Allt leikárið

Brúðkaup Fígarós

Óperuuppfærsla í samstarfi við Íslensku óperuna

 • Lengd 2:55 eitt hlé
 • Frumsýning 7.9.2019

Íslenska óperan setur upp Brúðkaup Fígarós, í samstarfi við Þjóðleikhúsið, á Stóra sviðinu.

Óperan er byggð á gamanleikriti Beaumarchais og er full af fyndnum uppákomum, misskilningi og óvæntum uppljóstrunum. Verkið hefur engu að síður alvarlegan undirtón og felur í sér leiftrandi ádeilu á samskipti yfirstéttar og alþýðu.

Sagan gerist í kastala Almaviva greifa, í nágrenni Sevilla. Hinn kvensami greifi rennir hýru auga til Súsönnu, sem er þjónustustúlka eiginkonu hans. Daginn sem Súsanna á að giftast Fígaró hyggst greifinn nýta sér aldagamlan herrarétt til að sænga hjá henni. Greifafrúin og Súsanna taka höndum saman um að leika á greifann, og klækjabrögð þeirra hafa ýmsar kostulegar afleiðingar.

Ópera um ást, hjónaband, stéttaskiptingu og forréttindi, í nýrri og bráðskemmtilegri uppfærslu!


Íslenska óperan býður áhorfendum upp á umræður eftir 6. sýningu á Brúðkaupi Fígarós 5. október. 

Næstu sýningar

 • Engin sýning framundan

Söngvarar

 • Andrey-ZhilikhovskyGreifinn - sýningar í septemberAndrey Zhilikhovsky
 • Oddur-A.-JonssonGreifinn - sýningar í október Oddur A. Jónsson
 • Eyrun-UnnarsdottirGreifynjanEyrún Unnarsdóttir
 • Thora-EinarsdottirSúsannaÞóra Einarsdóttir
 • Andri-Bjorn-RobertssonFígaróAndri Björn Róbertsson
 • Karin-Bjorg-TorbjornsdottirCherubino Karin Björg Torbjörnsdóttir
 • Hanna-Dora-SturludottirMarcellinaHanna Dóra Sturludóttir
 • David-OlafssonBartóloDavíð Ólafsson
 • Sveinn-Dua-HjorleifssonBasilioSveinn Dúa Hjörleifsson
 • Eyjolfur-EyjolfssonDon CurzioEyjólfur Eyjólfsson
 • Harpa-Osk-BjornsdottirBarbarinaHarpa Ósk Björnsdóttir
 • Valdimar-HilmarssonAntonioValdimar Hilmarsson
 • Kór og hljómsveit Íslensku óperunnar

Listrænir stjórnendur o.fl.

 • Tónskáld
  Wolfgang Amadeus Mozart
 • Líbrettó
  Lorenzo da Ponte
 • Hljómsveitarstjóri
  Bjarni Frímann Bjarnason
 • Leikstjóri
  John Ramster
 • Leikmynd og búningar
  Bridget Kumak
 • Kórstjóri
  Magnús Ragnarsson
 • Lýsing
  Halldór Örn Óskarsson
 • Danshöfundur
  Katrín Gunnarsdóttir
 • Sýningarstjórn
  Börkur Hrafn Birgisson
 • Aðstoðarleikstjórn
  Níels Thibaud Girerd
 • Framleiðslustjórn

  Dýri Jónsson 

 • Hljóð á sviði

  Kristján Sigmundur Einarsson

 • Leikgervadeild Þjóðleikhússins

  Ingibjörg G. Huldarsdóttir, Tinna Ingimarsdóttir, Valdís Karen Smáradóttir, Þóra Benediktsdóttir, Guðbjörg Guðjónsdóttir, Hildur Ingadóttir, Unnur Día Karlsdóttir, Salóme Ósk Jónsdóttir, Svava Margrétardóttir, Harpa Finnsdóttir

 • Sviðsdeild Þjóðleikhússins

  Yfirumsjón: Alex Hatfield. Sviðsmenn: Valur Hreggviðsson, Melkorka Embla Hjartardóttir, Siobhán Antoinette Henry, Rökkvi Dýrason, Snorri Arnarsson

Söguþráður

Höll á Spáni, 1786.

Í stuttu máli: Í dag er brúðkaup! Fígaró elskar Súsönnu, Súsanna elskar Fígaró, greifinn er viss um að hann elski Súsönnu, Marsellína elskar Fígaró, Kerúbínó elskar allar konur, en greifynjuna þó mest allra og greifynjan elskar greifann sinn enn, en óskar þess þó heitt að svo væri ekki. Greifinn hefur hug á að draga Súsönnu á tálar og koma í veg fyrir brúðkaup hennar og Fígarós. En þjónustufólkið hans reynist klókara en hann óraði fyrir, sumir bregða fyrir sig hugvitssamlegum dulargervum, aðrir stökkva út um glugga, eiginkonan reynist bæði trúföst og klók og í ofanálag birtast foreldrar sem enginn átti von á. Smám saman verður vesalings greifanum ljóst að heimurinn er að breytast og að hann er ekki lengur einráður um alla hluti ...


1. þáttur

Í dag ætla þau Fígaró (rakarinn rómaði í Sevilla) og Súsanna, sem bæði eru dygg hjú hins vellauðuga og stórættaða greifa af Almaviva og greifynju hans, að ganga í það heilaga! Þau hafa hlakkað lengi til dagsins og eru önnum kafin við undirbúninginn. Þá dregur skyndilega ský fyrir sólu, því Súsönnu líst ekkert á nýju vistarverurnar sem greifinn hefur ætlað þeim hjónunum – en vill síður gefa upp ástæðuna fyrir því. Fígaró reynir að sannfæra hana um að herbergið þeirra sé bæði þægilegt og vel staðsett vinnunnar vegna, því þaðan geti þau haft auga með öllu því sem greifahjónin kunna að þurfa. Að lokum segir Súsanna honum að greifinn hafi valið þetta herbergi svo hann þurfi ekki að fara langt til að táldraga hana og að hann ætli sér að endurvekja gamlan og ljótan sið, primae noctis, sem veitir aðalsmanni rétt á að sænga hjá konu í hans þjónustu á brúðkaupsnótt hennar. Fígaró er afbrýðisamur að upplagi og Súsanna finnur að hann treystir henni ekki fyllilega. Hann heitir því að leggja allt í sölurnar til að ná fram hefndum á lostafullum greifanum.

Lögfræðingurinn Bartóló, sem Fígaró lenti í útistöðum við í Rakaranum í Sevilla, lofar að hjálpa ráðskonunni Marsellínu í málaferlum – hún hefur gert samning við Fígaró um að giftast henni ef hann getur ekki borgað henni gamla skuld strax í dag. Súsanna og Marsellína, konurnar sem elska Fígaró öðrum heitar, rífast heiftarlega. Kerúbínó, sem er hirðsveinn á unglingsaldri, þjakaður af hormónasveiflum, biður Súsönnu að hjálpa sér að forðast bræðiköst greifans og lýsir fyrir henni hve mikið hann elski allar konur. Þegar greifinn birtist til að fara á fjörurnar við Súsönnu felur Kerúbínó sig í skyndi. Fljótlega þarf greifinn að fara í felur líka, því hinn slægi tónlistarkennari Basilíó kemur inn og hefur ekkert gott í hyggju. Greifinn verður æfur þegar hann fréttir að Kerúbínó elski greifynjuna, en fellur allur ketill í eld þegar honum verður ljóst að hirðsveinninn í feluleiknum hefur orðið vitni að öllum tilraunum hans til að fleka Súsönnu. Fígaró birtist með kór sveitafólks, sem lofar greifann fyrir að hafa afnumið forna og úrelta lénsherrasiði, og greifinn neyðist til að samþykkja hjónavígsluna og blessa brúðhjónin. Greifinn skipar Kerúbínó að hypja sig þegar burt og ganga í herinn. Fígaró segir þessum unga, fordekraða yfirstéttarpilti að lífið í hernum verði talsvert ólíkt því sem hann hefur átt að venjast ...

2. þáttur

Greifynjan vill fá sinn kvensama ektamann aftur til sín, því annars muni hún deyja úr harmi. Fígaró setur saman ráðagerð um að lokka greifann í gildru, en til þess að það takist þarf Kerúbínó að dulbúast sem ung stúlka. Kerúbínó, sem hefur skráð sig í herinn, syngur greifynjunni ástaróð í kveðjuskyni. Súsanna lokar og læsir að þeim og dubbar Kerúbínó upp í kvenmannsföt. Greifynjan og Kerúbínó verða eftir í herberginu og verða öllu nánari en áður hafði verið. Þegar verst lætur ber greifinn að dyrum og veifar bréfi þar sem dylgjað er um að greifynjan eigi í ástarsambandi - en allt er það auðvitað hluti af ráðabruggi Fígarós. Kerúbínó felur sig inni í skáp en veltir einhverju um koll svo nærri kemst upp um allt. Greifynjan sver að Súsanna sé inni í skápnum og á meðan þau þrátta um þetta laumast Súsanna óséð inn – og við tekur franskur farsi af bestu gerð! Greifinn dregur eiginkonuna út og hyggst sækja verkfæri til að þvinga upp harðlæstan skápinn. Nú eru allar dyr læstar og Kerúbínó neyðist til að stökkva út um gluggann, en Súsanna tekur hans stað í skápnum og greifahjónin verða standandi bit þegar þau finna hana þar. Fígaró vill ólmur byrja brúðkaupsgleðina og verst allra svara um bréfið sem hann fékk. Antóníó, garðyrkjumaðurinn, ryðst inn og ber sig illa, því einhver virðist hafa stokkið út um glugga og traðkað niður fallegu blómabeðin hans. Fígaró þykist vera sá seki. Bartóló, Marsellína og Basilíó reyna að þröngva Fígaró til að standa við samning hans og Marsellínu og nú er búið að fresta brúðkaupinu! Hvernig ætli þetta endi eiginlega?

3. þáttur

Greifinn er ráðvilltur og miður sín eftir það sem á hefur gengið. Greifynjan telur Súsönnu á að mæla sér mót við greifann í hallargarðinum þá um kvöldið, en þar hyggst greifynjan grípa skúrkinn glóðvolgan. Greifinn verður í fyrstu alsæll, en gleðin breytist fljótt í bræði þegar hann áttar sig á tilganginum – og því næst kæti yfir að geta hugsanlega náð sér niðri á þjóninum Fígaró.

Marsellína hefur unnið málið gegn Fígaró – honum er skipað að giftast henni! Fígaró leitar allra leiða til að losna og segist hafa verið rænt sem kornabarni frá stórættuðum foreldrum og að lögum samkvæmt geti þau ein veitt honum leyfi til að kvænast. Skyndilega tekur Marsellína eftir fæðingarbletti á handlegg Fígarós og verður ljóst að hann er sonurinn sem hún eignaðist með Bartóló og lét frá sér nýfæddan. Þegar allir hafa greitt úr flækjunni eru þau Súsanna, Fígaró, Marsellína og Bartóló skyndilega orðin ein fjölskylda og gleðjast yfir því. Hvílíkur skratti úr sauðarleggnum! Barbarína, ung stúlka sem býr í nágrenninu, hefur falið Kerúbínó fyrir greifanum. Greifynjan les Súsönnu fyrir bréf sem hún á að senda til greifans – því stefnumótið í garðinum sem á að koma upp um kauða er aftur komið á dagskrá! Konur úr hópi leiguliðanna færa greifynjunni blóm til að gleðja hana svolítið. Allt heimilisfólkið safnast saman til að vera við brúðkaupið og þegar veislan stendur sem hæst laumar Súsanna bréfinu að greifanum, innsigluðu með brjóstnælu.

4. þáttur

Það er dimmt í hallargarðinum og Barbarína er búin að týna brjóstnælunni sem greifinn bað hana að skila til Súsönnu, til marks um að hann myndi hitta hana síðar, og þar sem hún heldur að Fígaró viti hvernig í öllu liggur segir hún honum frá óhappinu. Brúðguminn nýbakaði verður miður sín yfir svikunum og formælir öllum konum. Súsanna og greifynjan koma út í dimman garðinn og hafa nú tekið á sig gervi hvor annarrar. Kerúbínó reynir að táldraga greifynjuna, sem hann heldur að sé Súsanna. Greifinn hrekur Kerúbínó á flótta og ætlar sjálfur að komast yfir Súsönnu, sem hann veit ekki að er konan hans. Nú verður Fígaró loks ljóst hvernig í öllu liggur og blekkir Súsönnu með því að þykjast ætla að reyna við „greifynjuna“. Þau sættast heilum sáttum. Greifinn sér eiginkonu sína í ástarbrögðum við þjón sinn (að því er hann heldur). Þá stígur hin rétta greifynja fram og auðmýkir bónda sinn fyrir framan allt heimilisfólkið. Greifinn biður hana að fyrirgefa sér og hún virðist fallast á það. Allir á heimilinu fagna saman og þannig lýkur þessum snarruglaða degi.