Samtal við leikhús í Veröld á mánudaginn

04. október 2019

Fjallað um leiksýninguna Ör

Samtal við leikhús er málfundaröð til heiðurs Vigdísi Finnbogadóttur þar sem leikhúsfólk og fræðimenn koma saman og ræða uppsetningar á leikverkum sem eru í sýningu hjá leikhúsunum.

Fyrsta samtalið þetta haustið verður í Veröld – húsi Vigdísar þann 7. október kl. 17:00. Þar verður rætt um nýja sýningu Þjóðleikhússins á Ör (eða Maðurinn er eina dýrið sem grætur) eftir Auði Övu Ólafsdóttur. Skáldsaga Auðar Övu Ör, sem hlaut bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs árið 2018, spratt á sínum tíma af uppkasti höfundarins að leikriti sem hún hefur nú lokið við að semja. Leikritið er sjálfstætt verk sem lýtur eigin lögmálum, þótt það byggist á sama grunni og skáldsagan. Jónas Ebeneser, fráskilinn karlmaður á miðjum aldri, fær að vita að uppkomin dóttir hans, Vatnalilja, er í raun barn annars manns. Vængbrotinn reynir Jónas að átta sig á hlutverki sínu í heiminum og skilja konur. Leikritið Ör (eða Maðurinn er eina dýrið sem grætur) er í senn órætt, fyndið og ágengt, og spyr áleitinna spurninga um lífið og dauðann, samskipti kynjanna og leit að samastað í veröldinni.

Auður Aðalsteinsdóttir bókmenntafræðingur mun fjalla um verkið og verður svo í pallborði ásamt Ólafi Agli Egilssyni leikstjóra, höfundinum Auði Övu Ólafsdóttur og Baldri Trausta Hreinssyni leikara. Gréta Kristín Ómarsdóttir dramatúrg stýrir umræðunum.

Nánar um Samtal við leikhús hér.