Þórunn Sigríður Þorgrímsdóttir

Þórunn Sigríður gerir leikmynd og búninga fyrir Efa - dæmisögu í Þjóðleikhúsinu leikárið 2017-2018.

Þórunn Sigríður hefur verið leikmynda- og/eða búningahöfundur að um fimmtíu leik- og óperusýningum heima eða erlendis og heldur uppá 40 ára starfsferil á þeim vettvangi um þessar mundir. Hún hefur að auki rekið eigið hönnunarfyrirtæki og hannað fjölda náttúru- og sagnfræðilegra sýninga fyrir söfn og stofnanir.

Þórunn Sigríður stundaði nám í myndlist og leikmyndateiknun í Reykjavík, Vín og Berlín á árunum 1971-79 og lauk meistaranámi hjá prof. Achim Freier frá Hochschule der Künste í Berlín.

Fyrsta verkefni Þórunnar Sigríðar fyrir Þjóðleikhúsið var leikmynd og búningar fyrir Stundarfrið árið 1979. Meðal verka sem hún hefur síðan unnið fyrir Þjóðleikhúsið eru Hvað sögðu englarnir?, Sumargestir, Garðveisla, Brúðarmyndin, Heimili Vernhörðu Alba, Sprengd hljóðhimna vinstra megin, My Fair Lady, Gaukshreiðrið, Hafið, Stakkaskipti, Brúðuheimili, Gullna hliðið, Horfðu reiður um öxl, Veislan, Vatn lífsins, Jón Gabríel Borkmann, Sorgin klæðir Elektru, Vegurinn brennur, Dínamít og Allir synir mínir. Þórunn var fastráðin sem leikmyndahöfundur og listrænn ráðgjafi við Þjóðleikúsið í um 7 ár til 2006. Síðast vann hún leikmynd fyrir jólasýningu Þjóðleikhússins leikárið 2015- 2016 við Sporvagninn Girnd.

Þórunn Sigríður hefur nokkrum sinnum verið tilnefnd til Grímunnar- Íslensku leiklistarverðlaunanna fyrir leik- eða óperusýningar.