Fyrri leikárSýningar

Með fulla vasa af grjóti

Bráðskemmtilegt verk, fullt af leiftrandi gamansemi og hlýju. Aðeins 10 sýningar!

  

Eftirlætissýning margra leikhúsgesta á svið í þriðja sinn 

Með fulla vasa af grjóti er bráðskemmtilegt leikrit sem hefur farið sigurför um heiminn, og hér sýna tveir af fremstu leikurum þjóðarinnar einstaka færni sína. Sviðsetning Þjóðleikhússins á leikritinu árið 2000 sló rækilega í gegn, sýningar urðu alls 180 og yfir 40.000 manns sáu verkið. Þegar sýningin fór aftur á svið árið 2012 bættust tæplega 10.000 áhorfendur við. Nú gefst enn á ný tækifæri til að sjá þessa frábæru sýningu.

 

Aðalpersónur verksins eru tveir náungar sem ráða sig sem aukaleikara í Hollywoodkvikmynd sem verið er að taka upp í nágrenni lítils þorps á vesturströnd Írlands. Fljótlega setur starfsemi kvikmyndafyrirtækisins allt á annan endann, og von bráðar eiga sér stað árekstrar á milli lífs Hollywoodstjarnanna og hversdagsleika sveitafólksins. Þessir árekstrar eru margir hverjir afar spaugilegir, en þeir geta einnig haft alvarlegar afleiðingar.

Í verkinu kynnumst við fjölda skrautlegra og skemmtilegra persóna og þeir Hilmir Snær Guðnason og Stefán Karl Stefánsson fara með öll fjórtán hlutverkin. 

Lokasýning í beinni útsendingu á RÚV

Lokasýningin verður í beinni útsendingu á RÚV og þá gefst öllum landsmönnum tækifæri til að njóta þessarar frábæru sýningar!

Hilmir Snær, Stefán Karl og Ian í viðtali á RÚV

Menningin, 30.7.2017

https://www.youtube.com/watch?v=pncajGAPY_w

 

Gamlar myndir úr sýningunni

Hilmir og Stefán í hlutverkum sínum í uppsetningu verksins árið 2000 og 2012

 

Grjot-13
Um leikritið

Með fulla vasa af grjóti, eða Stones in His Pockets, eftir Marie Jones er meðal þekktustu leikrita sem skrifuð hafa verið á Norður-Írlandi á síðari árum.

Verkið var upphaflega skrifað fyrir írska leikhópinn Double Joint og frumsýnt árið 1996. Jones endurskrifaði verkið fyrir Lyric-leikhúsið í Belfast árið 1999. Sýning Lyric-leikhússins var sýnd í Dublin og á Edinborgarhátíðinni sama ár. Verkið vakti þar mikla athygli og var í kjölfarið frumsýnt í New Ambassadors-leikhúsinu á West End árið 2000, í leikstjórn Ians McElhinneys. Sýningin sló í gegn, var flutt í Duke of York's leikhúsið og sýnd í þrjú ár samfleytt í London. Leikararnir í upprunalegu sýningunni léku verkið á Broadway, og tóku ýmsir leikarar við hlutverkum þeirra í London á sýningartímabilinu.

Verkið hefur frá frumsýningunni í London farið sigurför um heiminn og verið þýtt á fjölda tungumála. Það hefur hlotið ýmis verðlaun, og má þar nefna Laurence Olivier verðlaunin, Evening Standard verðlaunin og Irish Times/ESB leiklistarverðlaunin.

 

Hlutverk

Stefán Karl Stefánsson:
Jake Quinn - Aisling, 3. aðstoðarleikstjóri - Mickey, gamall aukaleikari - Sean Harkin, ungur piltur í þorpinu - John, framburðarkennari - Dave, tökumaður, Lundúnabúi - Kevin Docherty, fréttamaður

Hilmir Snær Guðnason: 
Charlie Conlon - Simon, 1. aðstoðarleikstjóri - Caroline Giovanni, kvikmyndastjarna - Clem Curtis, leikstjórinn - Harkin, faðir Seans - Fin, vinur Seans Harkins - Jock Campbell, öryggisvörður Caroline - Bróðir Gerard, kennari í þorpinu