Persónur og leikendur
Einræðisherrann
Heillandi, bráðskemmtileg og frumleg leiksýning um valdasýki, möguleika mennskunnar í trylltri veröld og baráttuna fyrir friði í heiminum.
Listrænir aðstandendur
- Höfundur
Charlie Chaplin
- Leikgerð og leikstjórn
Nikolaj Cederholm
- Meðleikstjóri
Malene Begtrup
- Leikmynd
Kim Witzel
- Búningar
Line Bech
- Tónlistarstjórn, píanóleikur og leikhljóð
Karl Olgeirsson
- Sviðshreyfingar
Anja Gaardbo
- Slapstick (skrípalæti, hlátraskellur)
Kasper Ravnhøj
- Lýsing
Ólafur Ágúst Stefánsson
- Hljóðmynd
Aron Þór Arnarsson
- Leikgervi
Ingibjörg G. Huldarsdóttir - Þýðing
Magnea J. Matthíasdóttir
- Sýningastjórn
María Dís Cilia
- Aðstoð við slapstick
Inga María Eyjólfsdóttir
- Textaaðstoð
Tryggvi Freyr Torfason - Leikgervadeild
Ingibjörg G. Huldarsdóttir deildarstjóri, Valdís Karen Smáradóttir, Þóra Guðbjörg Benediktsdóttir, Tinna Ingimarsdóttir
- Búningadeild
Leila Arge (yfirumsjón sýningar), Berglind Einarsdóttir (deildarstjóri) , Ásdís Guðný Guðmundsdóttir, Hjördís Sigurbjörnsdóttir, Sigurbjörg Stefánsdóttir, Ingveldur E. Breiðfjörð (búningaumsjón) - Leikmunadeild
Trygve J. Eliassen, yfirumsjón sýningar - Hljóðmenn
Eysteinn Aron Halldórsson og Eyvindur Þorsteinsson
- Stóra sviðið, yfirumsjón sýningar
Hildur Evlalía Unnarsdóttir
- Sviðsmenn
Hildur Evlalía
Unnarsdóttir, Siobhán Antoinette Henry, Stella Björk Hilmarsdóttir
- Leikmyndagerð
Smíðaverkstæði Þjóðleikhússins - Yfirsmiður
Michael John Bown
- Smiðir
Arturs Zorgis,
Haraldur Levi Jónsson, Gísli Bjarki Guðmundsson, Alex Hatfield, Valdimar
Fransson
- Yfirmálari
Rebecca Scott Lord
- Málarar
Arnar Geir Gústafsson,
Sigurlaug Knudsen Stefánsdóttir, Dagur Alex Ingason
- Framleiðslustjóri
Hákon Örn Hákonarson - Tónlist
Frumsamin
tónlist er eftir Karl Olgeirsson og Olivier Antunes. Einnig er meðal annars notuð
tónlist eftir Charlie Chaplin, Johannes Brahms, Igor Stravinsky, Frédéric F.
Chopin, David Byrne, H.C. Lumbye, Giuseppe Verdi, Eduardo di Capua og Shlomo
Yehuda Rechnitz.
- Heiti kvikmyndar Chaplins á frummálinu
The Great Dictator - Sýningarréttur á The Great Dictator
THE GREAT DICTATOR © Roy Export S.A.S. Öll réttindi áskilin.
Charlie Chaplin™ is a trademark and/or service marks of Bubbles Inc. SA and/or Roy Export S.A.S. used with permission. Charlie Chaplin™ © Bubbles Incorporated SA 2018.
Viðtal við Nikolaj Cederholm

Hvers vegna vakti það áhuga þinn sem
leikstjóra og leikritahöfundar að breyta kvikmynd frá 1940 í leikhúsverk?
Einræðisherrann
var upphaflega háðsádeila á þjóðhöfðingja sem þá var á lífi, það er að segja
Hitler. Chaplin hóf að skrifa handritið árið 1937, aðeins fáeinum árum eftir að
Hitler komst til valda en áður en seinni heimsstyrjöldin skall á. Chaplin gerði
kvikmyndina til að vara heiminn við því að þessi maður gæti tekið upp á hverju
sem væri en heimurinn hlustaði ekki á hann. Eða að minnsta kosti ekki nógu vel,
því að stríðið varð auðvitað að veruleika.

Viðburðirnir
í síðari heimsstyrjöldinni og eftir hana hafa gert Hitler að holdgervingi hins
illa og sturlaða einræðisherra. Við erum öll löngu orðin sammála um það og þess
vegna er ekki hægt að semja háðsádeilu um hann núna. Það er ekki hægt að ímynda
sér að neinn komi út úr leikhússalnum og segi: „Tóku þau ekki ansi harkalega á
Hitler?“ Þannig hefur sagan í Einræðisherranum breyst á okkar tímum og orðið að
táknsögu um alla þjóðernissinnaða leiðtoga og lýðskrumara. Einræðisherrann
nýtist okkur nákvæmlega þannig á okkar dögum því nú horfum við upp á sterkar þjóðernishreyfingar
sem hafa komist til valda eftir lýðræðislegum leiðum, alveg eins og á fjórða
áratugnum. Þetta er svipað og ef núna væri gerð kvikmynd sem gerði Trump eða
Pútín að athlægi. Hitler var vissulega kosinn til valda, alveg eins og Trump
var kosinn til valda. Það er nefnilega sama hvort manni líkar það eða ekki, það
er lýðræðið sjálft – fólkið sem kýs – sem velur sér leiðtoga sem grafa undan
því samfélagskerfi sem ber uppi siðmenninguna.

Þannig fór í
Þýskalandi á fjórða áratugnum og jafnvel þá var erfitt að skilja hvernig í
ósköpunum það gat gerst. Hvernig gat lyginn stjórnmálaleiðtogi komið fram á
sjónarsviðið og tekið völdin á undraskömmum tíma í svona háþróuðu ríki? Af
hverju var enginn sem stöðvaði hann? Þetta minnir uggvænlega mikið á það sem er
að gerast í Bandaríkjunum þessa stundina – jafnvel þótt þjóðernishyggjan á
okkar tímum hafi annan bakgrunn en þjóðernishyggjan á fjórða áratugnum.

Hvernig er sagan sem áhorfendur fá að kynnast
í Einræðisherranum?
Hún fjallar
að nokkru um baráttu litla mannsins gegn óréttlæti og kúgun samfélagsins,
djarfhuga rakara sem er hræddur alveg eins og við hin en reynir að gera það sem
er rétt og gott. Um leið er þetta saga um sjálfumglaðan harðstjóra sem hefur
hlotið of mikil völd og beitir þeim til ills. Kvikmynd Chaplins er þekkt fyrir
að boða húmanisma árið 1940, á tíma þegar veruleg ástæða var til að minna á
gildismat húmanismans. Í dag erum við ekki á sama stað, því að við höfum áttað
okkur á að jafnvel húmanisminn, sú siðferðilega hugmyndafræði sem mætti jafnvel
kalla undirstöðu Vesturlanda, er gölluð að því leyti að hún skipar manninum
hærri sess en nokkurri annarri lífveru. Smám saman rennur það upp fyrir okkur að
þannig getur það ekki verið til lengdar og ef við höldum því áfram deyjum við
út ásamt öllu öðru lífi á jörðinni. Ætli það sé þá ekki hægt að segja að við
flytjum sýninguna lengra inn í framtíðina en reynum að vera algjörlega trú þeim
anda sem Chaplin bjó kvikmyndinni.

Kvikmyndin er fræg fyrir miklar ræður.
Hvernig fórstu með þær í Einræðisherranum?
Það eru
þrjár stórar ræður í Einræðisherranum. Hynkel heldur fyrri ræðurnar tvær og þar
blaðaði ég í ræðum Hitlers til að komast að því hvað hann í rauninni sagði.
Önnur er þrumuræða gegn Gyðingum og hún er fjársjóðshirsla af andstyggð sem
hægt er að grípa til. Margt af því sem Hitler sagði um Gyðinga er áhugavert því
að þar heyrum við hávært bergmál skoðana sem við heyrum á okkar dögum um fólk
úr öðrum menningarheimum. Auk þess reyndi ég að skoða hvort Hitler hafi líka
sagt eitthvað af viti – hafði hann líka upp á eitthvað að bjóða? Sjálfsagt
hafði hann það stöku sinnum, en hann talaði auðvitað fyrst og fremst um hluti
sem við getum ekki öll verið sammála um en engu að síður eru í dag til
stjórnmálaflokkar sem halda þessu fram.
Þriðja og
síðasta ræðan er ræða rakarans þegar honum hefur verið ruglað saman við Hynkel
í lok myndarinnar. Í þeirri ræðu stígur skopleikarinn og maðurinn Charlie
Chaplin sjálfur fram úr hlutverki sínu – hann horfir beint í myndavélina og
talar persónulega og beint til áhorfenda.

Hvernig nálgast þú sem listamaður vinnuna
við eitt af verkum Chaplins?
Ég hef verið
aðdáandi Chaplins frá því að ég var lítill strákur og hef reynt að herma eftir
honum og ganga og hreyfa mig eins og hann. Hann er einn þeirra sem hafa haft
mest áhrif á það sem ég fæst við í dag. Með öðrum orðum mætti segja að hann sé
einn af stærstu fyrirmyndunum mínum. Heimspekileg viðhorf hans um að maður nái
lengst með kímni og að með því að beita hlátri sé hægt að segja ýmislegt sem
fólk myndi annars taka óstinnt upp finnast mér stórkostleg.
Chaplin er
líka aðdáunarverður því að hann gat gert svo margt – skrifað, samið tónlist,
leikstýrt, leikið og svo öll líkamlega fimin og færnin sem hann hafði. Auk þess
bjó hann yfir miklum persónutöfrum og þokka – maður kunni einfaldlega vel við
hann, þótt hann væri að gera fáránlega hluti. Allt þetta veldur því að erfitt
er að vinna með verk hans en það er líka stórkostlegt að fá tækifæri til þess. Chaplin skrifaði engin leikrit og þess vegna fær leikhúsfólk sjaldnast tækifæri til að vinna með hans verk.

Líf Chaplins
breyttist að mörgu leyti á dapurlegan hátt þegar hann neyddist til að flytja
frá Bandaríkjunum á sjötta áratugnum. Hann kom ekki aftur þangað fyrr en 1972,
þegar hann tók við heiðursverðlaunum Bandarísku kvikmyndaakademíunnar, og fimm
árum síðar lést hann í Sviss. Þar var lík hans reyndar grafið upp og
líkræningjarnir tveir reyndu að kúga fé út úr ekkjunni hans. Hún sagði
opinberlega að Chaplin hefði dáið út hlátri ef hann hefði heyrt þetta – og
neitaði að borga. Þess vegna neyddust líkræningjarnir til að aka um með Chaplin
í þrjá mánuði.
Það er fáránleg en engu að síður hvetjandi tilhugsun að þessi maður, sem hafði varið ævinni í að detta á rassinn og vera með
skrípalæti, gat ekki með nokkru móti hætt og að hann hafi jafnvel eftir dauðann
tekið þátt í þessum sígilda skopleik um dána manninn sem vingsaðist á milli
svikahrappanna tveggja í bílnum á meðan þeir reyndu að láta eins og allt væri í
stakasta lagi. Á endanum losuðu þeir sig við lík Chaplins á bakka Genfarvatns
og þar var hann jarðsettur aftur – í þetta sinn í steinsteyptri kistu til að
tryggja að hann færi ekki aftur á flakk.

Það er að öllu leyti gaman að vinna með Chaplin. Ef verk hans eru borin saman við verk t.d. Shakespeares eða Tsjekovs eða annarra leikskálda, þá er vinnan við verk Chaplins alltaf hressilegri og nýstárlegri en hinna, því að enginn hefur sett þau áður á svið. Reyndar er það líka spaugilegt að Chaplin og Hitler hafi ekki bara átt litla yfirvararskeggið og lágan vöxt sameiginlegt. Þeir fæddust líka sama ár og ekki nema fjórir dagar á milli þeirra. Þannig eru þeir algjörlega hliðstæðar manneskjur – en með gjörólík hugðarefni, ef svo mætti segja.
Hvað vonastu til að fylgi áhorfendum heim
eftir að þeir hafa séð sýninguna?
Ég hef að
vissu leyti ekki grænan grun um hvað kann að fylgja áhorfendum heim eftir
sýninguna. Alltaf þegar maður fer í leikhús snýst málið fyrst og fremst um að
vera mannlegur. Og það felst alveg jafnmikið í fáeinum hljómum á píanói eða í
handahreyfingu eins og í tilsvörum og söguþræði. Heildarsvipurinn og það sem
við raunverulega upplifum þegar við sitjum vonandi og engjumst af hlátri, í því
öllu felst miklu meira en bara sagan.
Ég vil trúa því að táknsaga eins og þessi bendi á hliðstæður milli nokkurra sögulegra tímaskeiða. Auk þess sem við getum notið Einræðisherrans eins og hann er, það er að segja leikgerðarinnar af verki Chaplins, gæti sýningin kippt í einhverja strengi milli okkar tíma og þeirra tíma þegar Chaplin gerði Einræðisherrann. Ef við erum að tala um boðskap þá er hann sá að til eru lýðræðisríki og ef þau eiga að haldast við lýði neyðumst við til að taka lýðræðið mjög alvarlega, því við sjáum það öll að það hefur hvað eftir annað leitt okkur á villigötur.
Þýð.: MJM

Charlie Chaplin og Einræðisherrann (1940)
Breski kvikmyndagerðarmaðurinn
Charles Chaplin (1889-1977) var brautryðjandi á mörgum sviðum lista, viðskipta
og mannúðar. Hann var leikstjóri, leikari, framleiðandi, handritshöfundur,
klippari og tónskáld. Auk þess var hann ein af fyrstu kvikmyndastjörnum
Hollywood, frumkvöðull í hagsmunabaráttu listamanna og pólitískur
aðgerðarsinni.
Ferill Chaplins spannar
meira en 75 ár. Hann hóf feril sinn á unglingsaldri sem farandleikari í Bretlandi.
19 ára gamall fluttist hann svo til Bandaríkjanna, þar sem hann skrifaði undir
samning við Keystone kvikmyndaverið og þróaði gamanstíl sinn, „slapstick“, – sem
á íslensku mætti útleggja sem hlátraskellu – og litla flækinginn, ástsælustu
persónu hans.

Hlátraskellan var
gífurlega vinsæl í Bandaríkjunum á fyrri hluta síðustu aldar. Stíllinn, sem byggist
á líkamlegu athæfi er knýr frásögnina áfram, var bæði fínlegri og fágaðri en áður
hafði þekkst í gamanleik. Sömuleiðis voru kvikmyndirnar metnaðargjarnari.
Sjónrænar atburðarásirnar voru vandlega útfærðar og fjölluðu frásagnirnar um
samtímamenningu og samfélag, með hárbeittum, djörfum húmor.
Litli flækingurinn kom
fyrst fyrir sjónir áhorfenda árið 1914 en átti síðar eftir að koma fram í það
minnsta 27 kvikmyndum, bæði stuttum og í fullri lengd. Flækingurinn var
rómantískur undirmálsmaður, bæði klaufalegur og einlægur, og vann sér samstundis
inn samkennd áhorfenda. Með því að klæða flækinginn upp eins og herramann og sýna
af sér háttvísi tókst Chaplin um leið að hæðast að óréttlátu stéttarsamfélagi
samtíma síns.
Árið 1919 var Chaplin
orðin ein skærasta stjarna heims og sama ár kom hann að stofnun hins óháða kvikmyndavers
United Artists, sem gerði honum kleift að framleiða sjálfur eigin kvikmyndir. Í
kjölfarið gerði hann lungann af rómuðustu kvikmyndum sínum, svo sem Gullæðið (1925), Sirkusinn (1928) og Nútímann
(1936), sem og Einræðisherrann
(1940), kvikmynd sem sennilega hefði aldrei orðið til ef ekki hefði verið fyrir
listrænt og fjárhagslegt sjálfstæði Chaplins.

Talið er að Chaplin hafi upphaflega
fengið hugmyndina að Einræðisherranum
eftir að hafa séð nasíska áróðursmynd Leni Riefenstahl, Sigur viljans árið 1935. Á meðan flestir urðu skelfingu lostnir
yfir valdboðun Hitlers í myndinni var Chaplin þvert á móti sagður hafa fyllst
innblæstri til að fjalla á ögrandi hátt um stigvaxandi ofbeldi og kúgun nasista
gegn gyðingum.
Á þessum tímapunkti í
sögunni voru þöglar myndir tæplega framleiddar lengur. Chaplin heyrði aftur á
móti til undantekningar á þeim háttum þar sem bæði gamanstíll hans og kvikmyndagerð
grundvallaðist umfram allt á látbragði en ekki texta og tali. Aðkallandi ádeila
á Hitler og nasisma virðist þó hafa orðið til þess að Chaplin ákvað loks að
ráðast í framleiðslu á sinni fyrstu talmynd árið 1938.
Einræðisherrann var frumsýnd tveimur árum síðar. Hins vegar hafði margt breyst síðan
framleiðsla myndarinnar hófst; Hitler og Mussolini höfðu myndað Öxulveldin,
Hitler hafði einnig skrifað undir griðasáttmála við Stalín, ráðist inn í
Pólland, Danmörku, Holland og Belgíu, og hernumið stærstan hluta Frakklands.
Chaplin sagði síðar í ævisögu sinni að ef hann hefði vitað til fulls hvernig
illvirkjum nasista hefði verið háttað, hefði hann aldrei gert Einræðisherrann.

Í myndinni nýtir Chaplin
sér umtöluð líkindi Hitlers og litla flækingsins og kynnir til leiks tvær nýjar
persónur; fasíska einræðisherrann Hynkel, sem drottnar yfir þjóðríkinu Tomainiu,
og ofsóttann rakara af gyðingaættum. Eins og venjulega tekst Chaplin að kalla
fram meðaumkun áhorfenda með litla manninum en í þetta sinn afhjúpar hann einnig
einræðisherrann sem trúð.
Chaplin sýnir fram á að
Hynkel drottnar í raun ekki yfir neinum. Hvorki undirmönnum sínum né þegnum
Tomainiu. Einstaka sinnum gefur hann skipanir en fyrst og fremst þiggur hann
ráðleggingar frá hershöfðingjunum sem hann raðar í kringum sig. Hynkel veigrar sér
við að takast á við skyldur sínar og skuldbindingar en dagdreymir þess í stað og dáist að
sjálfum sér.
Myndin er stútfull af skondnum
látbragðsleik og sígildum bröndurum. Til að mynda í blöðruballett Hynkels,
búðingahappdrættinu og mikilmennskutafli þeirra Hynkels og Benzino Napaloni,
einræðisherra Bacteriu. Helsta uppistaða grínsins felst svo auðvitað í því að
tvíförunum er ruglað saman á ögurstundu með ófyrirsjáanlegum afleiðingum.

Einræðisherrann var hvorki fyrsta paródían um Hitler, eða aðra einræðisherra, né sú
síðasta. Hins vegar skar hún sig úr pólitískum satírum seinni
heimsstyrjaldarinnar vegna lokasenunnar sem þótti mjög umdeild – þegar Chaplin horfir
í myndavélina og ávarpar áhorfendur, án nokkurra leikrænna tilþrifa eða gamansemi.
Ekki sem Hynkel, eða rakarinn, heldur sem kvikmyndastjarnan Charles Chaplin.
Í þriggja mínútna ávarpi fordæmir
Chaplin einræði og lofsamar þess í stað lýðræði og frelsi einstaklingsins.
Senan þótti mjög umdeild og misbauð predikun hans mörgum sem þótti það ekki
vera hlutverk kvikmyndagerðarmannsins að stíga í stólinn. Chaplin var engu að
síður staðráðinn í að halda ræðunni í myndinni og mögulega var hún helsta ástæðan
fyrir gerð hennar til að byrja með.
Þrátt fyrir að sæta mikilli gagnrýni og vera bönnuð í bæði hernuminni Evrópu og Suður-Ameríku var Einræðisherrann vel sóttur í Bretlandi
og Bandaríkjunum. Hún varð að lokum söluhæsta kvikmynd Chaplins fyrr og síðar
en auk þess hlaut hún alls fimm tilnefningar til Óskarsverðlauna, meðal annars fyrir
bestu mynd og besta leikara í aðalhlutverki.

Áhorfendur áttu hins
vegar erfitt með að skilja hugsjónir Chaplins frá bæði kvikmyndagerð hans og
stjörnuímynd eftir Einræðisherrann. Hann
gerði aldrei aftur mynd um litla flækinginn og tilraunir hans til að þróa nýjar
persónur runnu saman við annað hvort pólitískar skoðanir hans eða persónulegt
líf. Sjálfur fann hann fyrir vaxandi þörf til að tjá sannfæringu sína í verkum
sínum, ekki síst þegar líða tók á fimmta áratuginn.
Þetta varð til þess að
vinsældir Chaplins fóru að dala og aðsókn að myndum hans dvínaði, sér í lagi í
Bandaríkjunum þar sem hann sætti jafnframt miklum McCarthyofsóknum. Árið 1953 hrökklaðist
Chaplin svo alfarið frá Bandaríkjunum og settist að í Sviss. Þar sem hann lauk
glæstum kvikmyndaferli sínum fjórtán árum síðar.
Katrín Guðmundsdóttir,
kvikmyndafræðingur
Sýningarskrá
Sýningarskrá pdf
Viðtöl / myndbönd
Nikolaj Cederholm, viðtal
Sigurður Sigurjónsson, viðtal
Karl Olgeirsson, viðtal
Ilmur Kristjánsdóttir, viðtal
Einfaldlega falleg og glæsileg
listræn sýning
JSJ, Kvennablaðið
...ég hló og ég grét og svo grét ég úr hlátri
Helga Vala Helgadóttir
Unaður að fylgjast með Sigga og draumaliði leikara í frábærri sýningu
Sverrir Þór Sverrisson
Stórkostlegur Sigurður Sigurjónsson. Takk fyrir frábæra sýningu
Edda Björgvins
Okkur er sýnt mikið af faglegum vinnubrögðum í sýningu Þjóðleikhússins á Einræðisherranum
Silja Aðalsteinsdóttir, TMM