Sýningar

Eyður

Heillandi og húmorískt sviðsverk eftir verðlaunahópinn Marmarabörn

„Marmarabörn hafa verið að hasla sér völl síðustu misseri og stíga nú fram sem einn áhugaverðasti og djarfasti sviðlistarhópur landsins.” - SJ, Fréttablaðið

 Fimm strandaglópar ranka við sér á eyðieyju einhversstaðar milli raunheima og skáldskapar. Í framandlegu vistkerfi reyna þeir að endurskapa heiminn eftir minni. Á meðan leikmennina rekur á milli raunverulegra og ímyndaðra kringumstæðna birtast þeim sýnir á flökti milli fortíðar og framtíðar.

Marmarabörn (Marble Crowd) skapa myndræn sviðsverk þar sem hópurinn gerir atrennur að mögulegum og ómögulegum verkefnum. Eyður er önnur sýning þeirra í samstarfi við Þjóðleikhúsið en fyrri sýningin, Moving Mountains, var tilnefnd til gagnrýnendaverðlauna evrópska tímaritsins Tanz 2017 og var tilnefnd til Grímuverðlaunanna 2019 í flokknum danshöfundur ársins.


„Hún sagði að paradís væri líklega á einhverri eyjunni en þar væri helvíti líka.“
-Judith Schalansky.

Flytjendur:
Katrín Gunnarsdóttir, Kristinn Guðmundsson, Saga Sigurðardóttir, Sigurður Arent Jónsson og Védís Kjartansdóttir 

Marmarabörn í samstarfi við Þjóðleikhúsið. Verkefnið er styrkt af Mennta- og menningarmálaráðuneytinu - Leiklistarráði og Reykjavíkurborg.