Þjóðleikhúsið hlaut flest Grímuverðlaun í ár

15. júní 2020

Atómstöðin atkvæðamest meðal annars valin leiksýning ársins.

Þjóðleikhúsið fékk alls 9 Grímur á verðlaunahátíð Sviðslistasambandssins í kvöld. Atómstöðin hlaut flestar Grímur eða alls fjórar þar á meðal fyrir leiksýningu ársins en einnig hlutu þær Una Þorleifsdóttir og Ebba Katrín Finnsdóttir verðlaun sem leikstjóri ársins og leikkona ársins í aðalhlutverki og Ólafur Ágúst Stefánsson, ljósahönnuður, fékk Grímuverðlaun fyrir lýsingu.
Finnur Arnar fékk Grímuverðlaun fyrir leikmynd ársins í Englinum. Dansverkið EYÐUR sem Marmarabörn settu upp í samstarfi við Þjóðleikhúsið fékk Grímuverðlaun fyrir búninga, tónlist og dans- og sviðshreyfingar. Brúðkaup Fígarós sem var samstarfsverkefni Íslensku óperunnar og Þjóðleikhússins hreppti ein Grímuverðlaun, en Karin Torbjörnsdóttir fékk verðlaun sem söngvari ársins.