Allt leikárið

Engillinn

 • Eftir Þorvald Þorsteinsson (Leiksýning byggð á verkum ÞÞ)
 • Leikstjórn og handrit Finnur Arnar Arnarson

Leiksýning byggð á textum og myndlist eftir Þorvald Þorsteinsson

 • Lengd 2:20 eitt hlé
 • Frumsýning 21.12.2019
 • Svið Kassinn

Heimspekileg absúrdrevía sem kætir, kitlar og kemur við okkur.

ÞT, MBL

Rithöfundurinn, myndlistarmaðurinn og kennarinn Þorvaldur Þorsteinsson (1960-2013) féll frá langt fyrir aldur fram, en skildi eftir sig fjölda verka sem notið höfðu mikillar hylli, meðal annars örleikrit, leikrit í fullri lengd og handrit fyrir sjónvarp og útvarp. Í leiksýningunni Englinum er arfleifð Þorvaldar heiðruð.

Finnur Arnar Arnarson, myndlistarmaður og leikmyndahöfundur, skapar sýningu upp úr verkum Þorvaldar þar sem saman koma örverk, brot úr lengri verkum og vísanir í myndlist og gjörninga.

Hversdagslega súrrealísk sýning sem kemur á óvart .


Boðið verður upp á 20 mín. umræður með þátttöku listamanna eftir 6. sýningu á verkinu laugardagskvöldið 11. janúar.

Næstu sýningar

Leikarar

Listrænir stjórnendur
 • Leiksýning byggð á verkum
  Þorvaldar Þorsteinssonar
 • Leikstjórn, handrit og leikmynd
  Finnur Arnar Arnarson
 • Dramatúrg
  Gréta Kristín Ómarsdóttir
 • Aðstoðarleikmyndahönnuður
  Þórarinn Blöndal
 • Búningar
  Þórunn María Jónsdóttir
 • Lýsing
  Ólafur Ágúst Stefánsson
 • Tónlist
  Pétur Ben og Elvar Geir Sævarsson
 • Hljóðmynd
  Kristján Sigmundur Einarsson og Elvar Geir Sævarsson
 • Sýningastjórn og umsjón, og þátttakandi í sýningu
  Guðmundur Erlingsson og Tómas Baldursson
 • Tæknimaður á sýningum

  Áslákur Ingvarsson

 • Leikmunadeild

  Halldór Sturluson (yfirumsjón sýningar)

 • Leikgervadeild

  Ingibjörg G. Huldarsdóttir, deildarstjóri og yfirumsjón sýningar. Þóra G. Benediktsdóttir, Valdís Karen Smáradóttir, Tinna Ingimarsdóttir, Salóme Jónsdóttir og Hildur Ingadóttir

 • Búningadeild
  Berglind Einarsdóttir deildarstjóri, Ásdís Guðný Guðmundsdóttir (yfirumsjón sýningar), Leila Arge, Hjördís Sigurbjörnsdóttir (yfirumsjón sýningar), Sigurbjörg Stefánsdóttir, Ingveldur Elsa Breiðfjörð
 • Ljósmyndir úr sýningu
  Saga Sig
 • Tónlist eftir Þorvald Þorsteinsson í sýningunni

  Fyrir sýningu og í hléi er leikin tónlist af plötunni Ósómaljóð, þar sem Megas syngur Ósómaljóð Þorvaldar Þorsteinssonar, ásamt Skúla Sverris­syni og ósæmi­legri hljóm­sveit. Lagið Á ekki að dansa af sömu plötu er lokalag sýningarinnar

Viðtöl
Finnur Arnar Arnarson, leikstjóri


Hversdagleikhúsið

Í tengslum við sýninguna Engilinn stendur Þjóðleikhúsið fyrir listgjörningi um allt land. Hversdagsleikhúsið verður að finna á 10 stöðum. Hversdagslegt rými verður leiksvið, fólk að störfum og gestir og gangandi í hversdagslegum erindagjörðum verða leikarar og þeim sem sest í sætið býðst að verða áhorfandi og vonandi sjá hversdagsleikann í nýju ljósi.

Sjá nánar um verkefnið hér .

Leikmynd úr nytjahlutum

Þjóðleikhúsið í samstarfi við Sorpu og Stólpa Gáma stóð fyrir söfnun á nytjahlutum í nóvember á endurvinnslustöð Sorpu í Ánanaustum í Reykjavík. Tilgangur söfnunarinnar var að safna efnivið í leikmynd sýningarinnar. Leikmynd þar sem persónulegir munir, hversdagslegir og veraldlegir hlutir sem fólk hefur eignast, notið, geymt, gleymt og losað sig við fá nýtt hlutverk á leiksviði.

Sérstökum söfnunargámi var komið fyrir í Sorpu Ánanaustum og fylltist hann á einni helgi. 

Gámurinn var svo opnaður með viðhöfn í leikhúsinu þann 7. nóvember á afmælisdegi Þorvaldar Þorsteinssonar.

Á sýningum geta áhorfendur keypt það sem þeir girnast úr leikmyndinni og fengið það afhent eftir að sýningum lýkur. Þannig öðlast hlutirnir framhaldslíf eftir að þeir hafa lokið hlutverki sínu á sviðinu.
Það sem ekki selst á sýningum verður sett í sölu í verslun Sorpu, Góða hirðinum. Öll innkoma af þessari sölu rennur til góðgerðarmálefna en það verður hlutverk Kvenfélagasambands Íslands að ráðstafa henni.

Leikmyndin er innblásin af verki Þorvaldar “tapað - fundið” sem var hluti af yfirlitssýningu listamannsins í Listasafni Reykjavíkur árið 2004. Sýningin bar yfirskriftina “Ég gerði þetta ekki.”

GAMUR2


Á ekki að dansa?

Engillinn

Takk

Á turni Kassans er hátalarakerfi þar sem heyrast lesin upp nöfn skattgreiðenda úr þjóðskrá með þökkum fyrir framlag þeirra til menningar og lista. Upplesturinn hefst tveimur tímum fyrir hverja sýningu á Englinum.

Listamenn og listnemar úr öllum áttum lesa upp nöfnin og þakkirnar.

Hér er á ferðinni endurgerð á verki sem Þorvaldur Þorsteinsson gerði í bænum Kotka í Finnlandi sumarið 1995. Þar fékk hann með sér í lið ungar konur sem mættu á hverjum morgni nema sunnudögum og lásu upp nöfn allra 60.000 íbúa bæjarins og þökkuðu þeim persónulega fyrir framlag sitt til menningar og lista. Verkið stóð yfir í þrjá mánuði.

Verkið vekur upp spurningar um hvar  mörkin liggi á milli listarinnar og almennings? Hversu persónuleg getur listin verið? Hvað er almenningslist? Hver á listina? Ef þúsundir einstaklinga eru á kredit-lista eins listaverks, verður það þá stærra eða merkara? 

Kökubasar á hverri sýningu

Á hverri sýningu standa hin ýmsu kvenfélög úr Kvenfélagasambandi Íslands fyrir kökubasar í hléi og rennur ágóði af sölunni til góðgerðarmála. Áhorfendur geta keypt sér kökur og annað bakkelsi og fá góðgætið afhent að lokinni sýningu.

Hér er vísað í innsetningarverk Þorvaldar Þorsteinssonar frá árinu 1996: „Næsti basar verður á laugardaginn kl. 15:00“ á einkasýningu hans í Listasafni Akureyrar.

Þorvaldur gerði þá samkomulag við fjögur kvenfélög á Akureyri um að halda sinn árlega kökubasar og handverksmarkað á sýningunni, á opnun hennar og síðan á hverjum laugardegi á meðan sýningin stóð yfir. Á hverjum laugardegi urðu þá til ný verk, heimagerðar kökur, handverk og jólaskraut. Sjá frekari upplýsingar um verk Þorvaldar á this.is/thorvaldur