MIðasala Þjóðleikhússins

Miðasala Þjóðleikhússins

Miðasala Þjóðleikhússins verður opnuð á nýjan leik eftir sumarfrí þann 5. ágúst.

Sími: 551-1200
Tölvupóstur: midasala@leikhusid.is
Staðsetning: sjá kort


Aðgengi

Aðgengi fyrir fatlaða

Grunnurinn að Þjóðleikhúsbyggingunni var tekinn árið 1929, á tímum þar sem ekki var hugað að aðgengi fyrir fatlaða að opinberum byggingum með sama hætti og nú. Á síðari árum hefur verið lögð mikil áhersla á það í Þjóðleikhúsinu að bæta aðgengi fyrir fatlaða, þótt við viljum gera enn betur, og var mikilvægum áfanga náð haustið 2018 þegar nýtt lyftuhús var tekið í notkun fyrir gesti á Stóra sviðinu. Við höldum áfram að bæta aðgengið og tökum með ánægju við ábendingum um það sem betur mætti fara í þessum efnum á leikhusid@leikhusid.is eða í miðasölu.

Stóra sviðið

Aðgengi að Stóra sviði Þjóðleikhússins fyrir fólk í hjólastólum eða aðra hreyfihamlaða er á austurhlið hússins. Nýtt lyftuhús var tekið í notkun haustið 2018, en þaðan er hægt að komast á 1. hæð (aðgengi fyrir hjólastóla inn í sal), 2. hæð (veitingaþjónusta á Kristalsal og salerni), og niður í Þjóðleikhúskjallara. Lyftuhúsið er alltaf opið fyrir sýningar. 

Bílastæði

Sérmerkt bílastæði fyrir fatlaða eru hægra megin við aðalinngang við Hverfisgötu og þaðan er rampur niður að lyftuhúsi. Til þess að komast inn í lyftuhúsið á jafnsléttu, ef rampurinn hentar ekki, er hægt að keyra að lyftuhúsinu frá Lindargötu, en þá þarf að láta bakdyravörð vita áður (s.585 1231). Bakdyravörður opnar hlið að bílastæðinu við Lindargötu, og þaðan er ekið alveg upp að lyftuhúsi. 


Bilastaedi-lyfta

Miðakaup

Þau sem þurfa að nýta aðgengi fyrir fatlaða á daginn, t.d. vegna miðakaupa, geta haft beint samband við miðasölu í síma 620 1185, til að láta opna lyftuhús sem er lokað yfir daginn. Lyftuhús opnar 30 mín. fyrir sýningar. 

Fólk í hjólastólum greiðir ekkert fyrir stæði fyrir hjólastóla og getur því séð sýningar leikhússins sér að kostnaðarlausu. Nauðsynlegt er hinsvegar að panta miða fyrir hjólastólastæði fyrirfram. Það er ekki hægt að panta stæði á netinu, heldur þarf að hafa samband við miðasölu (s. 551 1200). Ef um fjölmennari hópa er að ræða má fjarlægja nokkur föst sæti og búa þannig til aukið rými fyrir fleiri hjólastóla. Slíkt þarf þó að gera með góðum fyrirvara og áður en þau sæti verða seld öðrum.

Salur_tomur

Kassinn

Merkt bílastæði fyrir fatlaða er beint fyrir utan Kassann. Lyfta er vinstra megin við tröppur en láta þarf starfsmenn vita í vaktsíma (s: 620 1183) til þess að kveikja á lyftunni. Salur og salerni með aðgengi fyrir fólk í hjólastólum er á sömu hæð og inngangur. 

Kúlan 

Kúlan er í sama húsi og Kassinn, en aðgengi fyrir hjólastóla er frá bílastæði við Sölvhólsgötu.  Ekið er inn um hlið inn á bílastæði, en það er alltaf opið á sýningartímum. Til þess að komast inn í Kúluna þarf að láta starfsmann vita í vaktsíma (s: 620 1183) og þá er aðgengi um hurð á vesturhlið hússins. Því miður er ekkert salerni aðgengilegt í Kúlunni fyrir þá sem eru í hjólastólum, vegna upprunalegs byggingarlags hússins.

Staedi_Kassinn

Þjóðleikhúskjallari

Aðgengi fyrir hjólastóla niður í áhorfendasal Þjóðleikhúskjallara er um ofangreint lyftuhús að austanverðu. Lyftuhúsið er alltaf opið á sýningartímum. Aðgengi að bar og salerni í Leikhúskjallaranum er um aðra lyftu sem er að finna beint á móti útgangi stóru lyftunnar.