27. Okt. 2019

Atómstöðin – endurlit frumsýnd á föstudag

Ný kynslóð leikhúslistafólks nálgast skáldsögu Nóbelskáldsins á ferskan og krassandi hátt

 

Þjóðleikhúsið frumsýnir Atómstöðina – endurlit, á Stóra sviðinu þann 1. nóvember næstkomandi. Halldór Laxness Halldórsson (Dóri DNA) semur, í samvinnu við Unu Þorleifsdóttur leikstjóra, nýtt og framsækið sviðsverk byggt á skáldsögu Nóbelskáldsins afa síns. Í þessari leiksýningu skoðar ný kynslóð leikhúslistafólks verkið í sögulegu samhengi og skapar krassandi og ögrandi sýningu, fulla af húmor.

Ebba Katrín Finnsdóttir þreytir frumraun sína í Þjóðleikhúsinu í hlutverki Uglu og Björn Thors leikur Búa Árland

Skáldsaga Nóbelskáldsins Halldórs Laxness Atómstöðin var afar umdeild þegar hún kom út árið 1948, enda fjallaði hún um mikið hitamál í íslensku samfélagi, herstöðvarmálið, sem snerist um „sölu landsins” eða „þátttöku þjóðarinnar í vestrænu varnarsamstarfi”, eftir því hvar fólk skipaði sér í fylkingar. Verkið er þó ekki síður ástarsaga Uglu, bóndadóttur að norðan sem kemur til Reykjavíkur til að læra á orgel, og Búa Árlands, þingmanns og heildsala.

Halldór Laxness Halldórsson semur nýtt leikverk, í samvinnu við Unu Þorleifsdóttur leikstjóra, þar sem þau nálgast skáldsögu Halldórs Laxness á ferskan og óvæntan hátt. Brugðið er nýju ljósi á umrót eftirstríðsáranna þar sem þjóð í litlu landi, mitt á milli Washington og Moskvu, stóð frammi fyrir stórum spurningum um framtíð sína. Í brennidepli í verkinu eru þjóðernisvitund og sjálfsmynd, tengsl litlu eyþjóðarinnar við umheiminn og hin eilífu átök auðstéttar og alþýðu.

Þetta er sjötta leikstjórnarverkefni Unu við Þjóðleikhúsið en áður hefur hún sett upp sýningarnar Konan við 1000°, Tímaþjófinn, Gott fólk, Harmsögu og Óvin fólksins. Halldór Laxness Halldórsson hefur getið sér gott orð sem uppistandari, handritshöfundur og ljóðskáld, en skrifar nú í fyrsta sinn leikverk fyrir Þjóðleikhúsið.

Höfundur leikmyndar og búninga, Mirek Kaczmarek, starfar nú í fyrsta sinn við Þjóðleikhúsið en hann á að baki um 200 leiksýningar í Póllandi, og hefur starfað með mörgum af virtustu leikstjórum pólsks nútímaleikhúss.

Hann var höfundur leikmyndar og búninga í sýningu Unu Þorleifsdóttur á ≈ [um það bil] í Kielce í Póllandi fyrr á þessu ári.

Ebba Katrín Finnsdóttir þreytir frumraun sína í Þjóðleikhúsinu í hlutverki Uglu, en hún vakti meðal annars athygli fyrir leik sinn í sjónvarpsmyndinni Mannasiðum, og var tilnefnd til Grímunnar 2019 fyrir leik sinn í söngleiknum Matthildi. Með hlutverk Búa Árlands fer Björn Thors.

Boðið verður upp á umræður eftir 6. sýningu á Atómstöðinni fimmtudagskvöldið 21. nóvember.

Sjá nánar um sýninguna hér .

 

Opnunartími miðasölu

Miðasala Þjóðleikhússins er opin virka daga frá kl. 14 – 18 og til kl. 20.00 á sýningarkvöldum. Um helgar er miðasalan opin frá kl 11 – 18 og til kl 20:00 á sýningarkvöldum

Heimilisfang
Hverfisgata 19, 101 reykjavík
Sjá á korti
Sími