Allt leikárið

Leikhúsveisla í stofunni

Þjóðleikhúsið og RÚV bjóða landsmönnum í leikhús

  • Frumsýning 4.4.2020

Þjóðleikhúsið og RÚV bjóða landsmönnum til sannkallaðrar leikhúsveislu, nú þegar Þjóðleikhúsið þarf að fella niður sýningar vegna samkomubanns, með því að sýna í sjónvarpi margar af ástsælustu leiksýningum síðustu ára.

Leikhúsveisla í stofunni

• Þjóðleikhúsið og RÚV bjóða landsmönnum í leikhús

• Leiksýningar heima í stofu á tímum samkomubanns

• Stórafmæli leikhússins fagnað á sumardaginn fyrsta

Þjóðleikhúsið og RÚV bjóða landsmönnum til sannkallaðrar leikhúsveislu, með því að sýna í sjónvarpi allra landsmanna margar af ástsælustu leiksýningum síðustu ára. Boðið er til leikhúsveislu heima í stofu þar sem Þjóðleikhúsið þarf að fella niður sýningar vegna samkomubanns, en um leið er 70 ára stórafmæli leikhússins fagnað með endursýningum á mikilvægum sýningum úr sögu leikhússins.

Á laugardags- og sunnudagskvöldum næstu vikurnar kl. 19:30, þegar sýningar hefjast að jafnaði á sviðum Þjóðleikhússins, verða tjöldin dregin frá heima í stofu! Sýningarnar fara fram á RÚV2 og verða svo endursýndar í dagdagskrá RÚV.

Leikhúsunnendum gefst hér einstakt tækifæri til að rifja upp kynnin við leikhúsperlur eins og Í hjarta Hróa hattar, Græna landið, Með fulla vasa af grjóti, Hart í bak, Íslandsklukkuna og Engla alheimsins – eða sjá þessar mikilvægu sýningar úr leiklistarsögunni í fyrsta sinn.

Einnig verður barnasýningin Kuggur og leikhúsvélin sýnd að degi til.

Hápunktur þessarar miklu leikhúsveislu verður svo á sumardaginn fyrsta, daginn sem við fögnum 70 ára afmæli Þjóðleikhússins, þegar boðið verður upp á sýningu á einni af rómuðustu sýningum Þjóðleikhússins, Sjálfstæðu fólki frá árinu 1999 sem sýnd er í tveimur hlutum - en þess má geta að þetta er einnig afmælisdagur nóbelsskáldsins og höfundar verksins Halldórs Kiljans Laxness.  


Ýmsir rétthafar sem eiga rétt vegna endurflutnings verkanna ásamt RÚV og Þjóðleikhúsinu hafa gefið góðfúslegt leyfi sitt fyrir flutningi nú í samkomubanni.


Álfahöllin, heimildamynd Jóns Karls Helgasonar kvikmyndagerðarmanns um sögu Þjóðleikhússins, gerð árið 2010 í tilefni af 60 ára afmæli Þjóðleikhússins, verður einnig á dagskrá á RÚV1 sunnudaginn 19. apríl kl. 16.50.


Sjálfstætt fólk frá 1999 - Landnámsmaður Íslands

Ingvar E. Sigurðsson og Margrét Vilhjálmsdóttir ræða um uppsetningu verksins.

Sjálfstætt fólk 2

Sjálfstætt fólk frá 1999 - Ásta Sóllilja
Kjartan Ragnarsson og Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir ræða um uppsetningu verksins

Sjálfstætt fólk 2


Dagskrá:

Lau. 4. apríl kl. 19:30 á RÚV2: Í hjarta Hróa hattar

Geysivinsæl fjölskyldusýning úr smiðju Vesturports og Þjóðleikhússins frá árinu 2015, uppfull af leikhústöfrum. Gleymdu öllu því sem þú þykist vita um Hróa hött, því hér goðsögunni um þennan fræga útlaga snúið á hvolf í eldfjörugri sýningu. Höfundur: David Farr. Leikstjórn: Gísli Örn Garðarsson og Selma Björnsdóttir. 

Nýtt viðtal við Gísla Örn Garðarsson leikstjóra og Láru Jóhönnu Jónsdóttur leikkonu fyrir útsendingu.


Sun. 5. apríl kl. 19:30 á RÚV2: Hart í bak 

Upptaka af sýningu Þjóðleikhússins frá árinu 2008 á einni af perlum íslenskra leikbókmennta. Gunnar Eyjólfsson fer á kostum í hlutverki skipstjórans sem sigldi óskafleyi íslensku þjóðarinnar í strand. Hrífandi leikverk sem speglar íslenskan raunveruleika á einstakan hátt. Höfundur: Jökull Jakobsson. Leikstjórn: Þórhallur Sigurðsson.

Nýtt viðtal við Þórhall Sigurðsson leikstjóra og Elvu Ósk Ólafsdóttur leikkonu fyrir útsendingu.


Fös. 10. apríl, föstudagurinn langi, kl. 14:00 á RÚV2:  Kuggur og leikhúsvélin

Leiksýning Þjóðleikhússins (2015). Kuggur og Mosi fara í Þjóðleikhúsið til að horfa á skemmtilega leiksýningu. Málfríður og mamma hennar eru líka mættar með skrítin tól og tæki. Hér eru furðuverur eins og ruslaskrímsli og geðill geimvera en hvar eru leikararnir eiginlega? Höfundur: Sigrún Eldjárn. Leikstjórn: Þórhallur Sigurðsson. 


Lau. 11. apríl kl. 19:00 á RÚV2: Englar alheimsins  

ATH. BREYTTUR SÝNINGARTÍMI, 19:00

Leiksýning Þjóðleikhússins frá 2013 sem hitti þjóðina rækilega í hjartastað, byggð á einni áhrifamestu íslensku skáldsögu síðari ára. Ógleymanleg sýning sem lýsir árekstri tveggja heima, brjálseminnar og hversdagsleikans. Leikgerð Símonar Birgissonar og Þorleifs Arnar Arnarssonar, leikstjóra sýningarinnar, af skáldsögu Einars Más Guðmundssonar. 

Nýtt viðtal við Þorleif Örn Arnarsson leikstjóra og leikgerðarhöfund, Atla Rafn Sigurðarson leikara og Sólveigu Arnarsdóttur leikkonu fyrir útsendingu.


Sun. 12. apríl kl. 19:30 á RÚV2: Íslandsklukkan

Geysivinsæl afmælissýning Þjóðleikhússins frá 2010, stórvirki um hrífandi persónur, mögnuð örlög og tilvistarspurningar lítillar þjóðar. Ingvar E. Sigurðsson (Jón Hreggviðsson), Björn Thors (Magnús í Bræðratungu), Eiríkur Stephensen og Hjörleifur Hjartarson, Hundur í óskilum (tónlist) og Helga Björnsson (búningar) hlutu Grímuverðlaunin. Leikgerð Benedikts Erlingssonar, leikstjóra sýningarinnar, af skáldsögu Halldórs Laxness. 

Nýtt viðtal við Benedikt Erlingsson og Ilmi Kristjánsdóttur leikkonu fyrir útsendingu.


Lau. 18. apríl kl. 19:30 á RÚV2: Með fulla vasa af grjóti 

Leiksýning Þjóðleikhússins (2017). Hilmir Snær og Stefán Karl fara á kostum í einni vinsælustu sýningu leikhússins á síðari árum, sem var sett á svið 2000, 2012 og 2017. Yfir 55.000 áhorfendur sáu sýninguna á leiksviði og RÚV sýndi lokasýninguna í beinni útsendingu. Höfundur: Marie Jones. Leikstjórn: Ian McElhinney. 

Nýtt viðtal við Hilmi Snæ Guðnason fyrir útsendingu.


Sun. 19. apríl, kl. 19:30 á RÚV2: Græna landið 

Leiksýning Þjóðleikhússins (2003). Gunnar Eyjólfsson, Kristbjörg Kjeld og Björn Thors í áhrifamiklu verki um hlutskipti þeirra sem glata minningunum löngu áður en lífið hverfur þeim. Er einhver von til þess að öðlast fyrirgefningu áður en allt hverfur? Höfundur: Ólafur Haukur Símonarson. Leikstjórn: Þórhallur Sigurðsson. 

Nýtt viðtal við Björn Thors fyrir útsendingu.


Sumardagurinn fyrsti – Þjóðleikhúsið 70 ára – afmælisdagur Halldórs Laxness

Fim. 23. apríl, sumardagurinn fyrsti, kl. 16:00 á RÚV2: Sjálfstætt fólk - Bjartur, Landnámsmaður Íslands

Leiksýning Þjóðleikhússins (1999). Ein áhrifamesta leiksýning síðari ára, sannkallaður leiklistarviðburður með Ingvari E. Sigurðssyni og Margréti Vilhjálmsdóttur í hlutverkum Bjarts og Rósu. Leikgerð Sigríðar Margrétar Guðmundsdóttur og Kjartans Ragnarssonar, leikstjóra sýningarinnar, af skáldsögu Halldórs Laxness. 

Nýtt viðtal við Ingvar E. Sigurðsson og Margréti Vilhjálmsdóttur fyrir útsendingu.


Fim. 23. apríl, sumardagurinn fyrsti, kl. 19:30 á RÚV2: Sjálfstætt fólk - Ásta Sóllilja, Lífsblómið

Leiksýning Þjóðleikhússins (1999). Ein áhrifamesta leiksýning síðari ára, sannkallaður leiklistarviðburður með Arnari Jónssyni og Steinunni Ólínu í hlutverkum Bjarts og Ástu Sóllilju. Leikgerð Sigríðar Margrétar Guðmundsdóttur og Kjartans Ragnarssonar, leikstjóra sýningarinnar, af skáldsögu Halldórs Laxness. 

Nýtt viðtal við Kjartan Ragnarsson og Steinunni Ólínu Þorsteinsdóttur fyrir útsendingu.


Næstu sýningar

  • Engin sýning framundan