Nánar

Ljóð fyrir þjóð

Myndbönd


LJÓÐ

                                           Sólstöðuþula

Eftir Ólöfu Sigurðardóttur frá Hlöðum

Veltu burtu vetrarþunga,vorið, vorið mitt.
Leiddu mig nú eins og unga
inn í draumaland þitt.
minninganna töfratunga
talar málið sitt,
þegar mjúku, kyrru kveldin
kynda á hafi sólareldinn.
Starfandi hinn mikli máttur
um mannheim gengur hljótt,
alnáttúru æðasláttur
iðar kyrrt og rótt,
enginn heyrist andardráttur,
engin kemur nótt.
Því að sól á svona kveldi
sest á rúmstokkinn,
háttar ekki, heldur vakir,
hugsar um ástvin sinn.
Veit, hann kemur bráðum, bráðum
bjarti morgunninn.

Grípur hana snöggvast, snöggvast,
snöggt í faðminn sinn,
lyftir henni ofar, ofar,
upp á himininn.
Skilar henni í hendur dagsins,
í hjartað fær hún sting:
Æ, að láta langa daginn
leiða sig í kring.
Ganga hægt og horfa niðr‘á
Heimsins umsnúning.
Komast loks í einrúm aftur
eftir sólarhring,
til að þrá sinn unga unað,
yndissjónhverfing!
-
Þjaki hafsól þrár um nætur,
þá er von um mannadætur.


Til eru fræ
Eftir Davíð Stefánsson frá Fagraskógi

Til eru fræ, sem fengu þennan dóm:
Að falla í jörð, en verða aldrei blóm.
Eins eru skip, sem aldrei landi ná,

og iðgræn lönd, er sökkva í djúpin blá,
og von sem hefir vængi sína misst,
og varir, sem að aldrei geta kysst,
og elskendur, sem aldrei geta mæst
og aldrei geta sumir draumar ræst.

Til eru ljóð, sem lifna og deyja í senn,
og lítil börn, sem aldrei verða menn.


Við dúnhreinsum
Eftir Júlíönu Jónsdóttur

Dimmt er í dýflissu
dúns og svælu;
sit ég einmana,
súrnar í augum;
ramur reykur
rauna minna
þrýstir að brjósti,
en þreytist höndin.

Undir raula
rámir strengir
harmatölur
hljóðlauss muna.
Finn ég nú glöggt
að fáir eru mínir;
horfin er mér heill,
en harmur vakinn.