Ari Matthíasson

Þjóðleikhússtjóri

Ari Matthíasson hefur gegnt embætti þjóðleikhússtjóra frá 1. janúar 2015.

Ari Matthíasson lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1984. Hann nam íslensku og bókmenntir við Háskóla Íslands einn vetur og útskrifaðist úr Leiklistarskóla Íslands 1991. Hann lærði Global eManagement við Háskólann í Aþenu árið 2002, og lauk MBA-prófi frá Háskólanum í Reykjavík 2003. Hann lauk MSc-prófi í hagfræði frá Háskóla Íslands 2010.

Hann starfaði sem framkvæmdastjóri Þjóðleikhússins 2010-2015. Hann var sérfræðingur hjá Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu árið 2010. Hann var framkvæmdastjóri SÁÁ 2006-2009. Hann var markaðsráðgjafi hjá Argus 2003-2006, framleiðandi hjá Sögn ehf. 2003-2004 og sölustjóri hjá Fasteignaþingi 2001-2003.

Ari starfaði sem leikari og leikstjóri hjá Leikfélagi Reykjavíkur, Þjóðleikhúsinu og víðar við fjölda leiksýninga á árunum 1991-2001.

Ari hefur leikið á fjórða tug hlutverka í Borgarleikhúsinu, Þjóðleikhúsinu og hjá leikhópum, meðal annars Floyd Knowles í Þrúgum reiðinnar, Vonisjev í Platonov, Osvald í Afturgöngunum, Ilkka Salmi í Dökku fiðrildunum, Halldór Killian í Íslensku mafíunni, Jón í Sumrinu ´37, Einar í Við feðgarnir, Orgelstillarann í Klukkustrengjum, Djuka Balic í Mírad, saga af dreng frá Bosníu og Giovanni í Við borgum ekki!

Hann hefur leikið í tuttugu kvikmyndum og fjölmörgum sjónvarpsleikritum og þáttum, m.a. í Veggfóðri, Sódómu Reykjavík, Malbiki, Cold fever, Næturvaktinni, Sigla himinfley, Nei er ekkert svar, Rocketman og The secret life of Walter Mitty.                

Ari hefur leikstýrt fimmtán verkum í Loftkastalanum, Borgarleikhúsinu, Chat Noir í Osló og víðar, en meðal leikstjórnarverkefna hans eru Cats, Hárið, Rocky Horror, Dýrin, Hangið heima, Saturday Night Fever, Skírnismál, Litla Hryllingsbúðin og Vetrarævintýri.