Dagbók Þjóðleikhússins

Fyrirsagnalisti

Við drögum tjöldin frá innan skamms - 05. ágúst 2020 17:50

Í ljósi aðstæðna og tilmæla sóttvarnaryfirvalda frestast frumsýningar á tveimur leiksýningum, Framúrskarandi vinkonu og Kardemommubænum. Stefnt er að frumsýningu á Kardemommubænum þann 12. september og Framúrskarandi vinkonu þann 17. október. Við vonum að ekki þurfi að koma til frekari raskana á sýningahaldi, en við látum ykkur vita um leið og nánari upplýsingar liggja fyrir.

Gísli Örn Garðarsson setur upp Jólaboðið í Þjóðleikhúsinu - 17. júlí 2020 10:39

Gísli Örn Garðarsson skrifar og leikstýrir nýju verki sem verður sett upp í Kassanum í Þjóðleikhúsinu næsta haust. Verkið er saga einnar fjölskyldu í heila öld en endurspeglar í raun sögu heillar þjóðar. Leikverkið byggir á sígildu verki Thornton Wilder, The long christmas dinner, sem notið hefur mikillar hylli víða um heim en hefur enn ekki verið sýnt í atvinnuleikhúsi á Íslandi. 

Benedikt-Erlingsson-Lebruman-2018

Benedikt Erlingsson setur upp Nashyrningana eftir Ionesco - 15. júlí 2020 21:53

Benedikt Erlingsson mun leikstýra jólasýningu Þjóðleikhússins, Nashyrningunum eftir Ionesco. Nashyrningarnir eru eitt frægasta verk hins heimsþekkta fransk-rúmanska leikskálds Ionescos. Verkið fór eins og eldur í sinu um leikhús í Evrópu eftir að það var frumflutt árið 1959, og var leikið í Þjóðleikhúsinu strax árið 1961. Síðan þá hefur verkið veriðsett upp reglulega víða um heim og er löngu orðið sígilt. Áhorfendum verður nú boðið upp á nýja, ferska og fjöruga útfærslu Benedikts Erlingssonar og leikhópsins á þessu spennandi leikriti. Eins og venja er frumsýnir Þjóðleikhúsið á annan í jólum, 26. desember. 

Hilmir Snær til liðs við Þjóðleikhúsið - 06. júlí 2020 13:36

Hilmir Snær Guðnason verður fastráðinn við Þjóðleikhúsið frá og með haustinu. Hann bætist þar með í hóp þeirra fjölmörgu leikara og listrænu stjórnenda sem þegar hafa gengið til liðs við Þjóðleikhúsið á undanförnum mánuðum. Fyrsta verkefni hans á föstum samningi við Þjóðleikhúsið verður hlutverk í leikritinu Framúrskarandi vinkona, sem byggir á Napólísögum Ferrantes sem notið hafa gríðarlegra vinsælda um allan heim. Hilmir mun einnig leika í tveinur nýju íslenskum verkun, annars vegar eftir Tyrfing Tyrfingsson sem sett verður upp á Stóra sviðinu, og hins vegar í verki eftir Jón Gnarr sem sýnt verður í nýju hádegisleikhúsi Þjóðleikhússins.

Ólafur Egill skrifar og leikstýrir nýju verki um Ástu Sigurðardóttur - 04. júlí 2020 8:34

Ólafur Egill Egilsson er nú að leggja lokahönd á leikrit sem byggir á höfundarverki og ævi listakonunnar Ástu Sigurðardóttur. Ásta var lifandi goðsögn í bæjarlífi Reykjavíkur um miðbik síðustu aldar. Myndverk hennar, sögur, greinar og ljóð vöktu aðdáun og hneykslun, og oft urðu skilin á milli lífs hennar og höfundarverks óljós. Ólafur Egill gekk til liðs við Þjóðleikhúsið nú í vor og er hluti af nýju fastráðnu teymi listrænna stjórnenda leikhúsið. Ásta er fyrsta verkið sem Ólafur Egill vinnur eftir að hann tók við nýrri stöðu í leikhúsinu. Birgitta Birgisdóttir mun fara með hlutverk Ástu.

Þjóðleikhúsið hlýtur jafnlaunavottun - 01. júlí 2020 9:30

Þjóðleikhúsið hefur hlotið jafnlaunavottun samkvæmt jafnlaunastaðlinum ÍST85. Vottunin er staðfesting á því að jafnlaunakerfi Þjóðleikhússins stenst kröfur Jafnlaunastaðalsins og með jafnlaunavottuninni hefur Þjóðleikhúsið öðlast heimild Jafnréttisstofu að nota jafnlaunamerkið til næstu þriggja ára.

Magnús Geir Þórðarson þjóðleikhússtjóri tók við skírteini þessu til staðfestingar frá vottunarstofunni Icert ásamt hópi starfsfólks Þjóðleikhússins sem unnið hefur að vottunarferlinu.

Síða 1 af 17