjum þeim sem leit á okkur sem væntanlega bráð. Þegar ætlast er til þess að algert traust ríki geta rándýrin óhindrað hrifsað til sín það sem þau vilja. Og svo sannarlega gerðu þau það. Líkt og bersýnilegt er af hneykslismálum innan kirkjunnar, sem sífellt teygja anga sína lengra, þá fengu þeir sem voru í leit að bráð gullið tækifæri til að fara sínu fram. Og hirðarnir, sem voru svo uppteknir af yfirborðinu, fórnuðu því sem var raunverulega gott fyrir dygðugt yfirbragð.

Ég hef aldrei gleymt lexíum þessa tímabils, en heldur ekki lært þær nógu vel. Ég læt mig enn dreyma um vissu sem maður deilir með öðrum, öryggiskennd, þá hugarró sem hlýst af því að trúa því að aðrir viti betur en maður sjálfur hvað sé fyrir bestu. En ég hef lært, af þeirri illu nauðsyn sem fylgir innihaldsríku lífi, að meta hina aldagömlu list vitra manna: Efann.

Það er erfitt skeið þegar trú manneskju er byrjuð að dvína en hræsnin hefur ekki enn tekið við, þegar róti hefur verið komið á vitundina en hún hefur ekki enn breyst. Þetta er hættulegasta og mikilvægasta reynsla lífsins, og fólk er stöðugt að verða fyrir henni. Upphaf allra breytinga er stund Efans. Það er örlagastundin þar sem ég endurnýja mennsku mína eða verð eitt með lyginni.

Efi útheimtir meira hugrekki en sannfæring, og meira þrek; vegna þess að sannfæring er hvíldarstaður og efi hefur engin takmörk – efi er ástríðufull glíma. Að leikritinu mínu loknu ert þú ef til vill á báðum áttum. Ef til vill myndirðu vilja geta verið viss. Þú skalt ekki gefa mikið fyrir þá tilfinningu. Við verðum að læra að lifa með óvissunni. Það er ekki völ á neinni lokaniðurstöðu. Í því felst þögnin sem býr undir öllu blaðrinu í samtímanum.

John Patrick Shanley

Brooklyn, New York, í mars 2005

John-Patrick-Shanley-,-no-foto-credit-REC-from-agent-12-01-18-kan-benyttes-vederlagsfrit-I-MEDIER

Um höfundinn

 

John Patrick Shanley (f. 1950) er bandarískt leikskáld og leikstjóri, en hann hefur einnig skrifað kvikmyndahandrit og leikstýrt kvikmyndum. Verk hans hafa unnið til fjölda verðlauna og má þar nefna Óskarsverðlaunin, Golden Globe-verðlaunin, Pulitzerverðlaunin og Tonyverðlaunin.

John-Patrick-Shanley-2,-no-foto-credit-REC-from-agent-12-01-18-kan-benyttes-vederlagsfrit-I-MEDIER

Efi: dæmisaga (Doubt: A Parable) er þekktasta leikrit Shanleys. Verkið var frumflutt í Manhattan Theatre Club í New York árið 2004 og sett upp á Broadway árið eftir. Verkið hlaut Obie-, New York Drama Cirtics' Circle-, Drama Desk-, Pulitzer- og Tonyverðlaunin og hefur verið sýnt víða um heim. Shanley byggði handrit sitt að kvikmyndinni Doubt á leikritinu. Hann leikstýrði sjálfur myndinni sem var frumsýnd árið 2008. Í aðalhlutverkum voru Meryl Streep, Philip Seymour Hoffman, Amy Adams og Viola Davis. Þau voru öll tilnefnd til Óskarsverðlaunanna fyrir leik sinn í myndinni. Shanley var tilnefndur til Óskarsverðlaunanna og Golden Globe-verðlaunanna fyrir handrit myndarinnar. Árið 2012 skrifaði Shanley líbrettó fyrir óperu sem var byggð á Efa, með tónlist eftir Douglas J. Cuomo.

Umhverfið í Efa minnir um margt á æskuslóðir Shanleys. Hann er kominn af írskum innflytjendum og ólst upp í Bronx í New York. Þar gekk hann í kaþólskan skóla sem var starfræktur af nunnum úr reglu Kærleikssystranna. Shanley segist hafa orðið fyrir miklum áhrifum frá einum af fyrstu kennurum sínum, systur Margaret McEntee, og segir persónu systur James í leikritinu byggða á henni. Kvikmyndin Doubt var tileinkuð McEntee, en hún var einnig ráðgjafi við gerð myndarinnar.

Í verkamannahverfinu sem Shanley ólst upp í bjuggu einkum fjölskyldur af írskum og ítölskum uppruna, líkt og í því umhverfi sem Efi gerist í. Hann segir þröngsýni og kynþáttafordóma hafa verið ríkjandi, og þetta hugarfar hafi átt afar illa við hann. Shanley hefur sagt frá því að hann hafi stöðugt verið að lenda í slagsmálum, allt frá sex ára aldri, þótt hann hafi sjaldan átt upptökin að þeim sjálfur. „Fólk leit á mig og reiddist við það eitt að sjá mig“, sagði hann í viðtali. „Ég held að ástæðan hafi verið sú að það áttaði sig á því að ég sá í gegnum það.“ Shanley lenti ítrekað upp á kant við skólakerfið og hefur sjálfur sagt svo frá, í gamansömum tón, að sér hafi verið vísað úr leikskóla heilagrar Helenu, hann hafi verið útilokaður frá hádegisverðinum í skóla heilags Antóníusar og rekinn úr Cardinal Spellman gagnfræðaskólanum. Eftir fyrsta árið í háskóla var honum gert að taka sér leyfi, og þá skráði hann sig í herinn um tíma. Að lokum útskrifaðist hann þó sem dúx með B.S.-próf frá New York háskóla (Steinhardt School of Culture, Education, and Human Development) árið 1977, en þar lagði hann stund á leiklistarkennslufræði.

Shanley hefur skrifað á þriðja tug leikrita og gjarnan leikstýrt sjálfur frumuppfærslum verka sinna. Leikrit hans eru mjög oft á fjölunum í Bandaríkjunum en þau hafa einnig verið þýdd á ýmis tungumál og leikin víða um heim. Fyrsta leikrit hans sem vakti verulega athygli var Danny and the Deep Blue Sea sem sýnt var bæði í New York og London árið 1984. Verkið var sett upp á Íslandi í leikstjórn Ásgeirs Sigurvaldasonar á vegum Andleikhússins árið 1992 undir heitinu Danni og djúpsævið bláa. Meðal annarra þekktra verka hans eru Italian American Reconciliation, Beggars in the House of Plenty og Four Dogs and a Bone. Meðal nýjustu verka hans eru Storefront Church, Outside Mullingar, Prodigal Son og The Portuguese Kid.

Shanley hefur skrifað nokkur kvikmyndahandrit og hlaut hann Óskarsverðlaunin fyrir handritið að kvikmyndinni Moonstruck (1987), með Cher og Nicolas Cage í aðalhlutverkum. Við afhendingu verðlaunanna sagðist hann vilja þakka "öllum sem einhvern tímann hafa kýlt eða kysst mig, og öllum sem ég hef einhvern tímann kýlt eða kysst."

 

Tóndæmi

Lag

Myndbönd

Gagnrýni

Systir Aloysius verður bæði ómótstæðileg og ógnvekjandi í túlkun Steinunnar Ólínu, hún drottnar yfir sviðinu og allar setningar sem eiga að vekja hlátur gera það

MBL, ÞT

Hilmir Snær Guðnason er framúrskarandi sem séra Flynn. Geislandi af persónutöfrum og brothættum myndugleika. Reynsla, færni og hæfileikar Hilmis Snæs nýtast til fullnustu í þessum stíl, ...

MBL, ÞT