Fyrri leikárSýningar

Samþykki

Spennuþrungið nýtt leikrit um völundarhús sannleikans, fullt af nístandi húmor

Kraftmikið, splunkunýtt verk um sambönd, traust, ástarþrá og svik, sem sló í gegn í Breska þjóðleikhúsinu á liðnu leikári, og var flutt yfir á West End.

Hvers vegna er réttlætisgyðjan yfirleitt sýnd með bundið fyrir augun? Er hún óhlutdræg? Eða getur hún verið blind á tilteknar staðreyndir?

Í vinahópi nokkurra lögfræðinga eru skiptar skoðanir á umdeildu dómsmáli. Lykilvitnið er kona sem tilheyrir heimi sem virðist í órafjarlægð frá lífi vinanna. En brátt er mál þessarar ókunnugu konu farið að hafa ófyrirsjánlegar afleiðingar á samskipti þeirra og ástarsambönd.

Hvernig getum við fengið fullvissu um hvað er satt og hvað logið? Hver er munurinn á hefndarþorsta og leit að réttlæti? Eru allir jafnir fyrir lögunum?

Leikstjóri sýningarinnar er Kristín Jóhannesdóttir, en nýjasta leikstjórnarverkefni hennar við Þjóðleikhúsið er Faðirinn, sem naut einstakra vinsælda leikhúsgesta.

Tekið skal fram að persónurnar í verkinu lýsa og vísa til kynferðisofbeldis.

Boðið verður upp á umræður eftir 6. sýningu, 16. nóvember. Umræðurnar taka um 20 mínútur.