Allt leikárið

Atómstöðin - endurlit

 • Eftir Halldór Laxness Halldórsson, í samvinnu við Unu Þorleifsdóttur, byggt á skáldsögu Halldórs Laxness
 • Leikstjórn Una Þorleifsdóttir

Nýtt og framsækið leikverk byggt á skáldsögu Nóbelskáldsins Halldórs Laxness

 • Lengd 2:45 eitt hlé
 • Frumsýning 1.11.2019
 • Svið Stóra sviðið
 • Atomstodin-2019-Bjorn-Thors-og-Ebba-Katrin-Finnsdottir_A730463

Besta sýning haustsins

SJ, Fbl.

Skáldsaga Nóbelskáldsins Halldórs Laxness Atómstöðin var afar umdeild þegar hún kom út árið 1948, enda fjallaði hún um mikið hitamál í íslensku samfélagi, herstöðvarmálið, sem snerist um „sölu landsins" eða „þátttöku þjóðarinnar í vestrænu varnarsamstarfi", eftir því hvar fólk skipaði sér í fylkingar. Verkið er þó ekki síður ástarsaga Uglu, bóndadóttur að norðan sem kemur til Reykjavíkur til að læra á orgel, og Búa Árlands, þingmanns og heildsala.

Í þessari leiksýningu skoðar ný kynslóð leikhúslistafólks verkið í sögulegu samhengi og skapar krassandi og ögrandi sýningu, fulla af húmor.

Halldór Laxness Halldórsson semur nýtt leikverk, í samvinnu við Unu Þorleifsdóttur leikstjóra, þar sem þau nálgast skáldsögu Halldórs Laxness á ferskan og óvæntan hátt. Brugðið er nýju ljósi á umrót eftirstríðsáranna þar sem þjóð í litlu landi, mitt á milli Washington og Moskvu, stóð frammi fyrir stórum spurningum um framtíð sína. Í brennidepli í verkinu eru þjóðernisvitund og sjálfsmynd, tengsl litlu eyþjóðarinnar við umheiminn og hin eilífu átök auðstéttar og alþýðu.

Halldór Laxness Halldórsson hefur getið sér gott orð sem uppistandari, handritshöfundur og ljóðskáld, en skrifar nú í fyrsta sinn leikverk fyrir Þjóðleikhúsið.


Næstu sýningar

 • Engin sýning framundan

Leikarar


Listrænir aðstandendur

 • Leikstjóri
  Una Þorleifsdóttir
 • Leikgerð
  Halldór Laxness Halldórsson , í samvinnu við Unu Þorleifsdóttur
 • Höfundur skáldsögu
  Halldór Laxness
 • Leikmynd og búningar
  Mirek Kaczmarek
 • Lýsing
  Ólafur Ágúst Stefánsson
 • Tónlist
  Gísli Galdur Þorgeirsson
 • Hljóðmynd
  Aron Þór Arnarsson, Kristinn Gauti Einarsson, Gísli Galdur Þorgeirsson
 • Dramatúrg
  Gréta Kristín Ómarsdóttir
 • Sýningarstjórn
  Elín Smáradóttir
 • Aðstoðarleikstjóri

  Anna MaríaTómasdóttir

 • Starfsnemi af sviðshöfundabraut LHÍ
  Brynhildur Karlsdóttir
 • Textaaðstoð

  Tryggvi Freyr Torfason 

 • Leikgervadeild

  Ingibjörg G. Huldarsdóttir deildarstjóri og yfirumsjón sýningar, Valdís Karen Smáradóttir, Þóra Guðbjörg Benediktsdóttir, Tinna Ingimarsdóttir

 • Búningadeild
  Berglind Einarsdóttir deildarstjóri, Leila Arge (yfirumsjón sýningar), Ásdís Guðný Guðmundsdóttir, Hjördís Sigurbjörnsdóttir, Helga Lúðvíksdóttir, Sigurbjörg Stefánsdóttir, Ingveldur Elsa Breiðfjörð
 • Leikmunadeild
  Trygve J. Eliassen, yfirumsjón og þátttakandi í sýningu
 • Stóra sviðið
  Yfirumsjón sýningar: Viðar Jónsson. Sviðsmenn og þátttakendur í sýningu: Lena Birgisdóttir, Sandra Ruth Ásgeirsdóttir, Rebecca Scott Lord, Sigurlaug Knudsen Stefánsdóttir og Viðar Jónsson
 • Leikmyndagerð

  Smíðaverkstæði Þjóðleikhússins og sviðsmenn. Smiðir: Arturs Zorgis og Michael John Bown. Málarar: Helgi Þórsson, Rebecca Scott Lord og Viðar Jónsson. Framleiðslustjóri: Hákon Örn Hákonarson

 • Ljósmyndir úr sýningu
  Hörður Sveinsson
 • Um tónlistina
  Tónlist í sýningunni er eftir Gísla Galdur Þorgeirsson, en einnig eru leikin og sungin brot úr lögum eftir aðra höfunda.
  Tónlist sem er leikin í sýningunni: Maístjarnan, rússneskt lag, útsett af Gísla Galdri, ljóð: Halldór Laxness, söngur: Snæfríður Ingvarsdóttir og Gísli Galdur Þorgeirsson. Gesang der Jünglinge og Telemusik, lög eftir Karlheinz Stockhausen. Vikivaki, lag eftir Valgeir Guðjónsson. Önnur sjónarmið, lag eftir Hilmar Oddsson. Tilbrigði við fegurð, lag eftir Gunnar Þórðarson. Lög sem eru sungin af leikhópnum í sýningunni: Ísland ögrum skorið, ljóð: Eggert Ólafsson, lag: Sigvaldi Kaldalóns. Ísland er land þitt, ljóð: Margrét Jónsdóttir, lag: Magnús Þór Sigmundsson. Önnur sjónarmið eftir Hilmar Oddsson. Vikivaki, ljóð: Jóhannes úr Kötlum, lag: Valgeir Guðjónsson. En þú varst ævintýr, ljóð: Davíð Stefánsson, lag: Pascal Pinon.
 • Lausavísa
  Í sýningunni er farið með þessa vísu Höskuldar Einarssonar frá Vatnshorni:
  Ljúga, stela, myrða menn,
  meiða vesalinga.
  Þessu tryði ég öllu enn
  upp á Húnvetninga.


Halldór Laxness og leikhúsið

Halldor-Laxness-Ljosmyndasafn-Rvk.-EPB-001-107-3-1Fjölmargar leiksýningar, sjónvarpsmyndir og kvikmyndir hafa verið byggðar á verkum Halldórs Laxness. Leikrit hans, og leikverk byggð á skáldsögum hans, hafa verið sýnd hjá Þjóðleikhúsinu, Leikfélagi Reykjavíkur, Leikfélagi Akureyrar, atvinnuleikhópum og áhugaleikfélögum.

Frumsamin leikrit Halldórs Laxness eru Straumrof, Silfurtúnglið, Strompleikurinn, Prjónastofan Sólin og Dúfnaveislan.

Skáldsögurnar Vefarinn mikli frá Kasmír, Salka Valka, Sjálfstætt fólk, Heimsljós, Íslandsklukkan, Atómstöðin, Kristnihald undir jökli, Innansveitarkronika og Gerpla hafa allar verið sviðsettar í leikgerðum, og eru til fleiri en ein leikgerð af mörgum þeirra.

Kvikmyndir og sjónvarpsmyndir hafa verið byggðar á skáldsögunum Sölku Völku, Atómstöðinni, Brekkukotsannál, Paradísarheimt og Kristnihaldi undir Jökli, leikritinu Silfurtúnglinu og smásögunum Ungfrúnni góðu og húsinu, Lilju, Jóni í Brauðhúsum og Veiðitúr í óbygðum.

Einnig hafa verk Halldórs Laxness orðið efniviður í dansverk og óperu og Ríkisútvarpið hefur flutt leikið efni af ýmsu tagi, byggt á verkum hans.

Halldor-Laxness-Loftur-Gudm.-1938-Ljs.Rvk-LG3-15700-minni

Halldór Laxness og Þjóðleikhúsið

Islandsklukkan-Laxness-med-leikurum-i-IKL

Tengsl Halldórs Laxness og Þjóðleikhússins voru alla tíð mikil. Halldór sat í þjóðleikhúsráði frá upphafi starfsemi þess, árið 1948, og allt til ársins 1969. Ein af þremur opnunarsýningum Þjóðleikhússins vorið 1950 var leikgerð skáldsögunnar Íslandsklukkunnar sem skáldið samdi í samvinnu við leikstjóra verksins, Lárus Pálsson, og í áranna rás hafa leikrit Halldórs og leikgerðir af skáldsögum hans oft verið á fjölum leikhússins.

Sýningar á leikritum Halldórs Laxness í Þjóðleikhúsinu:

1954 Silfurtúnglið. Leikstjórn: Lárus Pálsson.

Silfurtunglid-1954.-Herdis-Thorvaldsdottir-Loa-.-II-

1961 Strompleikurinn. Leikstjórn: Gunnar Eyjólfsson.

1966 Prjónastofan Sólin. Leikstjórn: Baldvin Halldórsson.

1975 Silfurtúnglið. Leikstjórn: Bríet Héðinsdóttir og Sveinn Einarsson.

1992 Straumrof. Sviðsettur leiklestur. Leikstjórn: Þórhallur Sigurðsson.

1992 Strompleikurinn. Sviðsettur leiklestur. Leikstjórn: Guðjón Pedersen.

1992 Prjónastofan Sólin. Sviðsettur leiklestur. Leikstjórn: Þórhildur Þorleifsdóttir.

2002 Strompleikurinn. Leikstjórn: Kristín Jóhannesdóttir.

Atli-og-Solla-Strompleikur-

Sýningar á leikgerðum byggðum á skáldsögum Halldórs Laxness í Þjóðleikhúsinu:

1950 Íslandsklukkan. Leikgerð: Halldór Laxness í samvinnu við Lárus Pálsson leikstjóra.

Islandsklukkan-1950.-Brynjolfur-Johannesson-Jon-Hreggvidsson-og-Herdis-Thorvaldsdottir-Snaefridur-Bjornsdottir-Eydalin-

1956 Íslandsklukkan, fyrrnefnd uppfærsla sýnd að nýju í tilefni Nóbelsverðlaunanna.

1968 Íslandsklukkan. Leikstjórn: Baldvin Halldórsson.

1972 Sjálfstætt fólk. Leikgerð og leikstjórn: Baldvin Halldórsson.

Sjalfstaett-folk-1972-Briet-Hedinsdottir-Robert-Arnfinnsson-Sigrun-Waage

1981 Hús skáldsins (Heimsljós). Leikgerð: Sveinn Einarsson. Leikstjórn: Eyvindur Erlendsson.

1985 Íslandsklukkan. Leikgerð og leikstjórn: Sveinn Einarsson.

Islandsklukkan-Tinna-sem-Snaefridur

1990 Úr myndabók Jónasar Hallgrímssonar. Leikgerð: Halldór Laxness. Leikstjórn: Guðrún Þ. Stephensen.

1992 Veiðitúr í óbygðum. Sviðsettur leiklestur á smásögu. Leikstjórn: Guðjón Pederson.

1998 Rhodymenia Palmata, ópera eftir Hjálmar H. Ragnarsson byggð samnefndum kvæðabálki Halldórs Laxness. Gestaleikur frá Frú Emilíu. Leikstjórn: Guðjón Pedersen.

1999 Bjartur – Landnámsmaður Íslands (Sjálfstætt fólk). Leikgerð: Kjartan Ragnarsson og Sigríður Margrét Guðmundsdóttir. Leikstjórn: Kjartan Ragnarsson.

Sjalfstaett-folk-2

1999 Ásta Sóllilja – Lífsblómið (Sjálfstætt fólk). Leikgerð: Kjartan Ragnarsson og Sigríður Margrét Guðmundsdóttir. Leikstjórn: Kjartan Ragnarsson.

Sjalfstaett-folk-Asta-Sollilja-1999.-Arnar-Jonsson-Bjartur-Herdis-Thorvaldsdottir-Bera-Margret-Vilhjalmsdottir-Bjort-litla-

2010 Gerpla. Leikgerð: Baltasar Kormákur, Ólafur Egill Egilsson og leikhópurinn. Leikstjórn: Baltasar Kormákur.

Gerpla-Theatre-in-Iceland-1

2010 Íslandsklukkan. Leikgerð og leikstjórn: Benedikt Erlingsson.

Islandsklukkan-2010.-Ingvar-E.-Sigurdsson-Jon-Hreggvidsson-Herdis-Thorvaldsdottir-modir-Jons-Hreggvidssonar-

2011 Heimsljós. Leikgerð og leikstjórn: Kjartan Ragnarsson.

Heimsljos-_B7D8318

2014 Sjálfstætt fólk – Hetjusaga. Leikgerð: Símon Birgisson, Ólafur Egill Egilsson og Atli Rafn Sigurðarson. Leikstjórn: Þorleifur Örn Arnarsson.

Sjalfstaett-folk-Thorleifur-IMG_8957_1572531360631

Ýmsar leiknar dagskrár hafa verið fluttar til heiðurs Halldóri Laxness í Þjóðleikhúsinu. Á 75 ára afmæli skáldsins árið 1977 var flutt dagskráin Mannabörn eru merkileg í umsjón Bríetar Héðinsdóttur. Í tilefni af áttræðisafmælinu 1982 flutti Þjóðleikhúsið dagskrána Ég er vinur farfuglanna undir stjórn Baldvins Halldórssonar. Þann 23. apríl 1987 efndi menntamálaráðherra til afmælishátíðar í Þjóðleikhúsinu og sá Sveinn Einarsson um undirbúning hennar. Árið 1992, á níræðisafmæli Halldórs, var haldin þriggja daga Laxnessveisla í Þjóðleikhúsinu þar sem fluttir voru sviðsettir leiklestrar á Straumrofi, Strompleiknum, Prjónastofunni Sólinni og Veiðitúr í óbygðum, auk hátíðardagskrár með ljóðalestri og leik- og söngatriðum í umsjón Þórhalls Sigurðssonar.

Atómstöðin á sviði og í kvikmynd

Skáldsaga Halldórs Laxness Atómstöðin kom út á bók árið 1948. Atómstöðin er nú sett á svið í Þjóðleikhúsinu í fyrsta sinn.

Atomstodin-bokarkapa

Leikfélag Reykjavíkur sýndi leikgerð Sveins Einarssonar og Þorsteins Gunnarssonar af bókinni, í leikstjórn Þorsteins, árið 1972. Margrét Helga Jóhannsdóttir fór með hlutverk Uglu og Gísli Halldórsson lék Búa Árland. Sýning Leikfélagsins var hljóðrituð og flutt í Ríkisútvarpinu ári síðar.

Atomstodin-LR

Leikfélag Akureyrar sýndi leikgerð Bríetar Héðinsdóttur, sem jafnframt leikstýrði verkinu, árið 1982. Sýning LA var sýnd sem gestaleikur í Þjóðleikhúsinu sama ár. Guðbjörg Thoroddsen lék Uglu og Theodór Júlíusson lék Búa Árland.

Atomstodin-kvikmynd-Tinna-Gunnlaugsdottir-Ugla-og-Bui-Arland-Gunnar-Eyjolfsson-

Kvikmyndin Atómstöðin var frumsýnd árið 1984, framleidd af kvikmyndafélaginu Óðni. Handritið sömdu Þorsteinn Jónsson, Þórhallur Sigurðsson og Örnólfur Árnason, en Þorsteinn leikstýrði. Tinna Gunnlaugsdóttir lék Uglu og Gunnar Eyjólfsson Búa Árland.

Atomstodin-kvikmynd-Arnar-Jonsson-og-Tinna-Gunnlaugsdottir

Atómstöðin var sett á svið hjá Dramaten í Stokkhólmi árið 1987 sem söngleikur undir heitinu En liten ö i havet, í leikgerð og leikstjórn Hans Alfredson. Sýningin var sýnd í Þjóðleikhúsinu sem gestaleikur um vorið. Með hlutverk Uglu fór Lena Nyman en Sven Lindberg lék bæði Búa Árland og organistann.

Í sýningu Þjóðleikhússins á Atómstöðinni 2019, fara Ebba Katrín Finnsdóttir og Björn Thors með hlutverk Uglu og Búa Árland. Halldór Laxness Halldórsson semur leikgerð, í samvinnu við Unu Þorleifsdóttur leikstjóra.

Atomstodin-2019-Bjorn-Thors-og-Ebba-Katrin-Finnsdottir_A730463

Verkið hefur einnig verið sýnt hjá áhugaleikfélögum, meðal annars Leikfélagi Menntaskólans á Akureyri, Leikfélagi Skagfirðinga, Skagaleikflokknum, Leikfélagi Blönduóss og sem samstarfsverkefni Leikfélags Selfoss og Leikfélags Hveragerðis.

Frá höfundi leikgerðar

Að skrifa leikverk upp úr Atómstöðinni er stærsta verkefni sem ég hef tekið þátt í á ferli mínum. Hverju get ég bætt við? Loddarinn sjálfur, spilltasti maður á Íslandi, svikuli arftakinn sem sveik sér leið að forstjórastólnum í stórfyrirtækinu Halldór Laxness Enterprises EHF.

Þarf ég ekki að spyrja einhverra spurninga? Eigum við að byrja á þessari; hvaða erindi á saga, úr 70 ára gamalli bók við fólk í dag? Sögu sem var kastaði eins og hnullungi beint inn í deilur sem tvístruðu þjóðinni.

Líklega ekkert. Líklega á engin saga nokkurntíma erindi við neinn, nema kannski Andrésblað þegar maður er á klósettinu. 

Eða hvað? Líttu í kringum þig. Facebook logar, fjölskylduboð eru bálköstur, í útvarpinu snarkar, síminn þinn er molotov-kokteill. Við erum öll ósammála, öll að rífast, öll með mismunandi skoðanir sem skella saman, dag út og dag inn eins og bitlaus sverð. Ein þjóð, 360 þúsund hugmyndir um hvernig sé best að gera hlutina. Þessi gröf er ekki nógu djúp til að rúma tilfinningar okkar allra, sagði Páll í Englum alheimsins og um leið urðum við öll jafn sturluð. Má kannski skoða hvenær við fórum að hata hvert annað? Byrjaði það þarna, eða hefur það alltaf verið svona? 

Hver er organistinn í dag - ein af þessum persónum sem hefur fengið snarpt taugaáfall með dassi af djúp-kulnun í starfi og hættir ekki að segja fólki hvernig á að lifa lífinu í gegnum netmiðla? Hver er Búi Árland, þú veist það alveg. Hann hefur aldrei farið neitt. Hann bakar kökur og mætir með glansandi lokka á Airwaves-hátíðina og geltir úr hlátri á sófanum hjá Gísla Marteini. Hann lætur þig ekki í friði, ekki einu sinni á næturna, því mögulega geymirðu hann í hjarta þínu. Hver er Ugla? Er hún þú, eða er hún ég? Líklegast er hún sú spegilmynd sem þú óskar að sjá í hvert einasta skipti sem þú speglar þig. Kannski er hún Sigmundur Davíð.

Hér eigum við ótal spurningar, en eins og vanalega bara eitt svar. Gjöriði svo vel.

Halldór Laxness Halldórsson


Viðtöl

Una og Halldór


Björn Thors og Ebba Katrín

Umfjöllun

Una Þorleifsdóttir er á góðum degi alveg sérlega flinkur sviðsetjari og hér rekur hver sláandi fagra og sterka myndin aðra.

Mbl., Þorgeir Tryggvason


Endurlit Dóra DNA og Unu Þorleifsdóttur á Atómstöð Halldórs Laxness er að mörgu leyti sterk sýning. Afburðavel sviðsett í glæsilegri umgjörð og setur sitt pólitíska ljós aldrei undir mæliker. …það er bit og flug í viðbótartextum Dóra. Dirfskan og sannfæringin er þarna, gleður, ergir og vekur.

Mbl., Þorgeir Tryggvason

Leikmynd Mireks er síðan stórglæsileg. … Tónlist Gísla Galdurs Þorgeirssonar er töff.

Mbl., Þorgeir Tryggvason

Ég þakka Þjóðleikhúsinu

María Kristjánsdóttir, Víðsjá, RÚV

Leikgerðin sjálf eftir þau Halldór Laxness Halldórsson og Unu Þorleifsdóttur leikstjórann sem kallast Atómstöðin – endurlit er flott tilraun. … ég var þó ansi ánægð með þessa frumraun Halldórs Laxness Halldórssonar sem reynist ekki bara vera fyndinn.

María Kristjánsdóttir, Víðsjá, RÚV

Ég legg til að Þjóðleikhúsið fastráði Mirek Kaczmarek. Búningar hans eru líka ævintýri út af fyrir sig,

María Kristjánsdóttir, Víðsjá, RÚV

Una Þorleifsdóttir leikstjórinn tekur í þessari sýningu stórt skref fram á við bæði hvað varðar kóreógrafíu og vinnu með leikurum

María Kristjánsdóttir, Víðsjá, RÚV

Í þeirri samvinnu skapar hin unga Ebba Katrín Finnsdóttir svo sterka, sjálfstæða, skondna og hrífandi Uglu að stuðlabergið nærri lyftist upp í Þjóðleikhúsinu þegar henni var fagnað í lokin. Ég hef varla séð Björn Thors nákvæmari og betri en í hlutverki Búa Árlands hins týpíska fágaða stjórnmálamanns sem maður veit að er ekki treystandi yfir þröskuldinn þó að hann sé heillandi á yfirborðinu.

María Kristjánsdóttir, Víðsjá, RÚV

Nákvæmur er líka Stefán Jónsson í hlutverki organistans og býr til alveg nýja og áhugaverðari mynd af organistanum en þá sem greypt er í huga þjóðarinnar. Birgitta Björnsdóttir sem hin óhamingjusama Frú Árland sveiflar sér af snilld yfir í heift yfirstéttarinnar og taugaveiklunarköst. Þá fær Snorri Engilbertsson loksins að njóta sín á sviði Þjóðleikhússins sem kraftmikill alþýðuforingi oft í beinu sambandi við áhorfendur. Í beinu og flottu sambandi við áhorfendur er líka Hildur Vala Baldursdóttir sem alþýðustúlka og þó alveg glæný í leikhúsinu.

María Kristjánsdóttir, Víðsjá, RÚV

Gísli Galdur Þorgeirsson ber ábyrgð á frumlegri tónlist og vali á söngvum í sýningunni sem koma æ ofan í æ skemmtilega á óvart.

María Kristjánsdóttir, Víðsjá, RÚV

Þessi sýning er undursamlega vel hugsuð og skemmtileg, táknrænir búningar Mireks Kaczmarek og sviðið sem stundum tók á sig ævintýraleg munstur, bæði veggir og gólf, tónlist Gísla Galdurs Þorgeirssonar og hljóðmynd hans, Arons Þórs Arnarssonar og Kristins Gauta Einarssonar, samsett úr áhrifshljóðum og vísunum í sönglög frá ýmsum tímum, og lýsing Ólafs Ágústs Stefánssonar, stundum vísvitandi skuggaleg. Textinn er líka úthugsaður til þess að okkur megi vera ljós snilld hins upprunalega höfundar, þar eru allar eftirminnilegustu setningar skáldsögunnar en settar í gott samhengi þannig að þær hanga ekki utan á leiktextanum eins og skraut.

TMM, Silja Aðalsteinsdóttir

Og textameðferð var aðdáunarverð. Þar er fremst meðal jafningja leikkonan unga, Ebba Katrín, sem gerði persónu Uglu með sinn kotroskna munnsöfnuð algerlega að sinni … Búa Árlands sem Björn Thors túlkaði af snilld. Frekju og hroka frú Árland túlkaði Birgitta af aðdáunarverðri stillingu … Stefán Jónsson setti alveg nýjan svip á organistann, framandi og spennandi … Þau voru bæði frábær! Hildur Vala fór glimrandi vel með ósvífinn inngangstextann að báðum helmingum sýningarinnar. Snorri minnti í senn á Fidel Castro og Che Guevara í gervi og fasi og var gersamlega heillandi.

TMM, Silja Aðalsteinsdóttir

Ég vona sannarlega að íslenskukennarar um land allt noti þetta tækifæri til að leyfa nemendum sínum að upplifa dýrlegan texta Nóbelsskáldsins og alla aðra hvet ég til að sjá hvernig má láta sjötugt verk lifna á sviði og segja sannleika sem því miður er ekki úreltur.

TMM, Silja Aðalsteinsdóttir